141. löggjafarþing — 109. fundur,  22. mars 2013.

grundvallarskilgreiningar löggæslu á Íslandi og gerð löggæsluáætlunar.

687. mál
[14:15]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Það er óhætt að fullyrða að þá sjaldan íslensk stjórnmál skríða upp úr skotgröfunum er afraksturinn góður. Það er gæfa þessa málaflokks að ekki er deilt um hann með flokkspólitískum hætti heldur er ágæt samstaða um að efla löggæsluna á öllum stigum þótt að sjálfsögðu sé skoðanamunur á því hvert á að fara í einstökum atriðum o.s.frv.

Vinnan ber öll þau merki. Þetta er upphaflega þingsályktunartillaga frá hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni sem hann lagði fram í upphafi kjörtímabils og var samþykkt með miklum stuðningi út úr allsherjar- og menntamálanefnd á sínum tíma. Þeirri vinnu vatt síðan fram eins og raun ber vitni og er rætt um í dag. Niðurstaðan er mjög góð og hún er leiðarljós til framtíðar. Umræðan í dag, viðbrögðin við henni og skýrslan sjálf munu alveg örugglega vísa veginn og marka hvernig verður haldið á þeim málum hér eftir kosningar.

Það er margt sem kemur fram sem skiptir miklu máli að draga fram. Efling löggæslunnar á landsbyggðinni skiptir miklu máli. Miklar fjarlægðir, náttúruvá, þungir ferðamannastaðir, við því öllu saman þarf að bregðast og það er allt tekið fram í skýrslunni. Lögreglan nýtur mikils trausts og virðingar eins og við sjáum í öllum mælingum og það er okkar að byggja undir þá stöðu og efla hana eins og okkur er kostur búinn.

Eitt sem ég vildi sérstaklega gera að umræðuefni er menntun lögreglumanna. Ég fagna því mjög hversu vel er tekið utan um það í skýrslunni. Það er mjög málefnalegt og gott innlegg. Menntun lögreglumanna er eins og segir hérna lykilþáttur í bættri löggæslu. Landssamband lögreglumanna hefur ályktað að Lögregluskólinn eigi að færast á háskólastig og mjög brýnt sé að efla og styrkja starfsemi skólans. Ég tek mjög eindregið undir þetta og fagna því hversu fast skýrslan tekur utan um það.

Það þarf að leggja áherslu á þjálfun og menntun almennra lögreglumanna með hliðsjón af verkefnum lögreglu og búnaði þeim til handa, eins og segir í niðurlagi þess kafla í skýrslunni, og leggja sérstaka áherslu á bæði grunnmenntun og símenntun þannig að lögreglumenn geti viðhaldið þekkingu sinni og hæfni til að takast á við síbreytileg verkefni lögreglunnar af því að þau taka auðvitað breytingum.

Hæstv. innanríkisráðherra nefndi áðan þegar allsherjarnefnd og innanríkisráðuneytið áttu alveg sérstaklega gott samstarf fyrir ári síðan um að framlengja verkefnið og fjármunina til átaksins gegn skipulagðri glæpastarfsemi þar sem var búið að sýna mjög eindregið fram á að það skipti sköpum í baráttunni að hægt væri að hafa lögreglumenn í þeirri vinnu sérstaklega í stað þess að þeir færu í hana og úr á milli verkefna. Sérhæfingin eykst alveg örugglega og þess vegna skiptir menntunin og ramminn utan um menntun lögreglumanna gríðarlega miklu máli. Það þarf að lengja grunnnámið á ný, endurskoða námið með það að markmiðið að það verði sambærilegt samkvæmt því sem er rakið í skýrslunni og auka sérhæfða menntun á sérfræði svo sem varðandi rannsóknir mála.

Það skín í gegn í þeirri vinnu að hér vinna saman lögreglumenn, ráðuneyti, þingnefndin sem hefur með þetta að gera og fulltrúar þingflokkanna þannig að afraksturinn verður enn þá fyllri, umræðan enn þá dýpri og árangurinn fyrir vikið betri og mun hafa meiri áhrif. Þegar í lokin eru lesin saman stefna og markmið eru þau auðvitað eins og ráðherra hæstv. nefndi bundin því að Alþingi ákveði á næstu missirum og árum að setja verulega aukna fjármuni í málaflokkinn, en það er ekki hægt að greina nein önnur viðhorf í þinginu en að það standi til. Það verði forgangsraðað í þágu löggæslunnar og eflingu hennar og öllu því sem kemur fram hér.

Ég vildi eyða mínum tíma sérstaklega í þau atriði, menntunarmálin og styrkingu löggæslunnar úti á landi út af þeim atriðum sem ég nefndi. Ég fagna því að við höfum getað átt þá umræðu áður en þingi lýkur og gengið er til kosninga.