141. löggjafarþing — 103. fundur,  14. mars 2013.

náttúruvernd.

429. mál
[21:49]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Að sjálfsögðu er ansi athyglisvert að eitt af stjórnsýslustigunum í landinu, sveitarstjórnarstigið, skyldi ekki hafa fengið að koma að undirbúningi málsins né heldur varðmenn landsins sem eru bændur. Það er náttúrlega með ólíkindum að sjá (Utanrrh.: Allt fyrir bændur gert.) hvert verklag núverandi ríkisstjórnar (Utanrrh.: Gert fyrir bændur og sveitarstjórnir.) hefur verið undir forustu hæstv. utanríkisráðherra, sem mér sýnist veita ríkisstjórninni forustu hér í kvöld. Ég er mjög ánægður með að hæstv. ráðherra sé kominn til umræðunnar vegna þess að einhver verður að svara fyrir málið. Ef það hefur ekki farið fram hjá hæstv. utanríkisráðherra (Gripið fram í.) liggja fyrir 56 breytingartillögur um málið af hálfu nefndarinnar sem sýnir náttúrlega hversu vanreifað það er.

Ætlar hæstv. utanríkisráðherra virkilega að verja það að málið verði keyrt í gegn í skjóli nætur gegn vilja 16 þús. Íslendinga? 16 þús. Íslendingar sem hafa yndi af útivist segja anda löggjafarinnar þannig að ekki sé við það búandi. (Gripið fram í.) Að sjálfsögðu eigum við að setja málið í þann farveg að allar þær miklu breytingartillögur meiri hluta nefndarinnar verði settar inn í frumvarpið, það verði sent aftur til umsagnar og afgreitt á haustþingi samhliða fjárlögum ársins 2014. Komið hefur fram, eins og hv. þm. Ásbjörn Óttarsson nefndi, að fjárlagaskrifstofa fjármálaráðuneytisins hefur sagt að það sé beinlínis ekki gert ráð fyrir peningum í verkefni sem tengjast frumvarpinu. Það er því eðlilegt að við spyrjum hvort einhver alvara sé á bak við þessa áætlun ríkisstjórnarinnar eða hvort menn vilji nota það til skrauts í kosningabaráttu að hafa barist fyrir því að (Forseti hringir.) koma náttúruverndaráætlun í gegnum þingið.