141. löggjafarþing — 104. fundur,  15. mars 2013.

tekjuskattur.

680. mál
[11:51]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, ég tel ekki að almennir neytendur, heimilin á Íslandi, eigi að axla ábyrgð á baráttunni við verðbólguna. (Gripið fram í.) Það á meðal annars fulltrúi stjórnvalda, hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra að gera, það eiga lífeyrissjóðirnir að gera, það eiga fjármálafyrirtækin að gera, það eiga fyrirtækin að gera, það eiga sveitarfélögin að gera en ekki heimilin eins og staðan er núna. Það kemur meira að segja fram í skýrslu sem fyrrverandi fjármálaráðherra gaf út um lánamál ríkisins að litið er á verðtryggð lán námsmanna sem tryggingu ríkisins gegn verðbólgu. Aumingja námsmennirnir eiga að taka á sig verðbólguna fyrir ríkið í staðinn fyrir að ríkið axli ábyrgð á baráttunni við verðbólguna.

Þegar menn segja að þeir vilji að fólk hafi val, um hvað er valið? Val um að borga íbúðina sína margfalt? Val um að skuldsetja sig langt umfram (Gripið fram í.) raunverulega getu til þess að endurgreiða kostnaðinn við lántökuna? Það sem ég held hins vegar að ég og hæstv. ráðherra séum sammála um er að við viljum tryggja raunverulegt val varðandi húsnæðismál þannig að fólk þurfi ekki fyrst og fremst að skuldsetja sig til að tryggja sér öruggt húsnæði. Tillögur okkar í verðtryggingarnefndinni gengu nákvæmlega út á að komið væri á lagaumhverfi varðandi fasteignalán sem tryggðu það í stað villta vestursins sem er til staðar núna hvað varðar fasteignalán.

Það eru engin lög í gildi um lengd lána sem eru veitt hjá fjármálafyrirtækjunum. Það eru engin lög varðandi þau greiðsluerfiðleikaúrræði sem eru í gildi, ekkert varðandi veðsetningarhlutfallið, ekkert varðandi fjármögnun á þeim lánum heldur, það vantar allt saman. Ég hef kallað eftir því. Það er í tillögum okkar. Það er líka í tillögum okkar að bætt verði við stýritæki Seðlabankans um að fjármálafyrirtæki geti ekki grætt á verðbólgunni, að Seðlabankinn þurfi að setja reglur um það. (Forseti hringir.) Síðast en ekki síst teljum við mikilvægt að ná tökum á vöxtunum sjálfum og þá þurfum við að hafa kjark til að takast á við lífeyrissjóðina en ég tel skorta eilítið á hann hjá ríkisstjórninni, að fara í ávöxtunarkröfur sjóðanna.