141. löggjafarþing — 106. fundur,  18. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[14:32]
Horfa

Frsm. meiri hluta stjórnsk.- og eftirln. (Magnús Orri Schram) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þegar formenn Vinstri grænna, Samfylkingar og Bjartrar framtíðar birtu þá breytingartillögu sem var svo til umfjöllunar í nefndinni lýstu að minnsta kosti tveir af þeim þremur því yfir að þeir hefðu sömuleiðis áhuga á því að kanna hvort vilji væri til þess hjá þingmönnum að taka til umræðu títtnefnt auðlindaákvæði sem og ákvæði um beina lýðræðið. Þeir töldu hins vegar ekki hyggilegt á þeim tímapunkti að bera þessi atriði saman fram heldur væri betra að freista þess að ná víðtækari sátt meðal þingmanna um búning auðlindaákvæðis og ákvæðis um beina lýðræðið.

Ég tel hins vegar að það tundurskeyti sem hér birtist í þessari umræðu og snerti heildarendurskoðun á stjórnarskránni og kom frá hv. þm. Margréti Tryggvadóttur í formi breytingartillagna hafi breytt þessari stöðu nokkuð. Það hafi því miður flækt málið þó nokkuð fyrir þeim sem telja skynsamlegt að haga málum þannig að við reynum að byggja brú yfir á næsta kjörtímabil en um leið að taka á tilteknum mikilvægustu þáttum í stjórnarskránni eins og til dæmis auðlindaákvæði og þar með hafi það sett málið á einhvern byrjunarreit. Við hv. þingmaður vitum það báðir að samtöl stjórnmálaforingjanna í þá veru að hægt væri að ná einhverjum grundvelli um auðlindaákvæði voru til dæmis hafin og vonandi verður möguleiki til þess.

Ég held að það sé mikilvægt að við freistum þess í umfjöllun okkar um þetta mál hér og nú að taka afstöðu til breytingarákvæðisins og að taka afstöðu til þingsályktunartillögunnar og ræða hvort við getum fundið flöt á samstarfinu hvað snertir auðlindaákvæðið sömuleiðis.