141. löggjafarþing — 109. fundur,  22. mars 2013.

störf þingsins.

[10:53]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Fyrr í þessari umræðu var drepið á áhugavert mál sem er raunar á dagskrá síðar í dag, hv. þm. Mörður Árnason vísaði í frumvörpin um sérstakar ívilnanir vegna stóriðju í landi Bakka við Húsavík. Miðað við sjónarmið sem hafa komið fram frá öðrum hv. þingmönnum held ég að það væri brýnt að fá þetta mál á dagskrá, taka málið til umræðu, taka frumvörp hæstvirts atvinnuvegaráðherra um Bakka og ívilnanir vegna stóriðju til umræðu til að fá fram þingviljann í þeim efnum.

Ég held að jafnframt væri mikilvægt að ræða fréttir sem hafa komið fram hér að undanförnu um einhverja vinnu sem á sér stað í fjármálaráðuneytinu en hefur ekki komið inn í þingið, um ívilnanir út af Helguvík. Hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson hefur boðað það í Víkurfréttum að þar sé allt á fullu og allt að gerast og hæstv. fjármálaráðherra ýjar að því að svo sé. Hæstv. menntamálaráðherra, formaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, kannast að því er virðist ekki mikið við málið. Það er mikilvægt að við fáum þetta fram þannig að kjósendur bæði fyrir norðan og á Suðurnesjum geti áttað sig á því hvað raunverulega er að gerast í þessum málum. Hver er stefna ríkisstjórnarflokkanna? Er hún ein? Er hún fjölbreyttari eins og ráða mátti af umræðum áðan? Hvað ætla menn sér í þessum efnum? Er ætlunin varðandi Helguvík til dæmis að koma með eitthvað inn í þingið fyrir þinglok í vor eins og hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson hefur gefið í skyn, 1. þm. Suðurk.? Er það ætlunin? Það skiptir töluvert miklu máli fyrir okkur að vita það.

Það skiptir líka máli þegar horft er til þess hvernig á að haga afgreiðslu mála varðandi Bakka. Ég tek fram að ég er í þeim hópi sem styður uppbyggingu á (Forseti hringir.) báðum þessum stöðum en ég vil endilega fá það fram hver þingviljinn er í þeim efnum.