141. löggjafarþing — 106. fundur,  18. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[14:25]
Horfa

Frsm. meiri hluta stjórnsk.- og eftirln. (Magnús Orri Schram) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hvað snertir auðlindaákvæðisbreytingartillögu sem fram er komin er það sjónarmið ríkjandi innan þingflokka Samfylkingar og Vinstri grænna að auðlindaákvæðið sé ein mikilvægasta breytingin sem þurfi að verða á stjórnarskrá Íslands. Það mál hefur verið til umræðu með beinum eða óbeinum hætti í 15 ár eða svo og nú er komið nóg. Nú er mál að linni, nú þarf að taka efnislega afstöðu til þess hvort þingið geti ekki í sameiningu náð niðurstöðu um það ákvæði sem er af mörgum talið mikilvægasta ákvæðið í stjórnarskránni, að treysta eign þjóðarinnar á auðlindum sínum rétt eins og yfirgnæfandi meiri hluti þjóðarinnar var sammála um í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu 20. október.

Hvað snertir 25% samþykkis- eða þátttökuþröskuldinn var vissulega rætt um það í nefndinni hvort þetta væri of hátt eða of lágt, en þetta er í fyrsta lagi algjörlega í samræmi við þá tillögu sem fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í stjórnlaganefnd lögðu til vorið 2009. Það voru hv. þingmenn Birgir Ármannsson, Bjarni Benediktsson og Björn Bjarnason, að ég held, sem lögðu þá til þetta 25% hlutfall. Ímyndum okkur að fara ætti fram sjálfstæð þjóðaratkvæðagreiðsla, ekki tengd alþingiskosningum eða bæjarstjórnarkosningum, og tiltölulega mikil sátt mundi ríkja meðal alþingismanna um þær breytingar, 2/3 hlutar atkvæða á Alþingi, þá gæti verið erfitt að fá fólk til að mæta á kjörstað þar sem háskinn í málinu væri ekki mikill, eins og einhver sagði, heldur tiltölulega breið sátt. Engu að síður töldu menn rétt sökum þessa að stjórnarskrá Íslands yrði ekki breytt nema tiltekinn hluti kjósenda á landinu mundi samþykkja þær breytingar. Þarna var farið bil beggja og stutt við bakið á þeirri ágætu útfærslu sem formaður Sjálfstæðisflokksins lagði til á sínum tíma.