141. löggjafarþing — 107. fundur,  19. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[14:19]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Frú forseti. Það er ástæða til að endurtaka það að umræðan sem hefur staðið yfir í rúman sólarhring, síðan efnisleg umræða fór loksins af stað og menn hættu að þrasa um framgang þingfundar og tæknileg atriði, hefur verið ágæt. Loksins þegar efnisleg umræða fer af stað hefur hún verið mjög málefnaleg og heilmikið á henni að græða.

Ég ætla á þessum stutta tíma að halda mig við efnisatriði. Ég tel að gangi þessar tillögur eftir og verði samþykktar hér, annars vegar breytingartillagan og hins vegar auðlindatillagan, séum við búin að ná mjög mikilsverðum áföngum í stjórnarskrárbreytingunum. Auðlindaákvæðið er það ákvæði sem lengst er komið, sem mesta vinnan hefur farið fram í kringum, langmesta samstaðan er um og sem hvað eindregnastan stuðning fékk í þjóðaratkvæðagreiðslunni þann 20. október þegar yfirgnæfandi meiri hluti þeirra sem tóku þátt í atkvæðagreiðslunni lýsti yfir stuðningi við það ákvæði. Það er því mjög brýnt að það ákvæði gangi eftir og þeirri vinnu verði lokið núna.

Ég ætla á eftir að fara aðeins efnislega inn í greinina sjálfa, markmið hennar og einstök atriði þar, en auðvitað er það rétt sem kom fram í máli hv. þm. Péturs Blöndals, skilgreiningin á hugtökunum er undir rökræðu seld. Við getum lengi rætt um það hvað eigi að felast í hugtökunum auðlind, þjóð o.s.frv. en við höfum komið okkur saman um tiltekna skilgreiningu. Hér segir:

„Stjórnvöld geta á grundvelli laga veitt leyfi til afnota eða hagnýtingar auðlinda, sem og annarra takmarkaðra almannagæða, gegn eðlilegu gjaldi og til tiltekins hóflegs tíma …“

Auðvitað er það einnig selt undir sífellda rökræðu hvað er hóflegt gjald og hvað hóflegur tími, eðlilegt gjald o.s.frv. en um það snýst umræðan hérna líka, þ.e. að komast að ákveðinni niðurstöðu í því. Aðgengið að auðlindum snýst um þær leikreglur sem við sem samfélag, Alþingi og þjóðin saman, ákveðum að viðhafa hvað varðar aðgengi að takmörkuðum gæðum í landinu. Það hefur verið deilt mjög harkalega um aðgengið að auðlindum okkar á síðustu áratugum og sú umræða hefur snúist mikið um sjávarútveginn, okkar mestu auðlind sem er sjórinn og það sem hafið gefur okkur. Við höfum komist talsvert áfram með þá umræðu og höfum núna tekið upp gjald sem má segja að sé raunverulegt veiðileyfagjald, auðlindagjald hvað varðar nýtingu á auðlindinni. Þetta er allt útskýrt ágætlega hérna.

Hvað varðar breytingarákvæðið sem skiptir líka miklu máli að komist fram hefur engum efnislegum rökum verið teflt fram gegn því að við getum gengið til atkvæða um það. Eins og ég sagði höfðu menn auðvitað ýmislegt til síns máls hvað varðaði heildarendurskoðunina og allar 116 greinarnar enda var fyrir nokkuð löngu farið að ræða um að bíða með stjórnskipunarkaflann o.s.frv. en það skiptir gríðarlega miklu máli að ljúka þessum áfanga ferlisins með því að klára þau ákvæði sem eru tilbúin, sem hefur verið unnið hvað lengst og mest með og er ágæt samstaða um, meira og minna. Þetta er hægt að fullyrða og stjórnarflokkarnir hafa sýnt fullan samningsvilja til að ná saman með breiðri samstöðu á Alþingi í þessu máli. Við höfum breytt breytingarákvæðinu þannig að núna er ákvæðið eins og sjálfstæðismenn vildu. Björn Bjarnason og hv. þm. Birgir Ármannsson lögðu það til árið 2009, og af hverju greiðum við ekki atkvæði um þá tillögu? Hún er jafngóð núna og fyrir fjórum árum þegar þeir fluttu hana, það skiptir ekki máli hvaðan gott kemur.

Tillagan var góð frá þeim og tillagan er fín núna frá formönnunum. Við höfum teflt fram auðlindaákvæðinu og það er verið að ræða um hvernig hægt sé að komast að ágætri niðurstöðu um það þannig að það geti komið til atkvæða. Það er hægt að halda því fram með rökum að vinnan við skilgreiningu á auðlindaákvæðinu hafi verið sleitulaus. Það eru til margar tillögur, ákvæðið hefur þróast með árunum og auðlindanýtingin breyst og þróast. Sú vinna hefur staðið yfir samfellt í 13 ár og örugglega í meira og minna 30 eða 40 ár þar á undan.

Sú tillaga er orðin mjög þroskuð og góð. Áðan var verið að bera það saman að flytja breytingartillögu um eitt ákvæði og það sem mest er samstaðan um, bæði út frá þjóðaratkvæðagreiðslunni og vinnu undanfarinna ára og áratuga, eða henda inn allri stjórnarskránni, 116 greinum sem breytingartillögu við tillögu formannanna. Það er náttúrlega algjörlega fráleitt og var fram teflt til að sprengja málið í loft upp og einhvern veginn koma í veg fyrir að hægt væri að lenda þessu máli með sóma. Það er fullur sómi að því og ágæt niðurstaða að klára auðlindaákvæðið og breytingarákvæðið. Þá er tryggt að vinnan haldi áfram, þingsályktunartillagan verði samþykkt líka og við höfum lokið vinnu og gengið til atkvæða um það ákvæði sem ég fullyrði að skipti mestu máli af öllum breytingartillögunum, þ.e. auðlindaákvæðið.

Það er varla hægt að hugsa til þess að þessi vinna fari forgörðum og þetta endi hér eftir langa umræðu og eftir einhverja daga í þófi sem skilar okkur engri niðurstöðu. Það getur ekki verið ætlun minni hlutans að kúga meiri hlutann með því að koma í veg fyrir að þau ákvæði sem eru tilbúnust og best og mest unnin og mest samstaða um gangi ekki til atkvæða. Meiri hlutinn hlýtur að eiga að ráða því. Það hlýtur að vera sjálfsagt mál að meiri hlutinn í þinginu ráði því hvort þetta verði samþykkt eða ekki, rétt eins og í því málþófi sem frægast er á síðari árum og kannski þingsögunni sem var umræðan um fjölmiðlalög sem endaði í málþófi. Því málþófi lauk og málið gekk til atkvæða. Það var svo ákvörðun meiri hlutans þá að afnema lögin eftir að forsetinn synjaði þeim staðfestingar. Það var allt annað mál, en minni hlutinn gekk ekki lengra en svo að eftir tiltekna daga í umræðu hætti hann og leyfði málinu að ganga til atkvæða. Það er sjálfsagður réttur meiri hlutans á hverjum tíma.

Það getur vel verið að það verði allt önnur samsetning á meiri hlutanum eftir kosningar þó að það blasi svo sem ekkert við, en það getur vel verið, og það verður jafnmikill réttur þess meiri hluta að að lokinni ítarlegri, langri umræðu um einstök mál gangi þau til atkvæða. Út á það gengur lýðræðið, að meiri hlutinn hverju sinni úrskurði að lokum eftir aðkomu allra og sem besta og mesta samstöðu. Við getum aldrei náð þeim örugga árangri að aldrei verði rökrætt eða deilt um breytingar á stjórnarskrá. Þær breytingar eru eðli máls samkvæmt alltaf hápólitískar.

Það gefur augaleið að auðlindaákvæðið er hápólitískt mál í besta skilningi þess orðs, ég er ekki að tala um í flokkspólitískum skotgrafahernaði heldur er þetta eitt af þeim ákvæðum í stjórnarskrá sem skipta þjóðina alla hvað mestu máli.

Rétt aðeins um breytingartillöguna um breytingarákvæðið. Það var þannig afgreitt út úr nefndinni að nefndin fjallaði um það samþykkishlutfall eins og segir í nefndarálitinu, þröskuldinn sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu, þ.e. að 3/5 þeirra þingmanna sem greiða atkvæði þurfi að samþykkja breytinguna og sama hlutfall í þjóðaratkvæðagreiðslu til að frumvarpið teljist samþykkt. Í nefndinni komu fram ólík sjónarmið um þetta atriði og skiptir mjög miklu máli hvernig svona þröskuldar eru stilltir af eins og hv. þm. Pétur Blöndal nefndi í ágætri ræðu áðan, þessir þröskuldar mega alls ekki vera of háir af því að þá getur reynst ógjörningur að breyta stjórnarskrá. Að sama skapi mega þeir ekki vera þannig að það sé of auðvelt heldur, en ég gat ekki greint annað í máli hans en að sá þröskuldur sem hann var með í ákvæðinu sem er kennt við hann, Pétursákvæðinu, þar sem lagt er til að 50% allra atkvæðisbærra manna þurfi að samþykkja, hafi verið of hár og það sé sjálfsagt að stilla hlutfallið eitthvað af. Þess vegna telur meiri hlutinn nauðsynlegt að mæta þessum sjónarmiðum og telur rétt að farið verði bil beggja eins og segir í álitinu.

Annars vegar er byggt á tillögu frumvarpsins og meiri hlutinn leggur því til að áður en tillaga til breytinga eða viðauka við stjórnarskrá verði lögð fram í þjóðaratkvæðagreiðslu verði tillagan að hafa hlotið 2/3 hluta greiddra atkvæða á Alþingi í stað 3/5 og með því er lagt til að þröskuldurinn eða hinn aukni meiri hluti í atkvæðagreiðslu í þinginu sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu verði 66% í stað 60%. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að frá samþykki Alþingis á frumvarpinu líði minnst sex og mest níu mánuðir þar til þjóðaratkvæðagreiðsla fer fram. Síðan er þetta rakið ágætlega og meiri hlutinn tekur fram í sínu áliti að með því að heimila breytingar á stjórnarskránni á þennan hátt án þess að rjúfa þurfi þing sé unnt að halda áfram með þá miklu vinnu sem lögð hefur verið í tillögur stjórnlagaráðs, bæði á undirbúningsferli þess, þ.e. með þjóðfundi, skipun stjórnlaganefndar og stjórnlagaráðs, sem og á vettvangi og á vegum stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis, núna í vetur og veturinn þar á undan.

Niðurstaða meiri hlutans er sú að með frumvarpinu og þingsályktunartillögu um að heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar verði lokið á 70 ára afmæli lýðveldisins sem lögð verði fram samhliða frumvarpinu sé unnt að ná því meginmarkmiði að skapa sem víðtækasta sátt á Alþingi um framhald og lyktir þeirrar víðtæku endurskoðunar stjórnarskrárinnar sem staðið hefur undanfarin ár. Þetta er kjarni málsins, að með þessu móti sé vinnu lokið við þetta ákvæði og þannig tryggt að þetta ferli haldi áfram og því verði lokið á næsta ári.

Aðeins að auðlindaákvæðinu af því að það er það sem er pólitískt mikilvægasta ákvæðið að klára, eins og ég sagði áðan. Við höfum rætt um skilgreiningu á hugtökum sem eru mannasetningar og ákveðin niðurstaða hverju sinni hvernig við skilgreinum þau. Hér er gengið út frá því sem ég sagði áðan um aðgengi að takmörkuðum almannagæðum og hins vegar hvað varðar gjaldtökuna, hvað er eðlilegt og hóflegt gjald og hóflegur tími á nýtingarrétti á auðlindinni.

Í 1. mgr. 34. gr. um náttúruauðlindir er kveðið á um þjóðareign að náttúruauðlindum sem ekki eru háðar einkaeignarrétti og jafnframt er inntak þjóðareignarréttarins skilgreint mjög afdráttarlaust í textanum. Með því ákvæði er stefnt að því að festa í sessi sérstaka tegund eignarréttar til hliðar við hefðbundinn einkaeignarrétt einstaklinga og lögaðila.

Markmiðið með því að setja í stjórnarskrá ákvæði um þjóðareign á auðlindum er að skapa þessum sérstaka eignarrétti stjórnskipulega vernd og girða fyrir að réttur þjóðarinnar til sameiginlegra auðlinda fari halloka fyrir réttarvernd einkaeignarréttarins. Það er ljóst að heimildir til afnota eða hagnýtingar á sameiginlegum auðlindum þjóðarinnar geta notið verndar eignarréttarákvæðis í stjórnarskrá sem óbein eignarréttindi enda þótt sú vernd kunni að vera takmarkaðri en vernd frá beinum eignarrétti. Með stjórnskipulegri vernd þjóðareignarréttarins verður hins vegar skýrt að litið verður á slík óbein eignarréttindi sem hlutdeild í víðtækari rétti eiganda auðlindarinnar, þjóðarinnar, og með því að hvoru tveggja réttindin njóti sömu verndar og æðstu réttarheimilda verður tryggt að óbeinu réttindin geti aldrei útrýmt þjóðareignarréttinum.

Þetta er kjarni málsins og dregur fram mikilvægi þess að ná að ljúka þessari vinnu. Eins og ég sagði áðan er mest samstaða um þetta ákvæði, það fékk alveg yfirgnæfandi meirihlutastuðning í þjóðaratkvæðagreiðslunni 20. október sem olli svo sannarlega að mínu mati straumhvörfum í þessu ferli öllu. Þar fékk þjóðin að segja álit sitt á tillögum stjórnlagaráðsins þar sem það var afdráttarlaust samþykkt að þær tillögur ættu að liggja til grundvallar endurskoðun stjórnarskrárinnar og síðan var spurt um sérstök ákvæði og þar var mesti og afdráttarlausasti stuðningurinn við auðlindaákvæðið. Þess vegna skiptir mjög miklu máli að ljúka þeirri vinnu á þessu þingi og að það verði gengið til atkvæða um þetta ákvæði áður en þingi verður slitið í vor.

Aðeins um ákvæði 2. mgr. Það lýtur að réttindum yfir auðlindum sem eru í eigu ríkisins eða félaga sem alfarið eru í eigu þess, þ.e. ríkið er aðili réttinda einkaréttarlegs eðlis og felur í sér bann við varanlegu framsali þeirra. Það er algjört lykilatriði líka. Í 3. mgr. er skýrt nánar hvaða auðlindir teljast til þjóðareignar, í 4. mgr. er fjallað um nýtingu auðlinda í þjóðareign og loks í 5. mgr. er kveðið á um skilmála nýtingarleyfa eða annarra óbeinna réttinda sem tengjast auðlindum í þjóðareign eða öðrum takmörkuðum almannagæðum sem kunna að verða veitt.

Hvað varðar þjóðareignarréttinn í 1. mgr. felur hugtakið í sér, eins og ég sagði áðan, nýja tegund eignarréttar til aðgreiningar frá hefðbundnum einkaeignarrétti og skiptir mjög miklu máli að þetta verði fest í stjórnarskrá. Þessu nýja formi eignarréttar fylgja að meginstefnu sömu heimildir og talið hefur verið að felist í fullveldisrétti ríkisins en þó er sá munur, segir í nefndaráliti meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, að með því að lýsa tilteknar náttúruauðlindir eign þjóðarinnar er girt fyrir að aðrir aðilar geti eignast beinan eignarrétt að þeim, t.d. fyrir hefð. Í ákvæðinu er áréttað að enginn geti fengið auðlindirnar eða réttindi tengd þeim til eignar eða varanlegra afnota og aldrei megi selja þær eða veðsetja.

Eins og ég sagði áðan er þetta hápólitískt mál. Þjóðin sýndi afstöðu sína til þessa hápólitíska atriðis, að þetta auðlindaákvæði með þeirri sumpart róttæku breytingu sem það hefur til langs tíma í för með sér hvað varðar framsal á auðlindum og nýtingarrétt á þeim sem það hefur í för með sér naut þess afdráttarlausa stuðnings sem fram kom í þjóðaratkvæðagreiðslunni. Stærstur hluti hvað varðaði öll ákvæðin, yfirgnæfandi meiri hluti, lýsti sig fylgjandi auðlindaákvæðinu frá stjórnlagaráðinu og það gefur okkur sérstakt tilefni til að ljúka vinnu við þetta mikilvægasta atriði af þeim öllum, auðlindaákvæðið.

Það þarf að tryggja og árétta að enginn geti fengið auðlindir eða réttindi tengd þeim til eignar eða varanlegra afnota og að aldrei megi selja þær eða veðsetja. Þetta er kjarni málsins, gífurlega mikilvægt mál. Þess vegna skiptir jafnmiklu máli og við blasir að fá fram breytingartillögu með auðlindaákvæðinu þannig að okkur gefist kostur á því í þinginu að greiða um það atkvæði. Þá kemur í ljós hversu mikill meiri hluti er fyrir þessu og hvaða stjórnmálaflokkar eru fylgjandi þessu ákvæði og hverjir eru þá á móti því eða vilja hafa það öðruvísi. Það er sjálfsagt að ræða það alveg til þrautar. Við höfum nógan tíma til að ræða þessi ákvæði tvö og síðan þingsályktunartillögu formannanna um framhald málsins.

Það er lagt til að afmörkun auðlinda í þjóðareign verði á eignarréttarlegum grunni, þ.e. sem ekki eru háðar einkaeignarrétti, og með því er áréttuð stofnun sérstaks forms eignarréttar sem felst í ákvæðinu, þjóðareignarréttur. Það verður að telja að þessi leið sé í fullu samræmi við markmið og vinnuna í stjórnlagaráðinu.

Í 1. mgr. er tekið fram að handhafar löggjafar- og framkvæmdarvalds, þ.e. Alþingi og stjórnvöld, fari með forsjá, vörslu og ráðstöfunarrétt auðlindanna og réttindanna í umboði þjóðarinnar. Þau stjórnvöld sem þar eru nefnd verða þá meðal annars að gæta þeirra sjónarmiða sem koma fram í 4. og 5. mgr. greinarinnar og ég nefndi áðan.

2. mgr. tekur til réttinda yfir auðlindum sem eru háð einkaeignarrétti ríkisins og félaga sem eru alfarið í eigu ríkisins. Það er tvíþætt, annars vegar fjallað almennt um eignarréttindi yfir jarðhita, vatni með virkjanlegu afli og grunnvatni sem og námaréttindi og beinist ekki síst að slíkum réttindum sem skilin hafa verið frá landi og standa sem sjálfstæð eign ríkisins eða félaga í eigu þess, t.d. þar sem ríkisjarðir hafa verið seldar og slíkum réttindum haldið eftir og fyrir utan það, eins og skylt er að gera í ákvæðum um vatna- og auðlindalög og undanskilja vatns- og jarðhitaréttindi við sölu á ríkisjörðum og eru umfram mörkin sem tilgreind eru í þeim lögum. Það er háð því að þetta séu, eins og þar segir, réttindi yfir auðlindum á ríkisjörðum vegna mikilvægis þeirra auðlinda sem þar um ræðir fyrir samfélagið allt og þykir rétt að tryggja með skýrum hætti eignarhald ríkisins að réttindum yfir þeim.

Í 40. gr. gildandi jarðalaga er kveðið á um heimild ráðherra til að undanskilja við sölu ríkisjarða jarðefni, rétt til efnistöku umfram búsþarfir — það er lykilhugtak í því — og einnig öll vatns- og jarðhitaréttindi. Það er skýrt kveðið á um að ákvæði vatnalaga og auðlindalaga gangi framar öllum fyrirmælum greinarinnar og því er skylt að undanskilja vatns- og jarðhitaréttindi við sölu á ríkisjörðum sem eru umfram mörkin sem tilgreind eru í þeim lögum.

Í 3. mgr. er að finna almenna yfirlýsingu um auðlindir í þjóðareign. Það er rétt einmitt að taka það fram af því að auðvitað þurfa allar skilgreiningar og öll hugtök að vera á hreinu í þessari umræðu og margar spurningar sem vakna hjá þeim sem eru að velta fyrir sér hvað þetta ákvæði hefur í för með sér að við erum að tala um auðlindir í náttúru Íslands sem eru ekki háðar einkaeignarrétti, eru sameiginleg og ævarandi eign þjóðarinnar. Það segir í upphafi þessa ákvæðis. Enginn getur fengið þær eða réttindi tengd þeim til eignar eða varanlegra afnota og aldrei má selja þær eða veðsetja. Handhafar löggjafar- og framkvæmdarvalds fara með forsjá, vörslu og ráðstöfunarrétt, eins og ég sagði áðan, í umboði þjóðarinnar og þetta eru þáttaskilin hvað varðar þetta ákvæði væri það í stjórnarskrá. Þá væri tryggt til allrar framtíðar, þ.e. meðan þetta ákvæði er í stjórnarskrá að minnsta kosti, að auðlindir sem eru sameiginleg eign þjóðarinnar nú þegar, sem eru sem sagt ekki háðar einkaeignarrétti, verði það og þá geti enginn fengið þær eða selt.

Nú er til dæmis rætt um það hvort hefja eigi einhvers konar sölu á hlut í Landsvirkjun sem býr yfir öllum þeim virkjunum og auðæfum og virkjunarréttindum sem þar er að finna. Þess vegna skiptir mjög miklu máli áður en nokkuð slíkt fer áfram í umræðunni, ef svo færi að einhver stjórnvöld í framtíðinni tækju ákvörðun um að selja einhvern hluta í því mikla ríkisfyrirtæki, sem ég held að eigi alls ekki að gera, væri búið að tryggja með þessu ákvæði að það er ekki hægt að selja auðlindina, bara skýrt skilgreindan nýtingarrétt með öllum þeim fyrirvörum og ákvæðum, tímalengdum og gjaldtöku sem þar er að finna. Annars vegar er sem sagt aðgengið og hins vegar gjaldtakan.

Í 3. mgr. er að finna almenna yfirlýsingu um auðlindir í þjóðareign og þær eru tilgreindar sem þær auðlindir sem teljast munu til þjóðareignar verði frumvarpið samþykkt. Samkvæmt þessu felur sjálfstæð ákvörðun um að þær auðlindir sem tilgreindar eru í 3. mgr. teljist til þjóðareignar og jafnframt er áréttað að í lögum sé hægt að ákveða að lýsa fleiri auðlindir og náttúrugæði þjóðareign, að uppfylltu skilyrði um að þær séu ekki háðar einkaeignarrétti.

Hér má til dæmis nefna erfðaauðlindir í náttúru Íslands, eins og hv. þm. Pétur Blöndal tók dæmi af áðan, rafsegulbylgjur til fjarskipta, allt eru þetta takmörkuð gæði sem við erum að setja leikreglur um hvernig við veitum aðgang að og hver gjaldtaka skuli vera af nýtingu á tilteknum auðlindum eins og er löggjafans að skilgreina í lögum.

Í öðru lagi teljast auðlindir á, í eða undir hafsbotninum svo langt sem fullveldisréttur ríkisins nær til þjóðareignar en þó aðeins utan netlaga. Þar sem íslensk lög áskilja landeigendum afar umfangsmikil réttindi, t.d. gagnvart vatni, er skýrt tekið fram í ákvæðinu að með yfirlýsingunni séu þessi lögbundnu réttindi ekki skert. Það skiptir mjög miklu máli að draga alla þessa þætti fram í umræðunni þannig að það sé alveg ljóst yfir hvað auðlindaákvæðið nær og hvað ekki. Það er að sjálfsögðu ekki verið að seilast til slíkra réttinda sem eru lögbundin réttindi landeigenda nú þegar hvað varðar veiðiár, vatnsréttindi o.fl. Allt verður þetta áfram í eigu þeirra landeigenda sem það eiga nú. Það er ekki verið að þjóðnýta þetta. Það er alls ekki verið að því, þess vegna er alveg skýrt skilgreint í greininni við hvað er átt. Þessi lögbundnu réttindi verða ekki skert.

Í fjórða lagi er tilgreint að auðlindir og náttúrugæði í þjóðlendum séu þjóðareign og gildi það þó aðeins um þær að þær séu ekki undirorpnar einkaeignarrétti, segir í nefndaráliti meiri hlutans, og það er í samræmi við afmörkun um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlenduafrétta o.s.frv., svo vísað sé í þau umdeildu lög sem þjóðlendulögin eru og voru þó að þau hafi að sjálfsögðu verið nauðsynleg og þurft að setja og ganga fram.

Í síðasta málslið 3. mgr. er vikið að eignayfirráðum landeiganda undir yfirborði jarðar og þar með réttindum til þeirra auðlinda sem þar er að finna. Það skiptir auðvitað mjög miklu máli hvað varðar auðlindanýtingu til langrar framtíðar, djúpborun út af jarðhita o.s.frv. hvernig tækninni fleygir fram við nýtingu á auðlindunum, að þetta sé alveg á hreinu.

Sú aðferð við afmörkun eignarráða landeiganda undir yfirborði sem hefur náð tryggustum sessi í íslenskum rétti byggist á því sjónarmiði að þau nái til umráða og hagnýtingar en þá aðeins svo langt sem eðlilegt getur talist að viðurkenna með tilliti til hagsmuna landeigandans og er það kölluð hagsmunareglan. Með henni eru í raun dregin mörk á milli réttinda landeiganda og almennings því að þar sem réttindum landeiganda sleppir hlýtur að taka við einhvers konar almenningur, segir þar.

Í 4. mgr. er kveðið á um að við nýtingu auðlindanna skuli hafa sjálfbæra þróun og almannahag að leiðarljósi og ágæt rök færð fyrir því, en rétt áður en ég er búinn með tíma minn vildi ég fjalla um það sem er eðlilega mikið rökrætt um og stundum deilt, gjaldtökuna. Þau tímamót urðu hér fyrir ári að það var byrjað að taka raunverulegt veiðileyfagjald og auðlindagjald af nýtingu sjávarauðlindarinnar þó að alltaf megi deila um hvað sé nákvæmlega rétt útfærsla á gjaldtökunni. Ég efast ekkert um að það þurfi að stilla þá gjaldtöku af, lækka hana á einhverjum sviðum og breyta henni á öðrum sviðum en þar er verið að miða við að það er erfitt að finna í fyrstu lotu nákvæmlega réttu afkomutölurnar til að miða við, eins og að þær séu ekki of gamlar, en það er allt í endurskoðun og þarf að stilla af og laga til þannig að það sé sanngjarnt, bæði gagnvart þeim sem gerir út og hins vegar þeim sem á auðlindina sem er fólkið í landinu.

Í 5. mgr. þessarar greinar er fjallað um vernd náttúruauðlinda sem og afnot af nýtingarleyfi í þjóðareign og annarra takmarkaðra almannagæða. Eins og ég nefndi í upphafi snýr þessi umræða núna að ákvarðanatöku okkar um almennar leikreglur, um aðgengi að takmörkuðum gæðum, því hvað telst eðlileg gjaldtaka fyrir nýtingu auðlindarinnar og svo aftur hvað er eðlileg tímalengd á til dæmis veiðileyfum. 20 ár hafa menn nefnt í frumvörpum. Hver er afskriftatími virkjana? Ef til vill 50 ár, þetta þarf að stilla allt af eftir því hvaða auðlind er verið að nýta og hvað er eðlilegur tími til að sá sem fær nýtingarleyfin hafi hana til nýtingar.

Ákvæði 34. gr. er hvorki ætlað að raska beinum né óbeinum eignarréttindum sem þegar eru fyrir hendi eða minnka réttarvernd þeirra, eins og hér stendur, og með sama hætti er skýrt að til framtíðar litið er tekið fyrir það að óbein réttindi geti stofnast með öðrum hætti en fyrir slíka leyfisveitingu. Samkvæmt ákvæðinu ber almenna löggjafanum því að skilgreina með lögum hvaða náttúruauðlindir eða takmörkuðu almannagæði heimilt er að nýta á grundvelli tiltekinna afnota- og hagnýtingarleyfa. Þá þarf löggjafinn að tryggja að fyrir hendi sé fullnægjandi lagaumhverfi svo það sé mögulegt að taka gjald fyrir afnotin. Það blasir við að það er hlutverk löggjafans að skilgreina það gagnvart hverri auðlind fyrir sig og að leyfi skuli aðeins veita gegn eðlilegu gjaldi, það er skilyrt hér. Þá segir einnig að leyfi til afnota eða hagnýtingar verði einvörðungu veitt til hóflegs tíma í senn. Hóflegur tími skilgreinist eftir því hvaða auðlind átt er við, hvort það er nýtingarleyfi á jarðhita, fallvötnum, veiðileyfi o.s.frv., það ber auðvitað alltaf að taka tillit til þess hvaða auðlind um er að ræða. Það þarf alltaf að vera ríflegur tími en um leið hóflegur þannig að hagsmunir beggja séu tryggðir.

Orðalagið „gegn eðlilegu gjaldi“, eins og segir í áliti meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, ber að túlka með hliðsjón af 4. mgr. greinarinnar þar sem áskilið er að við nýtingu auðlindanna skuli hafa að leiðarljósi almannahag og sjálfbæra þróun. Með „almannahag“ er vísað til þess að þjóðin eigi auðlindir og geri sem eigandi þeirra tilkall til arðsins af þeim. Þá kemur að umdeildu atriði sem er alltaf undir rökræðu selt, eins og allt hitt, nákvæmlega hvernig því er fyrirkomið. Sjálfsagt er að vera með slíkt í lögum til sífelldrar skoðunar en það er sem sagt að í fyrirmælunum um eðlilegt gjald felst að stjórnvöldum sé skylt að krefjast fyrir hönd almennings hlutdeildar í umframhagnaði, þ.e. auðlindarentunni, þeim hagnaði sem nýting viðkomandi auðlinda skapar umfram eðlilega ávöxtun þeirra fjármuna sem bundnir eru við nýtingu að teknu tilliti til áhættu.

Þetta er sem sagt skilgreiningin á umframhagnaði sem auðlindagjaldið skal reiknast af. Hlutdeildina getur löggjafinn ákveðið að innheimta í formi magntengdra afnotagjalda, þ.e. skatta af auðlindarentunni, eða hagnaði upphafs- og leigugjalda sem ákveðin eru með útboði, uppboði eða virkum markaði eða með öðrum aðferðum sem henta eðli hverrar auðlindar sem um ræðir. Jafnframt verði þó gætt almannahags og jafnræðis eins og áskilið er í greininni og jafnræðisákvæðið skiptir auðvitað mjög miklu máli þegar verið er að veita aðgengi að auðlindinni. Þar er gert ráð fyrir að löggjafinn leitist við að ákvarða hlutdeild þjóðarinnar hvorki svo lága að hún verði af tekjum sem henni tilheyra með réttu sem eiganda auðlindanna né svo háa að það hamli nýtingunni og eðlilegri arðsemi af henni sem slíkri að teknu tilliti til fjárbindingar og áhættu.

Þess vegna blasir líka við að ef það reynist svo að einhver hluti af til dæmis veiðigjaldinu sem var hækkað og sett á, raunverulegt veiðigjald í fyrra, reynist einhvern veginn hamla nýtingunni og eðlilegri starfsemi beri að endurskoða það. Það segir sig alveg sjálft. Það er þá líka stjórnarskrárvarinn réttur þeirra sem gera út og nýta auðlindirnar að það sé ekki óhóflegt gjald heldur sé tekið tillit til allra þessara þátta. Þetta er í fullu samræmi við skýrslu auðlindastefnunefndar frá árinu 2011 og veiðigjöldin sem ég nefndi hérna áðan eiga sér samsvörun í löggjöf á sviði auðlindanýtingar. Þar verður að gera ráð fyrir að löggjafinn setji nánari fyrirmæli um gjaldtöku með löggjöf fyrir hverja tegund auðlindar eða takmarkaðra almannagæða sem á að leyfa einhvers konar nýtingu á. Það gefur augaleið að löggjafinn þarf alltaf að setja þær reglur, bæði um tímalengd nýtingar og um gjaldtökuna.

Það skiptir miklu máli að þetta liggi alveg fyrir, þetta verður aldrei bundið í stjórnarskrá heldur er kjarninn í ákvæðinu sá að það er verið að tryggja ævarandi eignarréttindi þjóðarinnar á auðlindum sínum. Það er það sem skiptir máli, öll útfærslan á auðlindanýtingunum og gjaldtakan og þær leikreglur skilgreinir löggjafinn svo hverju sinni, að gæta jafnræðis, taka eðlilegt gjald, hafa hóflegan tíma, þetta eru leiðarstefin í auðlindanýtingunni. Það er hægt að nefna dæmi um lagaumgjörð virkjunarleyfa í gildandi raforkulögum frá 2003, þar er ekki sérstaklega tekið fram að gefa skuli út virkjunarleyfi til tiltekins tíma en hér eru tekin af öll tvímæli um það.

Ég nefndi áðan að jafnræði skiptir miklu máli til að tryggja að úthlutun leyfa til afnota eða hagnýtingar auðlinda standist jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar, samanber 6. gr. frumvarps þessa, þannig að allir þegnar landsins fái notið jafnræðis við úthlutun þeirra sameiginlegu gæða sem Ísland hefur yfir að ráða. Auk framangreindrar tilvísunar til jafnræðisreglunnar er kveðið á um að leyfi til nýtingar leiði aldrei til eignar eða óafturkallanlegs forræðis yfir auðlind í þjóðareign eða öðrum takmörkuðum almannagæðum. Þetta er algjört kjarnaatriði og dregur fram hvers vegna er svo mikilvægt að auðlindaákvæðið fari inn í stjórnarskrá. Hvað varðar jafnræðið eru auðvitað til ýmsar leiðir til að tryggja það. Það hefur verið rætt um það í gegnum tíðina hvort fara eigi svokallaða fyrningarleið til að gæta jafnræðis við nýtingu sjávarauðlindarinnar og fyrna þau veiðiréttindi sem útgerðarmenn hafa í dag, setja tiltekinn hlut á opinn markað á hverju ári og tryggja þannig jafnræði. Síðan hefur það mál þróast og verið settar fram tillögur í frumvörpum um nýtingarleyfi til 20 ára og ákveðnar leikreglur þar að lútandi, hluti af öllum viðbótarheimildum fari í opinn pott. Það má endalaust rökræða um nákvæmlega hvaða aðferðir eru bestar og heppilegastar í þetta, það er löggjafans að gera það gagnvart hverri auðlind hverju sinni, en ég tel að það blasi við af umræðum í dag og í gær að þessi tvö ákvæði eru komin á þann stað að ekkert sé því til fyrirstöðu að auðlindaákvæðið og breytingarákvæðið gangi að lokinni umræðu, sem getur þess vegna tekið alla þá daga sem hún þarf að taka til að hún sé tæmd til atkvæða, og meiri hluti Alþingis ráði úrslitum um þau mál.