141. löggjafarþing — 106. fundur,  18. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[14:20]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Tali nú hver fyrir sig, sem treystir sér ekki til að rjúfa þing og boða til kosninga til þess eins að halda völdum. Hv. þm. Magnús Orri Schram hefur tilheyrt þeim armi ríkisstjórnarinnar sem hefur helst viljað halda hér í völdin þannig að þarna endurspeglast svo sannarlega sú skoðun Samfylkingarinnar að láta ekki af völdum fyrr en þjóðin sjálf hefur kosið þessa vanhæfu ríkisstjórn í burtu. (Gripið fram í.) Það er talað um að þjóðin komi ekki að því að breyta stjórnarskrá nema farið sé með þetta í þjóðaratkvæðagreiðslu eins og liggur fyrir í því frumvarpi sem hér er til umræðu. Þarna kemur beinlínis fram vantraust á kjósendur sem kjósa í alþingiskosningum, að þeir kynni sér ekki málið. Þetta ákvæði er til staðar og kjósendur greiða atkvæði um stjórnarskrá á milli kosninga.

Að lokum langar mig til að spyrja hvort þingmaðurinn sé ekkert hræddur við það sem endurspeglast í þessu frumvarpi. Verði þetta að (Forseti hringir.) stjórnarskipunarlögum, sem á eftir að reyna á vegna þess að tvö þing þurfa að samþykkja þá stjórnarskrárbreytingu sem er lögð hér til, spyr ég þingmanninn: Er ekkert ruglingslegt að hafa hér tvö (Forseti hringir.) gildandi breytingarákvæði á stjórnarskránni á næsta kjörtímabili?

(Forseti (RR): Forseti minnir hv. þingmenn á að virða þann ræðutíma sem þeim er úthlutaður.)