141. löggjafarþing — 108. fundur,  21. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[18:15]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að fullyrða að ég gæti verið að tala fyrir munn allra þegar ég segi að sá bragur sem er yfir þessari umræðu um stjórnarskrá landsins er ekki sá bragur sem nokkurt okkar hefði kosið. Ég held að við gerum okkur öll grein fyrir því að umræðan um stjórnarskrána er kannski einhver sú vandasamasta sem við tökumst á við, ekki bara vegna þess að stjórnarskráin er í eðli sínu býsna flókið fyrirbrigði, ekki bara vegna þess að við höfum verið að ræða þessi mál svona lengi, heldur einfaldlega vegna þess að stjórnarskráin hefur þessa algjöru sérstöðu í allri annarri lagasetningu sem Alþingi kemur að og okkur er auðvitað öllum ljós. Við breytum lögum æ ofan í æ ef þörf krefur. Við leiðréttum lög ef okkur er ljóst að mistök hafa orðið. Pólitískir meiri hlutar skipta um kúrs í einstökum málaflokkum. Við vinnum löggjöfina eins og okkur er öllum ljóst.

Hins vegar gegnir allt öðru máli með stjórnarskrána. Stjórnarskráin er grunnlög. Ég held að norræna hugtakið yfir stjórnarskrá, „grundlov“, nái þessu býsna vel. Þetta er grundvöllurinn sem öll önnur lagasetning byggir á. Þegar við ræðum til dæmis ýmis álitamál, pólitísk álitamál sem upp koma, verður það alltaf að vera fyrsta verkefni okkar þingmanna að velta fyrir okkur hvort viðkomandi lagasetning sé í samræmi við stjórnarskrána. Af hverju er það? Það er vegna þess að þegar við þingmenn komum til þings í fyrsta sinn undirritum við eiðstaf að stjórnarskránni. Það er stjórnarskráin sem við ætlum að virða. Það er einmitt það að þetta eru grundvallarlög sem gerir það að verkum að við getum ekki breytt sjálfum grundvelli lagasetningarinnar sem á sinn hátt er um leið ákveðinn grundvöllur þess þjóðskipulags sem við byggjum á.

Réttindi borgaranna eru í grundvallaratriðum tryggð í gegnum stjórnarskrána. Við sveiflum þeim réttindum ekki til frá degi til dags því að við sem borgarar, sem einstaklingar, hvort sem við störfum innan eða utan Alþingis, verðum að geta treyst á það að þau meginsjónarmið sem stjórnarskráin okkar skapar okkur grundvöll að séu við lýði. Þegar við sem þegnar teljum á okkur brotið að lögum leitum við réttar okkar og þegar við teljum að löggjafarvaldið eða framkvæmdarvaldið gangi fram með einhverjum þeim hætti að það brjóti í bága við þann grundvöll sem þjóðfélaginu okkar er settur á grundvelli stjórnarskrárinnar höfum við auðvitað mjög sterkan rétt okkar megin.

Það er þessi grundvallarhugsun sem er svo mikilvæg. Við megum aldrei nokkurn tímann hætta að hugsa um hana þegar við ræðum frumvarp eins og þetta. Þetta eru algild sannindi. Ég er ekki að segja neina nýja hluti. Ég er væntanlega ekki að upplýsa um eitthvað sem öðrum hefur verið hulið fram að þessu. Ég árétta hins vegar að allt sem við gerum varðandi stjórnarskrána verður að vera með þeim hætti að það standist tímans tönn, sveiflist ekki með tískunni, sveiflist ekki með tíðarandanum, heldur séu þetta ákveðin meginsjónarmið sem við viljum leggja til grundvallar í okkar lýðræðislega, opna þjóðskipulagi til tryggingar á hagsmunum borgaranna.

Þetta er það sem við verðum alltaf að hafa í huga þegar við ræðum þessi mál og nákvæmlega hvernig við erum að reyna að vinna að endurskoðun stjórnarskrár.

Við höfum reynt að gera þetta með þeim hætti að við sköpuðum sem mestan frið og samstöðu milli hinna ólíku pólitísku afla. Og skipta hin pólitísku öfl einhverju máli í þessu sambandi? Já, svarið er alveg ótvírætt já við því vegna þess að það eru hin pólitísku öfl sem eru hinir lýðræðislegu kjörnu fulltrúar almennings í landinu. Við sem sitjum á Alþingi sitjum þar í krafti og umboði almennings sem hefur kosið okkur, falið okkur að fara með mikið vald í nafni sínu og umboði. Þess vegna er eðlilegt að við reynum að búa til sem mesta samstöðu milli stjórnmálaaflanna um tilteknar breytingar sem við viljum gera, m.a. á stjórnarskránni, af því að við viljum að það endurspegli sem best einhvers konar sáttmála þjóðarinnar um það hvernig við viljum að stjórnarskráin okkar líti út. Þess vegna hefur það verið þannig á lýðveldistímanum að stjórnmálaflokkarnir hafa setið að þessu máli.

Ég get alveg út af fyrir sig tekið undir að það hafa verið tímabil þar sem þessum málum hefur undið óeðlilega hægt fram. Það er hins vegar liðin tíð og við breytum því ekki, en í meginatriðum þó vil ég segja að menn hafa alltaf verið heils hugar í því að láta þessar stjórnarskrárbreytingar ganga fram hægt en örugglega í sem mestri sátt sem endurspegli þjóðarviljann, að menn telji þá.

Við höfum séð í gegnum tíðina að það hefur líka náðst pólitísk samstaða um ýmsar veigamiklar breytingar, umdeildar breytingar og viðkvæmar. Ég heyri til dæmis í þeirri umræðu sem hefur farið fram síðustu mánuðina að menn hafa gert lítið úr ýmsum þeim breytingum sem hafa verið gerðar á stjórnarskránni í tímans rás. Menn hafa sagt: Ja, það hafa verið gerðar einhverjar breytingar á kosningafyrirkomulaginu eða kjördæmaskipaninni en þetta eru auðvitað grundvallarbreytingar. Þetta eru mjög viðkvæm mál. Það með hvaða hætti kosið er til þings, t.d. hvernig vægi atkvæða á að vera, eru býsna stórar spurningar sem við höfum heyrt í umræðunni fyrr á þessum vetri að menn eru hreint ekki allir sammála um.

Ég hef sjálfur goldið varhuga við þeirri kenningu að hin lýðræðislega spurning þegar kemur að kjördæmaskipaninni og kosningafyrirkomulaginu snúist eingöngu um vægi atkvæða. Ég hef einmitt bent á að í ýmsum öðrum löndum sem sannarlega eru líka lýðræðisríki er það tiltekin viðurkenning á auknum rétti dreifbýlustu héraðanna. Það er kannski í smærri mæli en gengur og gerist hér á landi, en við vitum líka að okkar landfræðilega uppbygging er önnur en víða annars staðar. Uppbygging okkar samfélags er að mörgu leyti mjög frábrugðin því sem gerist og gengur í öðrum löndum. Það er til dæmis nánast einsdæmi í vestrænum ríkjum að höfuðborgarsvæðið sé svo stórt hlutfall af heildaríbúafjölda eins og þekkist á Íslandi. Það er nánast algjörlega útilokað að það sé þannig í öðrum löndum. Það er nánast algjörlega óþekkt fyrirbrigði. Það er ekkert óeðlilegt við það í ljósi þessarar sérstöðu landsins að það gildi með nokkrum hætti önnur sjónarmið um vægi atkvæða en í öðrum ríkjum.

Í annan stað vil ég líka segja í þessu sambandi að þegar menn eru að velta fyrir sér fyrirkomulagi kosninga eða kjördæmaskipan eða spurningunni um vægi atkvæða er sú síðasta, um vægi atkvæða, ekki sú eina sem máli skiptir. Þvert á móti.

Ég hef nokkrum sinnum vitnað í það að fyrir ekki mjög löngu síðan fór fram gríðarlega mikil stúdía á kosningafyrirkomulaginu í Bretlandi. Af hverju skyldi það hafa verið? Bretar eru með nokkuð sérstakt fyrirkomulag sem þó er alveg þekkt í fleiri ríkjum, svokölluð einmenningskjördæmi. Þau breytast nokkuð með breytingum á íbúafjölda til þess að láta þau vera nokkuð jöfn. Þó er það ekki eingöngu þannig. Til dæmis á það við um nyrstu héruðin í Skotlandi, a.m.k. eyjarnar þar, sem hafa mun meira vægi en önnur landsvæði, kannski svolítið svipað og við höfum hugsað með dreifbýliskjördæmin okkar.

Kjarni málsins er sá að í Bretlandi eru einmenningskjördæmi. Af hverju skyldi það vera? Af hverju eru þeir með einmenningskjördæmi? Það sem þeir eru að hugsa um er ekki bara spurningin um vægi atkvæða, þeir eru líka með aðrar spurningar mjög ofarlega á sinni dagskrá. Þeir spyrja spurninga eins og þessarar:

Er ekki hlutverk kosninga meðal annars það að tryggja að það verði tiltölulega einfalt að mynda starfhæfa og örugga meirihlutastjórn?

Réttlætingin fyrir því að vera með einmenningskjördæmi hefur einmitt verið það af hálfu Breta í gegnum tíðina að með því væri hægt að tryggja að það yrði til raunveruleg meirihlutastjórn sem bæri þá fulla ábyrgð. Þá væri nokkuð ljóst eftir kosningar hvaða flokkur bæri hina pólitísku ábyrgð og væri treyst til þess að mynda ríkisstjórn.

Þetta hefur gerst í flestum kosningum í Bretlandi síðustu marga áratugina nema reyndar nú síðast þegar enginn stjórnmálaflokkur fékk hreinan meiri hluta sem ekki hafði þá gerst í mjög langan tíma. Fyrirkomulag einmenningskjördæmanna á hins vegar að stuðla að því að hægt verði að mynda starfhæfa meirihlutaríkisstjórn eins flokks sem hefur þá skýrt umboð.

Í Bretlandi hefur enginn stjórnmálaflokkur áratugum saman, sem þó hefur fengið meiri hluta þingmanna, fengið meiri hluta atkvæða og getur sagt að hann endurspegli eða hafi umboð meiri hluta kjósenda á bak við sig. Þó vefengir enginn lýðræðislegt umboð þessara ríkisstjórna, einfaldlega vegna þess að mönnum er ljóst að í einmenningskjördæmi er verið að reyna að tryggja aðra hagsmuni en endilega að leggja til grundvallar þar sem hlutfallskjör á sér stað.

Í öðrum löndum hafa menn haft þetta öðruvísi. Allt Holland er til dæmis eitt kjördæmi. Eftir því sem ég man best er þar ekki þröskuldur á aðkomu stjórnmálaflokkanna. Hið sama er í Ísrael. Niðurstaðan er sú að þar hefur oft og tíðum, eins og við þekkjum í Ísrael, reynst mjög erfitt að mynda meirihlutaríkisstjórnir. Umboð þeirrar stjórnar sem síðan hefur verið kjörin hefur verið dálítið veikt vegna þess að þar sameinast oft stjórnmálaflokkar sem eru með mjög ólíkar skoðanir í stórum málaflokkum. Þessir flokkar hafa þess vegna tiltölulega takmarkað lýðræðislegt umboð til að hrinda síðan í framkvæmd einhverjum málamiðlunum sem þeir gera eftir að búið er að kjósa.

Þegar við skoðum þetta í þessu ljósi er alveg ljóst að hugmyndin sem gengur alltaf aftur í allri umræðu um kosningafyrirkomulag og kjördæmaskipan hér á landi er ákaflega einfeldningsleg. Hún endurspeglar ekki á nokkurn hátt þær vangaveltur sem ég hef flutt hér inn í þessa umræðu sem eru þó alveg fullgildar og eru tvímælalaust nýttar í öðrum löndum.

Annað í þessu sambandi sem bresku sérfræðingarnir sem skoðuðu kosningafyrirkomulagið, og ég vék að áðan, veltu mjög mikið fyrir sér er milliliðalaust samband þingmanns og kjósanda. Niðurstaða þeirra varð sú að það væru mikil rök fyrir einmenningskjördæmum með tiltölulega afmarkað landfræðilegt svæði, að með því móti væri hægt að tryggja mjög gott milliliðalaust samband þingmannsins og kjósandans. Ég þekki það sjálfur, hef starfað á þeim vettvangi í Bretlandi að ég hef haft aðstöðu til að fylgjast með störfum þingmanns. Þessir þingmenn taka hlutverk sitt mjög alvarlega. Þeir fara í kjördæmi sín á föstudögum og halda þar gjarnan minni fundi. Þeir hafa móttökur á laugardögum fyrir fólk sem vill hitta þá. Þeir staðsetja sig í hinum ýmsu byggðakjörnum í kjördæmum sínum og rækja samband við kjósendur sína.

Þá segja kannski margir: Geta menn ekki gert þetta núna bara með nútímatækni, á Skype, í símanum, tölvunni eða einhverju slíku? Jú, það er auðvitað hægt að gera það og það skiptir miklu máli. Það getur verið mjög verðmæt viðbót, en það breytir ekki því að hin venjulega nálægð sem fæst eingöngu með þessum milliliðalausu samskiptum án þess að þurfa að fara um fjarskiptakerfi er mjög mikilvægt og ekkert kemur í veg fyrir það.

Bresku sérfræðingarnir komust að þeirri niðurstöðu að það væri mjög mikilvægt að vernda þessa sérstöðu einmenningskjördæmanna og það mikla hlutverk sem þau hefðu og gegndu í því að tryggja samband þingmannsins og kjósandans.

Að öllu þessu virtu varð niðurstaðan að breyta ekki kosningafyrirkomulaginu í Bretlandi. Þeir búa við sín einmenningskjördæmi. Þar getur komið upp mjög sérkennileg teoretísk staða. Hún getur verið þannig að einn flokkur fái flest atkvæði í hverju einasta kjördæmi án þess að fá nema 30–40%, jafnvel minna, en samt sem áður teoretískt fengið alla þingmennina kjörna á þingið. Í raunveruleikanum eru ekki miklar líkur á að þetta gerist. Raunveruleikinn er sá að vegna mismunandi viðhorfa í einstökum kjördæmum af lýðfræðilegum aðstæðum og ýmsum öðrum ástæðum er mjög líklegt að það verði einhver dreifing á milli flokka. Við höfum séð það.

Við sjáum líka að stóru flokkarnir í Bretlandi sem hafa verið það síðustu áratugina, Verkamannaflokkurinn og Íhaldsflokkurinn, hafa fengið miklu fleiri þingsæti en svarar til atkvæðafjölda þeirra í kosningum. Frjálslyndi flokkurinn hefur á hinn bóginn goldið fyrir þetta. Hann er með mun færri þingmenn en svarar til þess kjósendahluta sem hefur staðið á bak við þann flokk. Hið sama gæti verið að gerast í þeim breytingum sem eru að verða í Bretlandi með því að breski sjálfstæðisflokkurinn sem á að öðru leyti ekki mjög margt sameiginlegt með Sjálfstæðisflokknum íslenska, „Independence Party UK“, geldur núna þessa ástands sem einmenningskjördæmin bjóða upp á á sama tíma og flokkurinn hefur sótt mjög mikið í sig veðrið.

Það eru þessar vangaveltur sem ég er að reiða fram og vekja athygli á. Þegar við skoðum þær breytingar sem við höfum gert æ ofan í æ, a.m.k. þó nokkrum sinnum, á kosningafyrirkomulaginu, núna síðast sem tóku gildi við kosningarnar 2003, er alveg ljóst að Alþingi hefur tekist á við mjög mikilvægan þátt stjórnarskrárinnar. Ég vísa því algerlega á bug að lítið hafi verið unnið í þessum efnum, þó að sannarlega hefði ég kosið að við hefðum náð meiri árangri á ýmsum sviðum.

Ég er til dæmis þeirrar skoðunar að það sé mjög miður að ekki hafi tekist fyrir kosningarnar 2007 að afgreiða nýtt auðlindaákvæði. Það held ég að hefði getað breytt ansi miklu í umræðunni og skýrt á margan hátt auðlindanýtinguna frá þeirri óvissu sem hefur verið í kringum hana allt of lengi. Ég ætla að reyna að koma aðeins betur að auðlindamálunum á eftir.

Að þessu sögðu vil ég segja að ég tel að lærdómurinn sem við ættum að draga af þeirri vinnu sem hefur verið unnin í sambandi við endurskoðun stjórnarskrárinnar fram á árið 2009 sé sá að það sé langsamlega skynsamlegast að setjast niður, reyna að ná utan um tiltölulega afmörkuð viðfangsefni, gera sér grein fyrir því í hvaða röð við viljum takast á við þau, hefjast handa í upphafi kjörtímabils, sjá síðan hversu langt mönnum miðar og reyna að koma með frumvarp að nýrri stjórnarskrá nægilega vel í tíma svo sú umræða geti tekið góðan tíma. Við sjáum það, m.a. af þeirri umræðu sem núna er, að umræða af þessu taginu þarf tíma, hún þarf að geta þroskast á tiltölulega löngum tíma.

Núna þegar við stöndum í þessum sporum, við erum komin á dálítið sérkennilegan stað, held ég að við verðum að reyna aðeins að átta okkur á því með hvaða hætti við getum farið betur í þessi mál. Í hvaða stöðu er þetta mál komið?

Það er svo sérkennilegt að fyrr á þessu þingi vorum við mjög upptekin af að ræða frumvarp til stjórnarskipunarlaga sem var heildstætt frumvarp sem náði til allra þátta stjórnarskrárinnar. Með öðrum orðum var hugmyndin að skrifa nýja stjórnarskrá.

Ég ætla að koma aðeins betur að forsögunni í þeim efnum en núna erum við hins vegar komin í algjörlega nýja stöðu. Við erum að ræða hér tvenns konar tillögur sem hafa komið fram, annars vegar tillöguna um að fleyta þessu máli með einhverjum hætti inn í nýtt þing með þingsályktunartillögu forustumanna Samfylkingarinnar, Vinstri grænna og Bjartrar framtíðar, og síðan að gera breytingu á tilteknu ákvæði núgildandi stjórnarskrár sem felur það í sér að gera okkur auðveldara að gera breytingar á stjórnarskrá í framhaldinu.

Segja má að við séum með öðrum orðum búin að játa okkur sigruð í þeim efnum, þó ekki allir reyndar, sú leið sem farin var upphaflega og hafði það greinilega að lokamarkmiði að skrifa algjörlega nýja stjórnarskrá er ófær. Það er ekki hægt að fara hana. Hún er gengin á enda. Hún er búið spil. Henni er lokið. Því miður blasti það við mjög lengi. Það er býsna langt síðan okkur varð flestum ljóst að svona væri komið. Þessi leið hefur borið í sér feigðina mjög lengi. Flestum er löngu ljóst að hún gat ekki gengið svona lengur.

Ég skil það vel og ætla sem svo sem ekki að hafa stór orð um að það tekur oft alla hlutaðeigendur dálítinn tíma að átta sig á því þegar mál er í raun og veru búið. Það er erfitt að skilja við málið, erfitt fyrir þá sem trúðu því virkilega að það væri í fyrsta lagi mjög aðkallandi að gera nýja stjórnarskrá, í öðru lagi væri mikið ákall í samfélaginu um að það væri gert og í þriðja lagi að það væri búið að leggja grunninn að því með því frumvarpi sem lagt var fram fyrr á þessu þingi, 415. mál, að það væri búið að leggja grunn að þeirri vinnu sem dygði til þess að á Alþingi yrði það samþykkt, færi síðan í þjóðaratkvæði og síðan samþykkt á nýju þingi, og þannig búið að leggja grunn að því að þetta gæti orðið niðurstaðan. Ég lít þannig á að með því frumvarpi sem við ræðum í dag hafi það álit og mat endanlega verið innsiglað að sú leið sem farin hafði verið var gengin á enda. Þá verður farið í að leita að sökudólgum.

Ég held að lærdómurinn í þessum efnum sé ekki endilega í því fólginn að reyna að finna sökudólgana. Lærdómurinn hlýtur hins vegar að vera sá að við reynum að vinna þetta mál með öðrum hætti sem ekki muni leiða okkur út í það dý sem þessi umræða er svo augljóslega komin út í. Hvernig gerum við það? Við gerum það á sama hátt og við reyndum að gera á fyrri stigum, þ.e. að mynda hina pólitísku samstöðu. Það hefur greinilega algjörlega mistekist hvað varðar þetta.

Þá segja margir: Það er hins vegar aukaatriði, það á ekkert að vera að leita eftir pólitískri samstöðu, við eigum að reyna að fara aðrar leiðir. Það var hugsunin með því að taka þetta verkefni frá Alþingi þar sem mál af þessu taginu á heima samkvæmt stjórnarskránni okkar, af því að Alþingi er stjórnarskrárgjafinn, færa þetta út fyrir veggi Alþingis og inn á nýjan vettvang sem átti að vera hinn þjóðkjörni vettvangur stjórnlagaþingsins. Nú vitum við að sú leið strandaði mjög fljótt, vegna þess að kosning til stjórnlagaþings reyndist ógild, fyrir utan það að jafnvel þeir fulltrúar sem „kosnir“ voru á þetta þing voru kosnir með býsna veiku umboði þó að sannarlega hefðu þeir fengið fleiri atkvæði en þeir sem ekki náðu því að vera í hópi þeirra 25 sem flest atkvæði fengu í þessari ólöglegu kosningu.

Umboðið var býsna þykkt. Það ríkti strax mikil tortryggni. Verkefnið tók breytingum. Það var niðurstaða eins og við munum eftir að ljóst varð að þingið hafði verið ólöglega kosið að meiri hluti Alþingis ákvað að skipa þá sem hefðu fengið flest atkvæði í ólöglegri kosningu, sem var dálítið umdeilanlegt mál, í nýtt stjórnlagaráð. Þetta stjórnlagaráð tók sér síðan völd til að afmarka verksvið sitt með þeim hætti að verkefnið væri að skrifa nýja stjórnarskrá.

Nú sáu auðvitað allir að sá tími sem stjórnlagaráðið hafði til þess að skrifa heildstæða nýja stjórnarskrá var ekki nægjanlegur. Stjórnarskrá verður ekki hrist fram úr erminni. Hún er plagg sem þarf að þroskast, sem hefur mjög gott af því að það taki dálítinn tíma. Við sjáum það meðal annars á því að þegar stjórnlagaráðið skilaði tillögum sínum fylgdu þau skilaboð frá tilteknum stjórnlagaráðsmönnum, en alls ekki öllum, að hér mætti ekki breyta stafkrók, þetta væri hið endanlega plagg. Mér er mjög minnisstæð grein sem skrifuð var af einum helsta og háværasta talsmanni þessa sjónarmiðs, þessum fulltrúa í stjórnlagaráðinu, sem sagði einfaldlega þegar málið kom svo í frumvarpsformi inn í Alþingi, eftir að hafa tekið talsverðum breytingum frá stjórnlagaráðinu, að Alþingi hefði hreinlega ekki leyfi til að fjalla efnislega um þessi mál, það yrði „vessgú“ að taka að sér sem eins konar handlangari að sjá til þess að þetta mál yrði samþykkt sem lög frá Alþingi og Alþingi væri eins og búið að missa af strætó í allri umræðunni. Hann sagði að þetta ætti líka við um alla þá sem tjáðu sig um tillögur stjórnlagaráðsins, menn hefðu bara misst af lestinni. Sú umræða hefði átt að fara fram einhvern tímann miklu fyrr og henni væri bara lokið, búið, punktur og ekki meira um það mál að segja.

En auðvitað er það ekki þannig. Núna erum við komin fram í miðjan mars og auðvitað sjá allir hversu barnalegt þetta tal var, að hægt yrði að ljúka umræðunni um stjórnarskrána með því að hún færi ekki fram, hvorki í þingsal né úti í samfélaginu, umfram það sem hún hefði gert meðan stjórnlagaráðið var að störfum. Auðvitað var öllum ljóst að svona gæti þetta ekki gengið. Það yrði auðvitað alltaf umræða um málið eðli málsins samkvæmt.

Skoðum þetta nú og veltum fyrir okkur hvað hefði gerst ef við hefðum hlítt þessu ákalli, t.d. ekki fengið sérfræðingahópinn sem undirbjó frumvarpið til stjórnarskipunarlaganna sem við ræddum hér í fyrrahaust og gerði ýmsar þarflegar ábendingar, ef við værum ekki búin að heyra frá þeim 20 sérfræðingum eða þar um bil sem gagnrýndu í stóru og smáu þetta frumvarp og tillögur stjórnlagaráðs fram og til baka, ef ekkert af slíku hefði legið fyrir okkur, ef sú umræða sem hefur farið fram í þinginu, fjölmiðlum og hvarvetna, ef ekkert af því hefði átt sér stað, sjáum við öll að við værum komin miklu skemmra á veg þrátt fyrir allt.

Öll þessi umræða hefur verið til gagns að því leytinu að hún er búin að skýra myndina að mörgu leyti. Hún er til dæmis búin að draga upp þá mynd sem við skiljum vel, að mjög mörg atriði sem eru í stjórnarskrá hafa á sér margar hliðar. Er ekki auðlindaákvæðið skýrt dæmi um það? Árið 2000 lagði til dæmis auðlindanefndin fræga fram tillögur um ákvæði sem gæti verið í stjórnarskrá og lyti sérstaklega að auðlindunum. Þá var um það full pólitísk samstaða. Allir stjórnmálaflokkarnir sem þá áttu fulltrúa á Alþingi áttu líka fulltrúa í auðlindanefndinni. Allir þeir fulltrúar skrifuðu upp á þá niðurstöðu sem þar fékkst.

Nú gerðist það fyrir fáeinum vikum að Framsóknarflokkurinn afritaði þessa tillögu frá árinu 2000, lagði hana fram og sagði sem svo: Þetta ætlum við að leggja með okkur í púkkið. Var því vel tekið? Nei, aldeilis ekki. Það var harðlega gagnrýnt. Þeim var brugðið um það að vera vörslumenn sérhagsmuna og ganga erinda einhverra annarlegra hagsmuna.

Við sjáum í þessu dæmi að það er að gríðarlega mörgu að hyggja. Þetta er mjög vandasamt verkefni.

Ég sat á sínum tíma í endurskoðunarnefnd um stjórn fiskveiða sem skilaði áliti í september 2010. Ég var þar í undirhópi sem fjallaði einmitt um auðlindaákvæði sem setja mætti í stjórnarskrá. Við sem þar sátum vorum ekkert þjakaðir af minnimáttarkennd en engu að síður treystum við okkur ekki til þess, enda sennilega enginn okkar löglærður, eftir að hafa farið yfir þessi mál með sérfræðingum, að setja niður á blað brúklegan texta sem við teldum að væri sá eini rétti í þessum efnum. Við gerðum okkur grein fyrir því að þetta mál væri miklu flóknara en svo og við yrðum þess vegna að vísa þessu máli inn í það ferli sem þá var hafið við stjórnarskrárundirbúninginn en sendum með sem veganesti niðurstöðuna frá árinu 2000 sem við töldum að væri góður grundvöllur að nýju stjórnarskrárákvæði.

Ég held að ýmislegt sem við höfum verið að ræða í þessari stjórnarskrárumræðu, m.a. í Alþingi, hafi varpað miklu skýrara ljósi á meðal annars þau álitamál sem uppi eru. Við erum búin að ydda þessi mál. Við erum búin að takast á um þessi mál hér efnislega. Við höfum verið að ræða hluti sem voru í upphaflegu stjórnarskrárfrumvarpi og í breytingartillögum sem komu inn í þingið frá meiri hluta hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Við höfum tekist á um þessi mál. Okkur er margt miklu ljósara.

Ég tek annað dæmi sem ég hef áður aðeins rætt, það ákvæði sem snýr að skipulagi vinnumarkaðarins á landinu. Niðurstaðan í þeim efnum var þannig að allir þeir sem voru sérfræðingar á þessu sviði eða unnu á því, t.d. talsmenn verkalýðshreyfingarinnar og talsmenn atvinnulífsins, voru þeirrar skoðunar að sú niðurstaða sem hefði fengist mundi kollvarpa vinnumarkaðnum ef hún yrði sett í lög og stjórnarskrána. Menn börðust fyrir því fyrirkomulagi á fyrri hluta 20. aldar, um samningsrétt verkalýðsfélaganna til að skapa samstöðu verkafólks og launþega gagnvart atvinnulífinu, fyrirkomulag sem margir stjórnmálaflokkar stærðu sig síðan af að hafa átt mikinn þátt í að móta hérna, og voru ekki síst á vinstri væng stjórnmálanna, sérfræðingarnir frá Alþýðusambandi Íslands og Samtökum atvinnulífsins, launþegahreyfingunni sem sagt og atvinnulífinu, og þeir voru þeirrar skoðunar að það ákvæði sem var komið inn í breytingartillögur meiri hlutans mundi kollvarpa þessu skipulagi. Ætli það hafi vakað fyrir nokkrum? Var hugmyndin sú að breyta vinnumarkaðnum okkar, gera hann amerískari, búa til bandarískt fyrirkomulag í vinnumarkaðsmálum?

Ég ætla að fullyrða eitt. Ég held að það hafi ekki vakað fyrir nokkrum einasta manni. Ég trúi því ekki. Ég hef aldrei heyrt neinn talsmann þess í alvöru að hverfa frá því norræna módeli sem við höfum tileinkað okkur og verið stolt af í rauninni, flest hver, og taka upp eitthvert allt annað fyrirkomulag sem mundi til dæmis veikja verkalýðshreyfinguna. Ég held að enginn hafi verið talsmaður þess.

Þegar maður les greinargerðir og heyrir orðaskipti til dæmis mín og ýmissa hv. þingmanna meiri hlutans gat ég ekki heyrt að þetta vekti fyrir nokkrum manni. En textinn var hins vegar með þeim hætti að það blasti við að á hann yrði látið reyna af einhverjum sem teldi að það væri verið að brjóta á sér rétt vegna þess að það fyrirkomulag sem stjórnarskráin átti þá að mæla fyrir um hlyti að leiða til þess að það að skipa mönnum í verkalýðsfélög stæðist ekki stjórnarskrá.

Við sjáum af þessu að bara sú vinna sem unnin hefur verið í ýmsum álitamálum hefur yddað málið, eins og ég sagði áðan, gert okkur miklu betur ljóst hvar álitaefnin liggja í raun, hvað það er sem við þurfum að takast á við og skoða áfram. Alveg sama hvernig allt velkist í þessum efnum er okkur öllum ljóst að stjórnarskrármálið er ekkert farið frá okkur. Verði niðurstaðan sú að hvorki hið nýja frumvarp forustumanna stjórnarflokkanna og Bjartrar framtíðar né heildstæða frumvarpið verði lögfest blasir við öllum að málið er á dagskrá, það er ekkert horfið frá okkur, við erum ekkert hætt. Það er búið að ræða málið þannig til hlítar að það mun auðvitað halda áfram á nýju kjörtímabili í einhverjum búningi.

Þá tel ég að það skipti mjög miklu máli með hvaða hætti menn ætla sér að halda áfram í þessum efnum. Það er til dæmis ljóst að allt tal um að þessi vinna eigi að grundvallast á tillögum stjórnlagaráðsins mun ekki leiða til sátta eða samkomulags. Það er alveg orðið fullreynt. Þetta ferli í haust og vetur hefur einmitt endanlega sýnt okkur það. Sú tilraun til þess að búa til breiða sátt í samfélaginu um tilteknar tillögur um breytingu á stjórnarskrá rann út í sandinn, hún skilaði ekki árangri. Hún varð ekki sá þjóðfélagslegi sáttmáli sem menn höfðu vonast til að þessi aðferðafræði legði grunninn að.

Auðvitað er stjórnarskrá í eðli sínu einhvers konar þjóðfélagslegur sáttmáli. Þegar við reynum að búa til þjóðfélagslega sáttmála hlýtur grundvallaratriðið að vera víðtæk samstaða, samkomulag, sátt, kannski ekki allra, við gerum okkur grein fyrir því, það verða kannski ekki allir sáttir um allt, en þá er viðfangsefnið líka að afmarka við tiltekna málaflokka það sem við ætlum að fjalla um, málaflokka sem við teljum brýnni en aðra til að gera breytingar á til þess einmitt að búa til meiri réttindi fyrir borgarana umfram það sem við teljum að sé í núgildandi stjórnarskrá.

Ég held persónulega að ekki sé af mjög mörgu að taka. Það er búið að taka utan um þessa endurskoðun hvað mannréttindaákvæðin áhrærði. Þá var verið að endurspegla meðal annars þá þróun sem hafði orðið í þessum efnum í nágrannalöndum okkar og í þeim alþjóðastofnunum sem við eigum aðild að.

En það eru önnur atriði sem menn hafa velt hér upp og við höfum oft rætt, eins og þetta auðlindaákvæði. Við höfum núna úr miklu að moða í þessum efnum. Það er hins vegar alveg jafnljóst að tillögur þær sem stjórnlagaráðið lagði til voru mjög gallaðar. Það sáum við líka strax í frumvarpinu sjálfu sem var breyting frá tillögum stjórnlagaráðsins. Við sáum það líka í breytingartillögum meiri hluta hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, þar var gert ráð fyrir verulegum breytingum bæði frá frumvarpinu og eins tillögum stjórnlagaráðsins. Í tillögum stjórnlagaráðsins var hugmynd um að úthlutun réttinda til nýtingar á auðlindum væri háð því að í staðinn kæmi eitthvað sem kallaðist fullt gjald. Enginn lætur sér detta í hug neitt í þá veruna lengur. Öllum er orðið ljóst að slíkt mundi hafa í för með sér afleiðingar sem bæði væru fyrirséðar neikvæðar og einnig ófyrirséðar sem enginn gæti sagt fyrir um. Það mál getum við sagt að hafi verið afgreitt út af borðinu í þessari umræðu. Við eigum hins vegar býsna langt í land, mér heyrist að viðbrögðin við hugmyndum um að nýta tillögur auðlindanefndarinnar sem full samstaða var um fyrir bara einum áratug séu þau að það séu algjörlega óbrúklegar tillögur og gangi ekki lengur.

Kjarni málsins í þessari umræðu er sá að við getum ekki samþykkt stjórnarskrá með þeim hætti að við neytum aflsmunar, að við reynum að láta þetta ganga þannig fram að sá sem hefur flest atkvæðin, þótt það sé bara einu atkvæðinu meira á Alþingi, muni endanlega fá allt sitt fram. Þannig búum við ekki til stjórnarskrá. Þannig dytti engu ríki í hug að búa til stjórnarskrá. Stjórnarskrá sem væri þannig knúin fram væri stöðug uppspretta frekari ágreinings. Þannig viljum við ekki hafa okkar stjórnarskrá, að hún sé uppspretta ágreinings, búi til þrátefli o.s.frv.

Við verðum þess vegna að hafa eitt að leiðarljósi, það að við reynum að búa til góða samstöðu. Við skulum leggja fram nýtt frumvarp til stjórnarskipunarlaga það snemma á næsta kjörtímabili að það sé að minnsta kosti tryggt að það geti fengið vandaða umræðu því að öll stjórnarskipunarfrumvörp eiga að þola það að fá langa umræðu og (Forseti hringir.) þannig frumvörp batna með slíkri umræðu og með því að þau fái langan umþóttunartíma og langan umhugsunarfrest í þinginu hverju sinni.