141. löggjafarþing — 105. fundur,  16. mars 2013.

opinberir háskólar.

319. mál
[14:59]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Ármannssyni fyrir ræðuna. Hér hefur nokkuð verið fjallað um stöðu landbúnaðarháskólans varðandi búfræðina og garðyrkjunámið. Mig langar því til að benda á að samkvæmt nefndaráliti sem fylgir frumvarpinu hefur komið fram gagnrýni á að starfsmenntun sé ekki skilgreind sem eitt af lykilverkefnum landbúnaðarháskólans á þessum tveimur fræðasviðum, þ.e. í búfræði- og garðyrkjunámi. Í nefndarálitinu bendir meiri hlutinn á að samkvæmt ákvæði til bráðabirgða nr. IV veitir ráðherra skólanum heimild til að reka starfsmenntun á framhaldsskólastigi og gera sérstakan samning um þann hluta starfsemi Landbúnaðarháskóla Íslands sem fellur undir lög um framhaldsskóla. Það skuli þá gilda frá og með skólaárinu 2013–2014.

Jafnframt fékk menntamálanefnd þær upplýsingar hjá menntamálaráðuneytinu að í samræmi við lög hafi ráðuneytið gengið frá samningi við skóla og aðra háskóla um kennslu og rannsóknir á árunum 2012–2016. Þar kemur fram að verkefni skólans er að reka starfsmenntanám á framhaldsskólastigi á sviði garðyrkju og búfræði sem einnig nýtist sem aðfararnám inn á háskólabrautirnar. Þarna kemur fram að litið er á ákveðna þætti í kennslu í landbúnaðarháskólanum sem kennslu á framhaldsskólastigi.

Þess vegna finnst mér það svolítið skrýtið, og spyr hv. þm. Birgi Ármannsson hvort hann viti eitthvað um það, af hverju ekki er að finna neina umfjöllun í frumvarpinu eða nefndarálitinu varðandi nám á framhaldsskólastigi hjá háskólunum. Er ég þá að vísa í það sem er kallað frumgreinadeild eða háskólabrú eða annað þar sem (Forseti hringir.) ákveðnum aðilum er gefinn kostur á því að taka aðfararnám að háskólanum, uppfylli þeir viss skilyrði.