141. löggjafarþing — 106. fundur,  18. mars 2013.

skýrsla fjármálaráðherra um hagvöxt og dagskrá fundarins.

[11:12]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Virðulegi forseti. Ég hef hlustað hér á kennslustund meiri hlutans um hvernig lýðræðið fari fram, að meiri hlutinn skuli ráða og mál þurfi að komast til atkvæða. Það liggur við að það skipti meira máli að þau komist til atkvæða strax án þess að þau séu rædd. Á dagskrá þingsins í dag er frumvarp til stjórnarskipunarlaga og við það alls konar breytingartillögur. Ein felur til dæmis í sér heilt stjórnarskipunarfrumvarp. Eflaust þarf ekkert að ræða þetta, sennilega þarf þetta bara að komast til atkvæða. Meiri hlutinn þarf að fá sitt fram. Eins og hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir sagði er augljóst að við í minni hlutanum hljótum að virða meiri hlutann. En, fyrirgefðu, virðulegi forseti, er meirihlutastjórn í þessu landi? Það er öllum á Íslandi alveg ljóst að hér er minnihlutastjórn sem að sjálfsögðu þarf að sýna þeim sem eru í minni hluta lágmarkskurteisi. En það fólk sem hér situr og kemur með gífuryrði í pontu hefur enga slíka kurteisi til að bera.