141. löggjafarþing — 106. fundur,  18. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[18:12]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég orðaði það svo í morgun að þær breytingartillögur sem lagðar voru fram við frumvarp hv. þm. Árna Páls Árnasonar væri í raun tundurskeyti inn í þetta mál. Það á að mínu viti líka við um síðari breytingartillöguna sem fellur illa að efni málsins þar sem verið er að boða breytingartillögu til bráðabirgða og koma þar með með efnislega tillögu inn í það mál. Ég spyr hv. þingmann, af því að hann talar fallega um að hann vilji að málið fari í atkvæðagreiðslu: Er hann viss um að ekki komi fleiri breytingartillögur um þetta mál og fleiri sprengjum þar með varpað inn í það? Treystir hv. þingmaður sér til að lofa því að þessar breytingartillögur, þá tala ég ekki síst um þá fyrri og raunar þá seinni líka, verði afgreiddar óbreyttar? Væri hann tilbúinn til að bera ábyrgð á að slíkt gerist ekki?