141. löggjafarþing — 107. fundur,  19. mars 2013.

lokafjárlög 2011.

271. mál
[22:03]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka skýr svör. Nú liggur fyrir að þó að vinnan við gerð þessa nefndarálits hafi verið með miklum ágætum og náðst um það ágætissamstaða eru mörg verkefni sem bíða þeirrar fjárlaganefndar sem verður skipuð væntanlega næsta haust. Á hvaða verkefni mundi þingmaðurinn leggja áherslu að ná fram til þess að við getum búið til þann lífsnauðsynlega aga á ríkisfjármálum sem við verðum að ná hér á næstu árum? Ég hef talið það vera einhverja mestu forsendu þess að við komum böndum á verðbólguna sem hefur verið gríðarlega mikil allt þetta kjörtímabil.

Hv. þingmaður minntist á safnliðina og ég spyr með hvað hann væri einna helst óánægður, þá sérstaklega í fjárlagagerðinni fyrir árið 2013. Það væri gott ef hann gæti komið aðeins betur inn á það.

Mér finnst afar virðingarvert þegar menn eru reiðubúnir að sjá að sér. Ég taldi rök hv. þingmanns góð á sínum tíma þó að ég hafi verið ósammála þeim og síðan kom í ljós að það gegnsæi sem stefnt var að gekk ekki eftir. Það að vinna faglegar að verkefni með meira gegnsæi getur verið markmið í sjálfu sér en ég held að það hafi því miður sýnt sig að núna er þetta frekar í hina áttina.