141. löggjafarþing — 110. fundur,  25. mars 2013.

röð mála á dagskrá.

[13:37]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Fyrstu málin á dagskrá eru eftir mínum skilningi mál sem samkomulag var um. Það mál sem hv. þm. Álfheiður Ingadóttir nefnir hér var afgreitt að mér skilst — ég á ekki sæti í nefndinni en mér skilst að það hafi verið afgreitt í sátt úr nefndinni.

Síðan kemur tillaga frá hv. þm. Álfheiði Ingadóttur eins og laumufarþegi með og það gerir að verkum að málið þarf að fá meiri athugun áður en komist verður að niðurstöðu um það. Þess vegna er ekki óeðlilegt að það sé tekið út úr þeim hópi mála sem á að afgreiða hér umræðulítið og í góðri sátt og menn taki sér aðeins tíma til að velta fyrir sér hvaða afleiðingar þessi tillaga hv. þingmanns hefur, hvort hér er um að ræða, eins og marga grunar, nýtt efnisatriði í málið sem þarf þá að fara sérstaklega yfir. Ég hygg að hér sé um að ræða atriði sem var hafnað í þinginu fyrir einu eða tveimur árum.