141. löggjafarþing — 107. fundur,  19. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[18:33]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér allumfangsmikið mál sem í fyrstu virtist bara vera — ég segi bara og mun koma betur inn á það síðar — breytingartillaga og breytingarákvæði um stjórnarskrá Íslands en hefur í kjölfarið á allnokkrum breytingartillögum sem hafa verið lagðar fram við málið breyst í að fjalla um stjórnarskrána alla og/eða einstök ákvæði hennar.

Í upphafi máls míns er óhjákvæmilegt að minnast örlítið á það að við erum í lok dags á þriðjudegi komin þrjá daga fram yfir áætluð þinglok samkvæmt starfsáætlun þingsins. Því miður er fátt sem bendir til þess að við séum að ná til lands með forgangsröðun verkefna á þinginu áður en við höldum í kosningabaráttu til að leita eftir endurnýjuðu umboði hjá þjóðinni um það með hvaða hætti leiða á til lykta ýmis álitamál sem hafa verið til umfjöllunar í þinginu, sum hver allt kjörtímabilið, önnur mun lengur og enn önnur hafa verið að dúkka hér upp á síðustu dögum.

Það er rétt að benda á að sú forgangsröðun sem stjórnarflokkarnir hafa haft uppi er að breyta eigi stjórnarskrá á þessu kjörtímabili og leggja fram nýtt kerfi um stjórn fiskveiða, sem menn hafa nú að ég held ýtt til hliðar. Nú á síðustu dögum hafa dúkkað upp breytingar á vatnalögum sem kölluð eru til samræmingar en eru stórkostleg grundvallarbreyting á eignarrétti hvað varðar grunnvatn í landinu. Þá er einnig sérstakt athugunarefni að á þeim lista upp á 40 mál sem eru á dagskrá þingsins í dag, en við erum bara að fjalla um fyrsta dagskrármálið, þá eru engin mál sem varða skuldamál heimilanna þrátt fyrir að í nefndum og á verksviði ríkisstjórnarinnar séu mál sem mundu hjálpa til við það en þau eru ekki í forgangi hér. Ég minntist á það fyrr í dag að verkefnið sem snýr að vinnumarkaðsúrræðum vegna langtímaatvinnuleysis eru ekki á dagskrá heldur. Við erum sem sagt búin að vera að ræða í tvo daga um breytingar á breytingarákvæði stjórnarskrárinnar. Það verður að segjast eins og er að umræðan hefur verið fín, hún hefur verið málefnaleg og snúist um ýmis álitamál í stjórnarskránni. Margt hefur komið fram sem ekki hefur komið fram fyrr og skýrir að mörgu leyti, frú forseti, stöðu málsins í þinginu og að við skulum vera að ræða þennan þátt þess nú þegar við erum komin nokkra daga fram yfir starfsáætlun.

Það var vissulega sérkennilegt að hlusta á ræður ýmissa hv. stjórnarliða, eins og ræðu hv. þm. Helga Hjörvars eða hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar sem fóru mikinn um stefnu Framsóknarflokksins og notuðu meginpartinn af ræðutíma sínum til að fara yfir hana með rangtúlkunum og útúrsnúningi. Þá var jákvæðara að hlusta á ræðu hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur sem vitnaði réttilega til stefnu Framsóknarflokksins án þess að vera með neina útúrsnúninga eða rangtúlkanir í þá átt. Hún vitnaði fyrst og fremst til þess hver stefna okkar væri og það gerðu fleiri. Einna áhugaverðast var að hlýða á ræðu hæstv. innanríkisráðherra í gær, Ögmundar Jónassonar, sem skýrði það að innan stjórnarflokkanna eins og maður hefur haft vitneskju um í allan vetur væri ekki staðfesta, vissa eða sannfæring fyrir því að málið eins og því hefur verið áfram haldið af hendi meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar hefði meiri hluta í stjórnarliðinu. Þess vegna er þetta mál auðvitað komið í öngstræti og það fyrir löngu.

Þess verður að geta líka að hjá einstökum þingmönnum — það kom einna berlegast fram í ræðu hv. þm. Birgittu Jónsdóttur í dag og hefur reyndar heyrst hjá nokkrum þeirra sem hafa verið í fararbroddi í stjórnskipunar- og eftirlitsnefndinni til þessa, þá á ég ekki við þá sem hafa tekið við keflinu á síðustu metrunum til að finna leiðir út úr öngstrætinu — hefur gætt þess misskilnings að oftúlka þjóðaratkvæðagreiðsluna 20. október sl. með nákvæmlega þeim hætti sem sá sem hér stendur og fleiri vöruðu við í fyrravor þegar við vorum að ræða þjóðaratkvæðagreiðsluna, þ.e. að menn færu í umræður með fyrir fram ákveðnar takmarkaðar spurningar sem væru of víðar, of rúmar og þegar þeim væri skeytt saman væri mikil hætta á að menn túlkuðu þær rangt.

Ég ætla að nefna dæmi. Ég þekki nokkra sem tóku þátt í þjóðaratkvæðagreiðslunni og sögðu nei við fyrstu spurningunni um hvort leggja ætti tillögu stjórnlagaráðs til grundvallar nýrri stjórnarskrá, sumir vegna þess að þeir voru einfaldlega á móti því, aðrir sögðu nei vegna þess að þeir óttuðust að einhverjir túlkuðu það „að leggja til grundvallar“ þannig að ekki mætti breyta neinu. Ég þekki líka fjölmarga sem sögðu já við þessari spurningu, annars vegar vegna þess að þeir voru á þeirri skoðun að tillagan væri góð og leggja ætti hana til grundvallar og hins vegar vegna þess að þeir lögðu þann skilning í orðalagið „til grundvallar“ að það væri meginhugsun en að sjálfsögðu mætti breyta umtalsvert.

Þess misskilnings hefur gætt hjá þeim hv. þingmönnum sem ég nefndi hér áðan að ekki megi breyta nokkrum sköpuðum hlut. Þess vegna hefur sú umræða orðið um náttúruauðlindaákvæðið að í raun hafi 84% greitt atkvæði um það ákvæði eins og það hljómaði í tillögum stjórnlagaráðs sem flestum okkar hlýtur að vera augljóst að var ekki. Fólk var fyrst og fremst að lýsa skoðun sinni á því að það vildi að það væri ákvæði um náttúruauðlindir í þjóðareign í stjórnarskránni. Ég held að við séum meira og minna sammála um það, allir stjórnmálaflokkarnir. Við höfum hins vegar ekki komið okkur saman um hvernig það skal hljóma.

Eins sérkennilegt og það hljómar, frú forseti, þá lögðum við framsóknarmenn fram tillögu fyrir líklega einum tveimur vikum sem byggði að stærstu leyti á niðurstöðu auðlindanefndar frá árinu 2000 þar sem í sátu þrír þingmenn Samfylkingarinnar en við uppskárum það að leggja þessar hugmyndir fram sem málamiðlunartillögu hreinar og klárar árásir, fyrst og fremst frá Vinstri grænum en líka frá einstökum þingmönnum Samfylkingarinnar, þangað til einhver kom fram, held ég, og sagði þeim frá því hvað þessi tillaga gekk út á og menn áttuðu sig á að hún var í raun og sann tillaga sem var búin að fara í gegnum mikla skoðun og væri trúverðug. Engu að síður koma hv. þingmenn Samfylkingarinnar enn hingað upp og halda því fram að hér sé eitthvert sérkennilegt biks á ferðinni. Auðvitað ætla ég ekki að halda því fram að hv. þingmenn Vinstri grænna hefðu nokkurn tíma samþykkt þetta þar sem þeirra afstaða til auðlinda í þjóðareigu hefur byggst á því að þjóðnýta helst allar auðlindir í landinu.

Nú erum við til að mynda hér í þinginu með lög sem kallast samræming reglna um vatnsréttindi en í þeim liggur grundvallarbreyting á eignarrétti á vatni í jörðu hjá landeigendum úr beinum eignarrétti í óbeinan. Það er kallað samræming og reynt að lauma því hér inn, komið er með það á mánudagskvöldi, greidd atkvæði um afbrigði til að koma því á dagskrá, sagt að það sé smámál, tæknimál, samræmingarmál og síðan er málið keyrt inn í atvinnuveganefnd, gefinn fimm daga umsagnarfrestur og byrjað að taka á móti gestum áður en umsagnarfresturinn er liðinn. Af þessum fimm dögum voru laugardagur og sunnudagur. Því miður hafa helstu sérfræðingar okkar í þessum fræðum ekki treyst sér á þessum tímafresti að skila inn umsögn en beðið um lengri frest. Engu að síður þegar ég varð að gera hlé á ræðu minni um sjöleytið var auglýstur fjórði fundurinn á þessum dögum í atvinnuveganefnd til að fjalla um þetta mál.

Ég segi þetta hér vegna þess að þetta tengist þeim hugmyndum af náttúruauðlindaákvæði sem hafa verið að koma fram frá stjórnlagaráði og meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, sem hefur komið með einar fjórar eða fimm útgáfur af þessu ákvæði, og svo þeirri sérkennilegu uppákomu sem varð hér um helgina og kom fram í ræðum bæði hv. þm. Árna Páls Árnasonar og hv. þm. Oddnýjar Harðardóttur, annars vegar formanns Samfylkingarinnar og hins vegar þingflokksformanns Samfylkingarinnar. Formaður Samfylkingarinnar sendi tillögu á sunnudegi til formanna stjórnarandstöðuflokkanna til íhugunar. Það var ekki boðað til formlegs fundar. Það var ekki heldur gert þegar við framsóknarmenn lögðum fram okkar málamiðlunartillögu. Það hafa í sjálfu sér engar formlegar viðræður farið fram um það hvernig hægt sé að ná saman. Menn nota ræðupúlt Alþingis, þennan stól sem ég stend í til að reyna að semja um mál sem er ólíklegt að takist. Það sérkennilega var að á þessum sama sunnudegi virtist annar hópur innan Samfylkingarinnar með þingflokksformanninn í broddi fylkingar koma með enn eina útgáfu af ákvæði um náttúruauðlindir, án þess að hafa hugmynd um hvað formaðurinn var að gera, í slagtogi með formanni þingflokks Vinstri grænna og einum þingmanni úr hvorum flokki. Það er auðvitað ekki líklegt, frú forseti, að menn nái samstöðu um mál þegar þeir nota þennan stól til að semja um þau og þegar koma misvísandi tillögur frá stjórnarflokkunum dag hvern án þess að menn virðist hafa vitneskju um hvað hinir innan sama þingflokks séu að gera. Þess vegna hef ég sagt og ætla að grípa til enskrar tungu en með leyfi forseta skal ég þýða hið snarasta: „Too little, too late“, eða of lítið, of seint.

Við framsóknarmenn buðum í janúar upp á að menn settust þá þegar yfir stjórnarskrána, næðu saman um náttúruauðlindaákvæði, kæmu því inn í núverandi stjórnarskrá, ekki þá rangtúlkun sem var í fréttum og einhverjir hafa lesið að við ætluðum að setja það inn í frumvarp meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar heldur inn í núverandi stjórnarskrá, og skoðuðu einnig þjóðaratkvæðagreiðslur, sem sagt aukið beint lýðræði. Þá hefðum við haft þann tíma frá miðjum janúar til miðs mars til að ljúka þessu máli með mun líklegri og jákvæðari niðurstöðu vegna þess að menn eru að reyna að ná saman. Þetta kemur bara of seint og er of lítið og það er of óljóst hvert menn ætla sér að fara. Því miður er það þannig.

Það verður að segjast alveg eins og er að það hefur lengi verið stefna okkar framsóknarmanna að koma slíku ákvæði á. Við höfum barist fyrir því hér á þingi við Sjálfstæðisflokkinn. Það sem er líka áhugavert og kom fram hjá hv. þm. Magnúsi Orra Schram áðan er að þegar Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn voru saman í stjórn í þrjú kjörtímabil höfðu þeir mörg tækifæri til að breyta stjórnarskránni með einföldum meiri hluta og taka það upp á næsta þingi en ævinlega var reynt að leita eftir sem víðtækustu samráði til að allir væru sammála. Fyrir vikið tókst ekki að ná samstöðu. Það voru fleiri flokkar en Sjálfstæðisflokkurinn sem voru erfiðir við Framsóknarflokkinn í þessu máli, augljóslega þingmenn Vinstri grænna sem vildu ekki náttúruauðlindaákvæði í anda auðlindanefndarinnar frá árinu 2000. Svo hefur komið fyrir að Samfylkingin hafi sagt þvert nei vegna þess að ræða átti aðra kafla eins og forsetakaflann. Þá bökkuðu hv. þingmenn Samfylkingarinnar. Þetta er hið sögulega samhengi. En það er rétt sem kom fram hjá hv. þm. Magnúsi Orra Schram að Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn hefðu getað nýtt þetta tækifæri en gerðu það ekki. Það er vegna þess að við framsóknarmenn, í það minnsta, trúum því að breytingarákvæðið sé í raun og veru samstöðuákvæði, það sé þvingunarúrræði til að menn komi sér saman um breytingar því að ekki eigi að gera breytingar á stjórnarskrá nema með eins víðtækri sátt, breiðfylkingu þingmanna úr sem flestum flokkum og hægt er.

Ég ætla að koma aðeins inn á það hér svo að ég geti komið því frá mér áður en tími minn líður að ég hef verulegar áhyggjur af því hvert tillagan um breytingarákvæðið leiðir, sem kemur frá formönnum stjórnarflokkanna og hv. þm. Guðmundi Steingrímssyni, út af nokkrum þáttum. Ég ætla að segja það strax að mér hefur fundist tillagan batna í meðförum stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Það er framsögumanni, hv. þm. Magnúsi Orra Schram, til fyrirmyndar að hann hafi náð að koma inn breytingum. Það er tilraun til að ná sátt, ég geri mér grein fyrir því. Mér fannst tillagan hins vegar vera allt of opin þegar hún kom fyrst fram. Við þurfum virkilega að vanda okkur við að finna út úr því með hvaða hætti er skynsamlegast að breyta stjórnarskránni í sátt.

Hv. þm. Birgir Ármannsson kom hingað upp í ræðu næstur á undan mér í dag og fór yfir það með hvaða hætti stjórnarskrá er breytt í öðrum löndum. Annars staðar á Norðurlöndum þarf sums staðar ekki bara tvö þing til heldur einnig þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er sem sagt enn erfiðara en í núgildandi stjórnarskrá okkar.

Ef við ætlum að reyna að fara þessa leið er lágmark að mínu mati að 2/3 þingmanna þurfi að samþykkja breytingar. Mér finnst það íhugunarefni hvort hlutfallið þurfi að vera hærra. Ég tel ekki hægt — ég veit að umræður hafa farið fram um það í dag, ég hlustaði á þær meginhluta dagsins — að fara með nýja stjórnarskrá eða breytingu á stjórnarskrá í þjóðaratkvæðagreiðslu og hún verði samþykkt án þess að minna en 50% þjóðarinnar samþykki hana. Mér finnst það ekki hægt. Ég veit að það er mjög hár þröskuldur. Mér finnst óeðlilegt að stjórnarskrá, grundvallarlög landsmanna, sé samþykkt af 20% eða 30%. Ég tel að þetta ákvæði þurfi að vera nokkuð stíft. Ég er ekki viss um að við séum komin til botns í því en tek undir að margt jákvætt hefur gerst við þá vinnu í meðferð stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar hvað varðar samþykkishlutfallið og hvernig þjóðaratkvæðagreiðslan eigi að fara fram. Svo hefur talsvert verið rætt um það hvort sérkennilegt sé að þetta ákvæði komi til viðbótar en ekki í staðinn fyrir. Ég verð að segja eins og er að ef við ætluðum að fara þessa leið þá finnst mér alveg umhugsunar virði hvort ekki sé rétt að það verði til viðbótar því að menn eru í raun og veru að tala um bráðabirgðabreytingu.

Þá kem ég að öðru sem stendur einna mest í mér varðandi þessa breytingu. Það er að verkefninu eigi að vera lokið 17. júní 2014. Ég tel að við stefnum þá aftur með málið í algert öngstræti, tímahrak og vandræði og ekki náist að ljúka því nema undir einhverri gríðarlegri tímapressu sem mun þýða óvandaðri vinnubrögð, hættu á því að menn nái ekki saman, hættu á að togstreita og átök sem við þekkjum um þetta mál blossi upp að nýju ef menn hafa ekki nægilegan tíma til að sinna því. Ég held að þessi tímamörk séu megingallinn við þessa hugmynd og vitna ég þá til þingsályktunartillögunnar sem er á dagskrá seinna í kvöld eða á morgun eða hvenær sem hún kemst á dagskrá sem snýr að svolítið sambærilegu málefni sem hafa verður til hliðsjónar.

Ég mun aldrei sætta mig við að við gerum hér breytingu á breytingarákvæðinu, samstöðuákvæðinu, með það að markmiði að breyta stjórnarskránni á næstu 14 mánuðum á þeim grundvelli sem lýst er sem forsendu þess hvernig eigi að vinna það, annars vegar út frá tillögu stjórnlagaráðs, sem er út af fyrir sig allt í lagi, mikil vinna hefur farið þar fram, og hins vegar verði þær breytingartillögur sem meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar hefur lagt fram hafðar til hliðsjónar.

Ég spyr, frú forseti: Hvað með tillögur allra annarra? Hvað með álit sem hafa hingað til verið lögð fram í þessu máli? Hvað með álit allra sérfræðinga? Hvað með álit stjórnarskrárnefndarinnar? Hvað með álit auðlindanefndarinnar? Hvað með alla þá vinnu sem hefur farið fram á liðnum áratugum? Á ekki að notast við það hér? Á að takmarka okkur við annars vegar niðurstöðu stjórnlagaráðsins sem hefur fengið gríðarlega gagnrýni, m.a. frá sérfræðingum innan lands og erlendis, og hins vegar einungis tillögu meiri hlutans í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd?

Þetta mun ég aldrei geta sætt mig við. Ég tel að þarna sé verulegt verk að vinna ætli menn sér að ná sátt um þessar breytingar, svo að það sé nú sagt. Það er líka allt í lagi að koma því á framfæri, af því að einhverjir hafa verið að velta því fyrir sér, að ég tek undir með hæstv. innanríkisráðherra sem lýsti því yfir hér í gær að hann hefði ekki samþykkt þær tillögur sem komu frá meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar sem grundvallaðar voru á tillögum stjórnlagaráðs um nýja stjórnarskrá. Ég er ósáttur við fjölmarga kafla. Um fjölmarga kafla hefur nánast ekkert verið rætt, ekki í þinginu hvað þá í samfélaginu og álit Feneyjanefndarinnar ítrekaði það enn frekar hversu mikil óvissuferð þetta sé.

Ég get nefnt dæmi þar sem við frú forseti sitjum bæði í forsætisnefnd. Þar voru allir forsætisnefndarmenn sammála um niðurstöðuna í kaflanum er sneri að Alþingi, að taka atkvæðisréttinn af forseta þingsins, með hvaða hætti forseti lýðveldisins, forseti Íslands, kæmi að setningu og þingrofi, með hvaða hætti forsætisráðherra kæmi að þingrofi og fleiri þættir er snertu Alþingi. Við vorum meira og minna á móti öllum þessum greinum og lögðum til breytingartillögur þar að lútandi. Sumar voru grundvallarbreytingar, til að mynda eins og samskipti forsetans og þingsins eða atkvæðisréttur forseta á þingfundum. Ég verð að segja alveg eins og er að taka slíkan pakka inn í breytingartillögu, eins og hv. þm. Margrét Tryggvadóttir gerir og hv. þingmenn stjórnarliðsins hafa sumir kallað tundurskeyti, er algerlega galið og lágkúrulegra yrði það væntanlega ekki ef menn mundu samþykkja nýja stjórnarskrá sem breytingartillögu við breytingarákvæði. Það væri líklega það lægsta sem menn gætu komist í þessu máli.

Ég tel að samstöðuákvæðið, þ.e. hvernig breyta skal stjórnarskrá, þurfi að vera þröngt. Ég tel að meiri umræða eigi eftir að fara fram um þá tillögu sem hér liggur fyrir áður en við komumst að sameiginlegri niðurstöðu og að tímafresturinn sem settur er í tillöguna sé mistök og muni gera verkið nánast ókleift. Síðan get ég ekki sætt mig við forsendur þingsályktunartillögunnar og þar með hugmyndafræðina sem liggur að baki breytingartillögu formannanna og hv. þm. Guðmundar Steingrímssonar. Ég held að það geti enginn þingmaður sem ekki er hluti af meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og þeir eru býsna margir og jafnvel fleiri en í stjórnarandstöðunni.

Ég ætlaði að koma aðeins inn á auðlindaákvæðið.

(Forseti (ÞBack): Forseti vill spyrja hv. þingmann hvort hann hafi hugsað sér að nýta allan ræðutímann.)

Já, ég reikna nú með því, frú forseti, að mér muni ekki duga minna en sá tími.

(Forseti (ÞBack): Þá vill forseti biðja hv. þingmann að gera hlé á ræðu sinni þar sem gert verður hlé á þingfundi í klukkustund frá kl. 19 til kl. 20 þannig að hv. þingmaður tekur til máls að hléi loknu og lýkur þá ræðu sinni.)

Ég mun virða þá ósk, frú forseti.