141. löggjafarþing — 107. fundur,  19. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[17:27]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hv. þingmaður kom inn á þjóðaratkvæðagreiðsluna í ræðu sinni og hafði reyndar áhyggjur af því að hún væri kannski ekkert endilega gott innlegg í málið eða framfarir í málinu. Ég er alveg sammála hv. þingmanni um að þegar menn fara í þjóðaratkvæðagreiðslu þurfa spurningarnar auðvitað að vera mjög afmarkaðar og markvissar þannig að hver og einn geti ekki túlkað niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar með sínu nefi. Það sem mér hefur fundist merkilegt við málið er að formenn stjórnarflokkanna og hv. þm. Guðmundur Steingrímsson lögðu fram frumvarp sem er útfærsla af frumvarpi sem hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur flutt hér í tví- eða þrígang, mér fannst það ágætisinnlegg í málið miðað við hver staðan á því var.

Síðan kemur breytingartillaga frá þingflokksformönnum stjórnarflokkanna ásamt tveimur hv. þingmönnum sem mér fannst mjög sérkennileg. Auðlindaákvæðið sem er lagt fram þar var unnið í meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og þá koma þau rök að mesta þátttakan hafi verið um að hafa auðlindaákvæðið í stjórnarskránni en þessi útfærsla á ákvæðinu var ekkert í þjóðaratkvæðagreiðslunni. Það var því ekki verið að kjósa beint um það sem slíkt og hefði verið öðruvísi ef menn hefðu stillt ákvæðinu upp eins og það er.

Svo er það náttúrlega hitt að þingflokkur Framsóknarflokksins kemur með tillögu til umræðna, menn kalla eftir tillögum og umræðum, og þá verður allt alveg snarvitlaust. Þingmenn Framsóknarflokksins spila út hugmynd og menn ganga af göflunum og koma hingað með látum, öskrum og veinum. Mig langar að spyrja hv. þingmann um breytingartillöguna um auðlindaákvæði, hvað honum finnist um þá túlkun hv. þingmanna að verið sé að kalla eftir akkúrat því auðlindaákvæði en ekki einhverju öðru.