141. löggjafarþing — 107. fundur,  19. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[12:35]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ánægjulegt að heyra sáttatón af þessu tagi frá stjórnarandstöðuþingmönnum, við erum ekki vön því í þessu máli. Hv. þm. Ásbjörn Óttarsson byrjar á því að segja að honum finnist tillaga formannanna góð en hins vegar sé hún ómöguleg af því að einhverjar breytingartillögur koma fram við hana. Ég get ekki alveg skilið af hverju breytingartillögur þurfa að kollvarpa því að tillaga formannanna sé góð. Mig langar til að spyrja þingmanninn hvort hann sé tilbúinn til að vinna áfram að því að tillaga formannanna verði samþykkt.

Við hv. þingmaður erum náttúrlega ekki á sama máli um hvort málið, eins og það liggur fyrir núna í heild, sé tilbúið eða ekki en við berum væntanlega virðingu fyrir skoðunum hvor annars í því eins og hann hefur margnefnt.

Ég vil líka aðeins koma inn á að hvað varðar breytingu á stjórnarskrá og umræðu um stjórnarskrá í þingsal fer hún náttúrlega fram eins og um öll önnur frumvörp til laga. Það er hægt að koma með breytingartillögur á milli 1. og 2. umr. og 2. og 3. umr. og nefndarstarf fer fram þar eins og í öðrum nefndum. Síðan má segja að málið sé borið undir þjóðina í alþingiskosningum. Það er að vísu rétt að hér á landi hafa kosningar ekki snúist um það en engu að síður er málið borið undir þjóðina. Það væri hægt að segja: Ég er með frumvarpinu eða á móti frumvarpinu og þess vegna ætti fólk að kjósa þennan flokk eða hinn.

Það er ekkert að því að breytingartillögur komi á milli umræðna. Ég hef sjálf verið þeirrar skoðunar að (Forseti hringir.) það eigi einmitt að gera í þessu máli. Ef á að gera það (Forseti hringir.) í fjárlagafrumvarpinu á að gera það í þessu máli.