141. löggjafarþing — 106. fundur,  18. mars 2013.

skýrsla fjármálaráðherra um hagvöxt og dagskrá fundarins.

[10:38]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Vegna athugasemda sem hér komu fram um dagskrá fundarins í dag vil ég lýsa þeirri skoðun minni að ég er mjög ánægður með að sjá þau mál sem fyrir þinginu liggja komin á dagskrá þessa fundar. Kallað hefur verið eftir því að fram kæmi hvaða mál ríkisstjórnin og ríkisstjórnarflokkarnir leggja kapp á að fá afgreidd.

Þingflokksformönnum stjórnarandstöðuflokkanna hefur verið gert það ljóst og þeir hafa fengið lista yfir mál sem ríkisstjórnin telur mikilvæg en vegna umræðu hér, og það sem ég vil kalla málþóf í mörgum málum að undanförnu tel ég mikilvægt að þjóðin sjái það svart á hvítu í dagskrá fundarins í dag hvaða mál það eru sem við leggjum kapp á að fáist afgreidd og hvaða mál er verið að koma í veg fyrir með málþófi að komist til afgreiðslu, svo sem eins og mál um opinbera háskóla, um almenn hegningarlög þar sem taka á á kynferðisbrotum gegn börnum innan fjölskyldu, (Forseti hringir.) niðurgreiðslu húshitunar, náttúruvernd, velferð dýra o.fl. Það er mikilvægt að þjóðin sjái að með málþófi er verið að koma í veg fyrir (Forseti hringir.) að mál af þessum toga hljóti afgreiðslu.