141. löggjafarþing — 106. fundur,  18. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[15:27]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Birgir Ármannsson vék að því í ræðu sinni, og sagði það hér áðan, að þingsályktun um framhald stjórnarskrármálsins væri marklaus, nær væri þá að hugsa málið þannig að það gæti verið einhver yfirlýsing af hálfu leiðtoga eða forustumanna stjórnmálaflokkanna. Nú spyr ég hvort slík yfirlýsing væri ekki með sama hætti marklaus ef menn ætluðu sér ekki að standa við hana.

Staðreyndin er sú að oft er verið að samþykkja hér þingsályktanir sem vísa inn í nýtt kjörtímabil. Nýlega hefur til dæmis verið samþykkt þingsályktun um að halda upp á 100 ára afmæli kosningarréttar kvenna. Hún vísar inn á næsta kjörtímabil. Þingsályktunin verður að sjálfsögðu í gildi nema Alþingi taki nýja ákvörðun. Það eru þingsályktanir hér um aðgerðaáætlun í barnavernd. Það eru þingsályktanir hér um samgönguáætlun o.s.frv. Þar er vísað inn í nýtt kjörtímabil og þær standa nema Alþingi taki nýja ákvörðun.

Ég vil því inna hv. þingmann eftir því hvort hann sjái það ekki þannig að (Forseti hringir.) þingsályktunin sem Alþingi mundi samþykkja væri pólitísk yfirlýsing og hún mundi standa og gilda (Forseti hringir.) nema nýtt Alþingi breytti henni eða tæki nýja ákvörðun.