141. löggjafarþing — 104. fundur,  15. mars 2013.

tekjuskattur.

680. mál
[11:26]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla líka að byrja á því að fagna framlagningu þessa frumvarps. Hér er tilraun til þess að taka á vanda þeirra sem eru með lánsveð, oftast nær hjá öldruðum foreldrum sínum. Þetta leysir þó ekki allan vanda í þeim tilvikum þar sem foreldrar vilja til dæmis selja húsnæði sem þeir hafa lánsveð á og geta ekki fært það yfir á eign barna sinna vegna of mikillar skuldsetningar. Nokkur slík tilvik eru til staðar. Ég vil benda á þau og spyrja hæstv. ráðherra hvort eitthvað hafi verið rætt hvernig mætti koma til móts við þennan hóp líka.

Á sama tíma vil ég benda á að hér erum við enn og aftur að ræða og að fara að innleiða sértæk skuldaúrræði. Ég hef ekki tölu á öllum þessum sértæku skuldaúrræðum, sem eru alltaf svo afmarkandi að það er einhver hópur sem úrræðið nær ekki til. Í þessu tilfelli höfnuðu lífeyrissjóðirnir sértæka skuldaúrræðinu, 110%-leiðinni, sem stjórnarmeirihlutinn lýsti þannig að við ættum bara að flytja út af því að þetta væri besta skuldaúrræði sem nokkurn tíma hefði litið dagsins ljós. Auðvitað sýndi svo reynslan okkur að 110%-leiðin er afskaplega skammvinnt úrræði hjá fólki með verðtryggð lán. Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra, hversu mörg eru sértæk skuldaúrræði þessarar ríkisstjórnar og hversu margra nýrra sértækra skuldaúrræða megum við vænta?