141. löggjafarþing — 106. fundur,  18. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[14:15]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Magnúsi Orra Schram fyrir ræðuna. Að mínu mati er þingmanninum hálfgerð vorkunn að vera framsögumaður í þessu máli vegna þess að þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu eru þegar til staðar í stjórnarskránni. Það er ekkert í núverandi stjórnarskrá, sem við skulum ekki gleyma að er í gildi, sem bannar það að breyta stjórnarskránni allt næsta kjörtímabil ef þingheimur vill svo. Það eina sem þarf til er að rjúfa þing og boða til kosninga. Þess vegna er undarlegt að sitja í þingsal og hlusta á þingmanninn tala um að þingmenn allir eigi að grípa andann sem er í þessum tillögum, taka í útrétta sáttarhönd þeirra flokka sem standa að þessu frumvarpi og taka á móti hvatningu um að samþykkt þessa frumvarps verði til þess að hægt sé að halda áfram með þá vinnu að endurskoða stjórnarskrána næsta kjörtímabil.

Virðulegi forseti. Þetta frumvarp er á algjörum villigötum vegna þess að allar þessar úrbætur eru til staðar og eru varðar í núverandi stjórnarskrá. Ekkert getur bannað nýkjörnum þingmönnum eftir alþingiskosningar að taka upp slíka vinnu þó að þetta þing samþykki ekki frumvarp um breytingar á stjórnarskránni eða þingsályktunartillögu sem á að binda næsta þing.

Virðulegi forseti. Ég lít málið mjög alvarlegum augum, hér er komið fram yfir síðasta starfsdag þingsins og hér er verið að leggja fram frumvarp í þessa veru sem þegar er til staðar í ríkjandi stjórnskipunarrétti. Ég spyr því þingmanninn hvaða skoðun hann hafi á því sem ég vil kalla blekkingaleik, að koma fram með þetta mál til að reyna að sætta einhver sjónarmið á milli minni hluta ríkisstjórnarflokkanna þegar þessi heimild (Forseti hringir.) er þegar til staðar í núgildandi stjórnarskipunarlögum.