141. löggjafarþing — 106. fundur,  18. mars 2013.

uppbygging stóriðju í Helguvík.

[10:13]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég hef reynt að skýra hvert er samspil þessara þátta. Það sem snýr að innanríkisráðuneytinu eru hafnalög og þær reglur sem gilda um ráðstöfun fjármuna ríkisins til hafnanna, hvaða farvegir eru þar afmarkaðir. Þegar kemur að tilteknum verkefnum öðrum sem krefjast ríkisstyrks eða þar sem fjármunir eru látnir renna til tiltekinna framkvæmda gerist það í gegnum önnur ráðuneyti, fjármálaráðuneytið eða atvinnuvegaráðuneytið. Lögin sem heyra undir innanríkisráðuneytið er hinn almenni lagarammi um hafnirnar en síðan koma önnur ráðuneyti að málum ef um er að ræða sérstakar styrkveitingar til sérstakra verkefna. Hvorki Bakki eða framkvæmdir þar né hugsanlega sérstakt framlag vegna Helguvíkur væri í gegnum innanríkisráðuneytið.