141. löggjafarþing — 104. fundur,  15. mars 2013.

störf þingsins.

[11:00]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Helga Hjörvar fyrir þessa spurningu. Það þarf enginn að velkjast í vafa um það að framsóknarmenn hafa lagt mikla áherslu á það að reyna að koma til móts við heimilin allt þetta kjörtímabil og munu reyna það á næsta kjörtímabili líka. Það þarf enginn að velkjast í vafa um það. Við höfum lagt fram fjölmargar tillögur um hvernig megi gera það.

Í efnahags- og viðskiptanefnd þar sem hv. þm. Helgi Hjörvar er formaður er einmitt tillaga sem lýtur að því að reyna að koma böndum á verðtrygginguna, setja á hana þak, takmarka möguleika bankanna á því að eiga verðtryggð lán, hætta að tengja gjaldahækkanir ríkissjóðs við vísitölu o.s.frv., allt til þess að reyna að ná tökum á verðtryggingunni, setja á hana þak þannig að hún hafi ekki þau áhrif sem hún hefur í íslensku samfélagi í dag.

En, jú, við ætlum að afnema verðtryggingu, við samþykktum það á landsfundinum okkar. Niðurstaðan varð að setja það fram eins áberandi og við gerðum og við teljum ekki lengur hægt að horfa upp á það að þegar einstaklingar koma í viðskiptabankana og taka lán er þeim beint, eða var, inn í það að taka verðtryggð lán. Það hefur reyndar aðeins breyst eftir að óverðtryggðu lánin urðu svona stór. Meðan bankarnir leika sér að þessu græða þeir þegar verðbólgan eykst. Þetta er það sem við leggjum áherslu á og segjum í ályktun okkar þannig að það sé alveg á hreinu að við ætlum að fela starfshópi að útfæra hvernig þetta er gert. Af hverju segjum við að það sé? Við erum í fjögur ár búin að berjast fyrir því að sá óskapnaður sem verðtryggingin er í íslenskum lánum hjá neytendum verði sett aftur fyrir, að við hættum að trúa á þetta fyrirbæri.

Það höfum við ekki getað gert vegna þess að alls staðar eru einhverjir varðmenn fyrir verðtrygginguna, þar á meðal á þingi og inni í helstu stofnunum sem stýra þessu samfélagi. Eina ráðið er að fara þessa leið og ekki (Forseti hringir.) leita til þessara sérfræðinga — (Gripið fram í: Þið vilduð ekki svara …) Við höfum líka lagt fram tillögur (Forseti hringir.) um að það verði að leiðrétta lánin afturvirkt en er hægt að afnema (Forseti hringir.) verðtrygginguna afturvirkt án einhverra skaðabóta? Það er búið að gera verðtryggða samninga sem hafa gengið kaupum og sölum sem hafa kannski eignarrétt o.s.frv. (Gripið fram í.) Er það hægt? (Gripið fram í.) Það er nákvæmlega það sem við verðum að skoða. Það (Forseti hringir.) er ekki hægt að fara fram með óábyrg loforð í því, [Hlátur í þingsal.] það er bara ekki hægt, það er bara ekki hægt, (Forseti hringir.) enda hefur enginn sagt að það eigi að (Forseti hringir.) afnema verðtryggingu af lánum afturvirkt. (Gripið fram í.) (Gripið fram í: … forsætisráðherra.)