141. löggjafarþing — 106. fundur,  18. mars 2013.

um fundarstjórn.

[11:59]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég tek undir með hv. þm. Illuga Gunnarssyni um að breytingartillaga við 2. umr. máls er felur í sér stjórnarskrána alla hlýtur að teljast á mörkum þess að vera þingtæk, er að minnsta kosti í litlu samræmi við þann áskilnað gildandi stjórnarskrár sem við höfum undirritað eiðstaf að, að fara skuli fram á Alþingi þrjár umræður um lagafrumvörp. Auðvitað er illboðlegur málatilbúnaður að afgreiða málið með þeim hætti.

Hitt verður svo að segja um Alþingi sem nú annað kjörtímabilið í röð ræðir um auðlindaákvæði og þjóðareign á auðlindum að það hefur verið til umfjöllunar milli stjórnmálaflokkanna í á annan áratug og það hlýtur að vera algjör lágmarkskrafa að slíkur umþóttunartími og tími til umræðna, ekki bara á þingi eftir þing heldur kjörtímabil eftir kjörtímabil, dugi til þess að svo (Forseti hringir.) afmarkað mál megi komast til atkvæðagreiðslu og fá þá lýðræðislegu niðurstöðu sem (Forseti hringir.) þessi stofnun var grundvölluð til að veita.