141. löggjafarþing — 106. fundur,  18. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[17:48]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að þetta séu nú ekki síður háar girðingar, 2/3 hlutar þingsins, heldur en hreinn meiri hluti í þinginu eins og nú er þótt það sé á tveimur þingum. Ég er alveg sammála hv. þingmanni að það á að vera meira en að drekka vatnið að breyta stjórnarskrá lands, það á að kalla á mikla umræðu. Þess vegna fannst mér fyrsta spurningin í þjóðaratkvæðagreiðslunni varasöm, einfaldlega vegna þess að það hefur ekki farið fram umræða um hana. Ég greiddi atkvæði gegn fyrstu spurningunni á þeim forsendum að þarna voru veigamiklir þættir sem höfðu ekki kallað á umræðu. Nú finnst mér það hafa komið í ljós í meðförum þingsins, það mótmælir því enginn, að það þarf að minnsta kosti að skoða útfærslu á þessum þáttum. Mér fyndist koma til greina að skjóta þarna vissum atriðum, stórum veigamiklum atriðum, til þjóðarinnar og fá afgerandi niðurstöðu eftir markvissa umræðu eins og við gerðum um náttúruauðlindirnar, um beina lýðræðið, um þessa þætti. En við eigum að sýna þjóðinni og þjóðaratkvæðagreiðslunni og þjóðaratkvæðagreiðslum fulla virðingu.