141. löggjafarþing — 105. fundur,  16. mars 2013.

opinberir háskólar.

319. mál
[14:11]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir efnislega ræðu og sérstaklega vil ég dvelja við þann kafla í ræðu hv. þingmanns þegar hann vék að tengslum atvinnulífsins og skólanna sem ég held að skipti óskaplega miklu máli. Við vitum að þetta eru ekki einföld mál, háskólarnir verða auðvitað að hafa sitt akademíska frelsi en það er líka þeirra styrkur að vera í tilteknu samstarfi við atvinnulífið. Það gefur þeim byr undir báða vængi, það eykur áhuga á þeirra starfi og svo framvegis.

Í þessu samhengi vil ég sérstaklega nefna að í þessu frumvarpi er verið að brjóta mjög í blað. Það er verið að setja landbúnaðarháskólana undir ramma opinberu háskólanna í einni heildarlöggjöf og það sem meira er, það er verið að taka út hinn lagalega áskilnað um búfræðslunámið sem er mjög mikið umhugsunarefni. Það var á sínum tíma mikið deiluefni þegar tekin var um það ákvörðun að færa landbúnaðarháskólana úr landbúnaðarráðuneytinu sem þá var og inn í menntamálaráðuneytið.

Ég stóð að því og ég tel að það hafi í sjálfu sér ekki verið óskynsamleg niðurstaða. Það sem skipti hins vegar gríðarlega miklu máli á þeim tíma, og þetta þekki ég vel af því að ég kom beinlínis að því máli sjálfur, var að búinn var til eins konar farvegur milli atvinnugreinarinnar og rannsóknarhluta háskólanna með því að kveða á um að tiltekinni upphæð, 150 millj. kr. króna á ári á þeim tíma, væri ráðstafað til þessara skóla til að geta sinnt landbúnaðartengdum rannsóknum. Nú er hins vegar gengið miklu lengra og klippt á þennan lagalega áskilnað. Ég neita því ekki að ég hef af því miklar áhyggjur, einfaldlega vegna þess að ég óttast að þá sé verið að klippa á tengslin milli skólans og greinarinnar sem var í raun og veru forsenda þess að þessir skólar voru á sínum tíma settir á laggirnar.