141. löggjafarþing — 106. fundur,  18. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[18:21]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Árni Páli Árnasyni fyrir ágæta ræðu. Ég vil taka undir það með honum að það er mikilvægt að menn finni sameiginlega lausn á þessu máli. Ég flutti tillögu um það í haust í annað sinn að breyta eingöngu 79. gr. til að losna út úr því að taka heila stjórnarskrá undir í einu en bjarga samt þeim góðu hugmyndum sem komu fram í tillögum stjórnlagaráðs þó að margt sé líka hættulegt í þeim tillögum.

Nú vil ég spyrja hv. þingmann hvernig stendur á því að hér kemur það sem menn kalla tundurskeyti frá Margréti Tryggvadóttur en svo koma hans eigin þingflokksformenn, formenn Samfylkingar og Vinstri grænna, með einhvers konar djúpsprengju, þ.e. fara allt í einu að ræða um auðlindaákvæðið sem ekki er samhugur um.