141. löggjafarþing — 104. fundur,  15. mars 2013.

opinberir háskólar.

319. mál
[14:38]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti með breytingartillögu um frumvarp til laga um breytingu á lögum um opinbera háskóla.

Meginmarkmið fyrirliggjandi frumvarps er að allir opinberir háskólar búi við sama lagaumhverfi. Með frumvarpinu eru því lagðar til breytingar á lögum um opinbera háskóla, sem fela í sér að starfsemi Landbúnaðarháskóla Íslands og Hólaskóla – Háskólans á Hólum verði felld undir lög um opinbera háskóla. Þá er lagt til að lög um búnaðarfræðslu falli brott, auk þess sem lagt er til að samstarf opinberra háskóla verði lögfest með svokölluðu háskólaneti. Við gerð frumvarpsins var leitað samráðs við helstu hagsmunaaðila auk þess sem frumvarpsdrögin voru sett í opið umsagnarferli og hagsmunaaðilum og áhugasömum gefinn kostur á að senda inn athugasemdir og umsagnir um málið.

Meiri hlutinn telur efni og markmið fyrirliggjandi frumvarps jákvætt. Eðlilegt og brýnt er að allir opinberir háskólar verði jafnsettir gagnvart lögunum og búi við sama lagaumhverfi. Meiri hlutinn telur einnig mikilvægt að samstarf opinberra háskóla sem hófst árið 2011 verði formfest með stoð í lögum líkt og lagt er til.

Fyrir nefndinni var gagnrýnt að ekki væri gert ráð fyrir formlegu utanumhaldi um búfræði- og garðyrkjunám hjá Landbúnaðarháskóla Íslands. Meiri hlutinn áréttar að skólinn hefur samkvæmt lögum um háskóla verið viðurkenndur á tveimur fræðasviðum og undirflokkum þess, þ.e. á sviði búvísinda og náttúruvísinda. Undirflokkar þess eru búfræði, hestafræði, náttúru- og umhverfisvísindi, skógfræði, landgræðslufræði og umhverfisskipulag. Nefndin hefur fengið upplýsingar um að innan þessara sviða hefur skólinn fullt frelsi til að þróa áfram námsskipulag og námsframboð í þessum fræðum.

Jafnframt hefur komið fram gagnrýni á að starfsmenntun sé ekki skilgreind sem eitt af lykilverkefnum Landbúnaðarháskólans, en við bendum á að samkvæmt ákvæði til bráðabirgða veitir ráðherra skólanum heimild til að reka starfsmenntun á framhaldsskólastigi og gera sérstakan samning um þann hluta starfsemi Landbúnaðarháskóla Íslands sem fellur undir lög um framhaldsskóla. Nefndin fékk þær upplýsingar hjá mennta- og menningarmálaráðuneyti að í samræmi við lög hefði ráðuneytið þegar gengið frá samningi við skólann sem og aðra háskóla landsins um kennslu og rannsóknir þeirra út árið 2016. Í samningi Landbúnaðarháskóla Íslands segir um þjónustu og verkefni skólans að skólinn reki starfsmenntanám á framhaldsskólastigi á sviði garðyrkju og búfræði sem einnig nýtist sem aðfaranám inn á háskólabrautirnar. Þá segir að um námið skuli gert sérstakt samkomulag. Meiri hlutinn áréttar að með samningnum er starfsmenntanám skólans, til dæmis í búfræði og garðyrkju, fært nær skipulagi framhaldsskóla, meðal annars til að tryggja mat á námi og tengsl þess við hinn almenna framhaldsskóla. Þá hefur nefndin fengið upplýsingar um að vinna við útfærslu samningsákvæðis um starfsmenntanám skólans sé að hefjast og eigi að liggja fyrir um mitt ár.

Nefndinni var jafnframt bent á mikilvægi þess að í Landbúnaðarháskólanum yrði áfram lögð áhersla á rannsóknir og tengsl við atvinnulíf og áréttað var að í samningi skólans við ráðuneytið er í grein 2.2 fjallað um að Landbúnaðarháskóli Íslands vinni að vísindarannsóknum, þróunarstörfum, öflun og miðlun þekkingar á framangreindum fræðasviðum með áherslu á nýsköpun og öflug tengsl við atvinnulíf. Telur meiri hlutinn því ljóst að slíkar áherslur hafi verið lagðar til grundvallar við stefnu skólans næstu ár. Þá hefur nefndinni verið kynnt að rannsóknir skólans fari fram þvert á fræðasvið hans. Mikilvægt er einnig að góð tengsl séu bæði við ráðuneyti sem tengjast fræðasviðum skólans og atvinnulíf og hagsmunasamtök. Fyrir nefndinni kom fram að mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur gert ráð fyrir að kalla til fulltrúa ráðuneyta sem tengjast fræðasviði skólans og hagsmunaaðila þegar fjallað er um stefnumótun, viðfangsefni og tengsl skólanna við atvinnulíf á samráðsfundum skólans og ráðuneytisins.

Í III. kafla laga um opinbera háskóla er fjallað um háskólafundi. Í 10. gr. laganna kemur fram hverjir eiga sæti á slíkum háskólafundum og í 2. mgr. er kveðið á um að einn fulltrúi nemenda á móti hverjum fimm fulltrúum annarra aðila innan háskólans eigi sæti á fundinum. Þá segir jafnframt að fulltrúar nemenda skuli kjörnir í sérstökum kosningum til tveggja ára í senn. Fram til ársins 2010 voru fulltrúar nemenda kjörnir til eins árs en því var breytt með lögum árið 2010. Breytingin var gerð að frumkvæði stúdentaráðs Háskóla Íslands og kemur fram í athugasemdum við ákvæðið að fulltrúar beggja fylkinga stúdenta, Röskvu og Vöku, hafi verið á einu máli um að óska eftir því að fulltrúar nemenda á háskólafundi verði kosnir til tveggja ára í senn, líkt og aðrir fulltrúar á háskólafundi. Nefndinni hafa nú verið kynnt andstæð sjónarmið stúdentaráðs sem bent hefur á að í ljósi þess að kosið er í stúdentaráð árlega er eðlilegt að samhliða fari fram kosning á háskólafundi. Telur meiri hlutinn því öll rök hníga að því að breyta ákvæðinu til upprunalegs horfs þannig að fulltrúar nemenda á háskólafundi séu kosnir árlega og leggur til breytingu til samræmis. Vorum við í góðu samráði við og má segja að frumkvæðið komi frá stúdentum sjálfum og unnum við út frá því.

Fyrir nefndinni var lögð áhersla á að gripið yrði til aðgerða til að tryggja viðveru menntafólks á Íslandi eftir útskrift og koma í veg fyrir að það flytti erlendis eftir nám og skapa hvata til að flytja aftur til Íslands eftir nám erlendis. Var lagt til við nefndina að allur beinn kostnaður sem hlytist af námi Íslendinga hérlendis og erlendis yrði gerður frádráttarbær frá tekjuskattsstofni, í tvö til þrjú framtalsár eftir námslok. Var þeim sjónarmiðum komið á framfæri að með því að gera vissa kostnaðarliði í námi stúdenta frádráttarbæra frá skattstofni mundi hið opinbera og skattkerfið stuðla að því að námsmenn skili sér á íslenskan vinnumarkað að námi loknu. Skattafslátturinn mundi laða sérfræðimenntaða Íslendinga aftur til landsins. Þá var nefndinni kynnt að svipað kerfi væri þegar til staðar í Bandaríkjunum, Ástralíu, Þýskalandi og Nýja-Sjálandi.

Meiri hlutinn áréttar mikilvægi þess að sérfræðingar sjái sér hag í því að búa á Íslandi en áréttar að margir þættir geti haft áhrif á val fólks á búsetu. Brýnt er að tryggja að hér á landi verði ekki atgervisflótti menntamanna og þeirra sem sinna nauðsynlegri þjónustu og leita verður leiða til að koma í veg fyrir slíkt. Benda verður á að sú hugmynd sem reifuð var við nefndina á ekki efnislega samleið með fyrirliggjandi frumvarpi eða markmiðum þess og því ekki unnt að gera breytingu á frumvarpinu til samræmis. Þá telur meiri hlutinn að hugmyndin hafi ekki hlotið nægilega umfjöllun eða greiningu auk þess sem áhrif hennar hafa ekki verið metin. Beinir meiri hlutinn því til mennta- og menningarmálaráðuneytis að leita samráðs við fjármála- og efnahagsráðuneytið um þetta atriði sem er náttúrlega mjög mikilsvert og stórt atriði. Það getur skipt miklu máli í því að laða aftur fólk heim sem hefur menntast erlendis og getur skilað mjög miklu til okkar samfélags. Ráðuneytin ættu að kanna nánar hvort um raunhæfan möguleika sé að ræða, útfæra þann möguleika og þá gæti næsta þing tekið það til umfjöllunar og rætt það og greint og metið og vonandi gert að veruleika.

Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi breytingu:

Í stað orðanna „tveggja ára“ komi: eins árs.

Hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson og Birgitta Jónsdóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins en undir nefndarálitið rita auk mín sem formanns og framsögumanns hv. þm. Skúli Helgason, Þráinn Bertelsson, Ólafur Þór Gunnarsson og Kristján L. Möller.