141. löggjafarþing — 107. fundur,  19. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[12:46]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég skal reyna að útskýra einu sinni enn hvað ég á við. Það getur vel verið að mér gangi það bara ekki nógu vel og ég orði það ekki nægilega skýrt, ég skal taka hluta af því á mig.

Það sem ég var að gagnrýna sneri að því að tillagan frá formönnum stjórnarflokkanna og hv. þm. Guðmundi Steingrímssyni gengur út á að breyta 79. gr., þ.e. breytingarákvæðinu um stjórnarskrána og hvernig megi halda áfram vegferðinni og samhliða frumvarpinu er hér þingsályktunartillaga um skipun nefndar til að halda málinu áfram. Þess vegna tel ég ekki æskilegt að menn séu þá að taka ákveðna hluta út úr tillögunum sem liggja fyrir núna.

Við vitum skoðun hv. þm. Lúðvíks Geirssonar, hann kom henni mjög skýrt hér á framfæri. Hann telur að það hefði átt að klára heildarendurskoðun á stjórnarskránni. Við hv. þingmaður erum ekki sammála um það, en látum það liggja á milli hluta. Þess vegna taldi ég og tel þá hættu vera fyrir hendi að vinnan verði unnin fyrir gýg. Ég er eingöngu að hugsa um hvernig við getum nýtt okkur alla þá vinnu sem hefur verið unnin, skoðað hana með mjög gagnrýnum hætti og nýtt okkur það til framtíðar sem við höfum lært í ferlinu. Það er það sem ég var að benda á.

Síðan kemur hv. þingmaður núna og segir — og það er kunnuglegt og nokkuð sem ég hræðist: Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki lagt neitt fram, ekki gert nokkurn skapaðan hlut. Við megum ekki og eigum ekki, hv. þm. Lúðvík Geirsson, fara í svona umræðu um málið núna. Ef við ætlum að gera það er það vísasti vegurinn til að drepa málið, held ég.

Formaður Sjálfstæðisflokksins, hv. þm. Bjarni Benediktsson, hefur svarað þessu mjög skýrt. Hann hefur sagt: Hér kemur tillaga frá stjórnlaganefnd, þeirri nefnd sem var skipuð áður en stjórnlagaráð var kosið og tillagan átti að fara þangað, ég er tilbúinn að skoða hana. (Forseti hringir.) En sú umræða hefur ekki farið fram (Forseti hringir.) í nefndinni á milli minni hluta og meiri hluta, eins og hv. þingmaður benti réttilega á sjálfur áðan.

(Forseti (ÁÞS): Forseti biður hv. þingmann að freista þess að halda sig innan tímamarka.)