141. löggjafarþing — 103. fundur,  14. mars 2013.

breytingar á stjórnarskrá.

[10:44]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegur forseti. Hér talar hæstv. forsætisráðherra eins og enginn sé morgundagurinn. Samkvæmt starfsáætlun á þinginu að ljúka á morgun en hér er talað eins og það sé hægðarleikur að koma inn með umræðu um stjórnarskrána og breyta núna einhverjum ákvæðum. Hæstv. forsætisráðherra og hæstv. ríkisstjórn hefur ekki gert það auðvelt að skapa umræður um stjórnarskrána í þessum þingsal því að ríkisstjórnin hefur sett sér það markmið að úthýsa verkefninu sí og æ.

Það sem ég er að tala um og varpa aftur fram spurningu um til hæstv. forsætisráðherra: Hvers vegna að leggja fram þetta breytingarákvæði á stjórnarskránni? Ég minni á að breytingarákvæði þyrfti að fara í gegnum þingið því að þetta er breyting á stjórnarskránni. Hafi frumvarpið ekki meiri hluta í þinginu eða hæstv. forsætisráðherra á einhvern hátt treystir sér ekki til að fara (Forseti hringir.) með það í gegnum þingið minni ég á að hér er verið að leggja fram stjórnarskrárbreytingu sem mundi fara í sama ferli. Nýtt þing þyrfti alltaf að samþykkja það frumvarp (Forseti hringir.) sem hér er lagt fram um að breyta stjórnarskrá.