141. löggjafarþing — 107. fundur,  19. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[11:45]
Horfa

Lúðvík Geirsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa spurningu. Ég held einmitt að mjög mikilvægt sé að við horfum til þeirra þátta og virðum og viðurkennum, hvernig svo sem málið allt endar, að sá efniviður sem liggur fyrir í þeirri ítarlegu vinnu sem hefur verið farið í gegnum á undanförnum árum af hálfu þjóðarinnar, sérfræðinga, þingsins, þingnefnda og annarra er auðvitað þannig sett fram og liggur þannig fyrir að henni verður ekkert kastað á glæ. Það er algjörlega ábyrgðarlaust að horfa til þess.

Ég verð að segja að ég hef skynjað í umræðunni að menn eru farnir að tala í svolítið meyrari tón þegar þeir horfa á málið, þeir eru búnir að ýta því dálítið út af borðinu og segja: Það er margt nokkuð gott efni í málinu. Það er ágætt og má nota það. Við getum sjálfsagt gert eitthvað gott úr því en það er bara að passa að afgreiða ekki málið núna vegna þess að ekki er samstaða um það.

Það verður aldrei 100% samstaða um afgreiðslu á málinu og það verða ekki, eins og ég hef nefnt áður, samdar 63 stjórnarskrár af því að það eru 63 þingmenn í salnum. Mér heyrist stundum á umræðunni eins og hver sé að semja sína stjórnarskrá og það kannski skortir á að menn séu tilbúnir að ná saman.

Gallinn á vinnunni, eins og hann blasir við mér og eins og hefur verið staðið að málinu, er að einhverra hluta vegna tókst aldrei að ná eðlilegri og heiðarlegri vinnu innan nefndarinnar hjá okkur í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, að allir væru þátttakendur í því að vinna og skrifa stjórnarskrá. Menn fóru ofan í skotgrafirnar strax í upphafi og voru ekki reiðubúnir að koma inn í hina efnislegu umræðu nema að afar, afar takmörkuðu leyti. Þegar búið er að skipta liði með þeim hætti verður niðurstaðan auðvitað dálítið í samræmi við það.