141. löggjafarþing — 106. fundur,  18. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[15:17]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það má vel vera að einhver slík sjónarmið búi að baki hjá hv. þingmönnum stjórnarflokkanna. Þeir verða þó auðvitað að svara fyrir sig sjálfir hvað það varðar. Ég held hins vegar að stjórnarandstaðan, þ.e. Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur, séu ekkert að kveinka sér undan ásökuninni um að stoppa eitt eða annað í því sambandi, eftir því sem mér skilst. Afstaða okkar sjálfstæðismanna hefur alla vega alltaf legið fyrir. Við höfum verið á móti ferlinu og við höfum verið á móti mörgu því sem hefur verið gert í aðdraganda málsins, ekki öllu en mörgu. Það hefur auðvitað ekki breyst.

Það er hins vegar rétt hjá hv. þm. Birgittu Jónsdóttur að sumt í þeim efnum hefur verið nefnt sáttatillögur þótt það hafi verið harla einhliða sáttatillögur ef svo má (Forseti hringir.) að orði komast.