141. löggjafarþing — 106. fundur,  18. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[20:23]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður spyr hvort sú tillaga sem er umræðugrundvöllur meðal formanna þingflokka um auðlindaákvæðið sé það sama og við erum að ræða, ef ég skildi hann rétt, eða í samræmi við þá breytingartillögu sem við erum að ræða. Sú sem hér stendur hefur ekki farið mikið ofan í þá tillögu en formaður Samfylkingarinnar hefur sagt mér að þarna séu efnisatriði sem eru a.m.k. lögð fram sem umræðugrundvöllur á milli flokkanna og með því séu formaður Samfylkingarinnar og formaður Vinstri grænna að teygja sig í áttina að sjónarmiðum stjórnarandstöðuflokkanna. Það ætti að liðka til fyrir því að við getum lent þessu mikilvæga hagsmunamáli. Við erum öll sammála um að ákvæðið eigi að vera í stjórnarskrá, að auðlindaákvæðið eigi auðvitað að vera í okkar grundvallarplaggi og að það sé þess virði, og í rauninni ætlast fólkið í landinu til þess af okkur, að leita leiða til að koma ákvæðinu í stjórnarskrá.

Hv. þingmaður spyr hvort tillagan sem nú er rædd sé til þess fallin að leysa ágreining. Ég tel svo vera vegna þess að í þeirri breytingartillögu sem við erum að tala um eru skilgreiningar nákvæmari og það er tekinn af vafi um ýmis atriði sem (Forseti hringir.) menn hafa tekist á um í gegnum tíðina.