141. löggjafarþing — 107. fundur,  19. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[15:35]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr) (andsvar):

Erum við ekki að varpa ábyrgðinni af okkar höndum ef við gerum það svona? Við erum í raun og veru að varpa af okkur ábyrgðinni sem okkur var fólgin. Ég hef líka áhyggjur af því ef við ætlum að hunsa þjóðaratkvæðagreiðsluna á þennan hátt því að það er náttúrlega miklu meira sem liggur undir en bara ákvæði um þjóðareign á auðlindum landsins.

Hvernig heldur hv. þingmaður að verði farið með þjóðaratkvæðagreiðslu um að ganga í ESB? Ef við náum ekki að breyta þessu eins og til stóð er alveg ljóst að litið verður á það sem túlkunarlega skoðanakönnun. Er þá ekki alveg eins gott að segja að við ætlum að setja ESB-samninginn í skoðanakönnun? Hver er munurinn? Ég spyr af því að ég get ekki séð hann. Mér finnst óréttlátt gagnvart kjósendum að fá ekki að vita hver hugur allra þingmanna er gagnvart nýrri stjórnarskrá sem okkur var falið að taka í gegnum þingið og á næsta stig, þannig að það væri alveg kristaltært að ef við samþykktum hana sem grundvallarplaggið væri ekki farið að hræra í því.

Það er rifrildi um hvernig ákvæðið um auðlindir í þjóðareign eigi að vera en ef maður horfir á tillögu stjórnlagaráðs er það alveg kristaltært. Ástæðan fyrir því að við fólum þjóðinni að veita okkur dómgreind er sú að þingið getur ekki komist að niðurstöðu.