141. löggjafarþing — 111. fundur,  26. mars 2013.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 229/2012 um breytingu á XIX. viðauka við EES-samninginn.

566. mál
[22:07]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Árni Þór Sigurðsson) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti um tillögu til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 229/2012 um breytingu á XIX. viðauka við EES-samninginn, sem fjallar um neytendavernd.

Með þessari tillögu er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 229/2012, frá 7. desember 2012, um breytingu á XIX. viðauka við EES-samninginn og til að fella inn í samninginn tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 2011/90/ESB um breytingu á II. hluta I. viðauka við tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2008/48/EB þar sem settar eru fram viðbótarforsendur fyrir útreikningi á árlegri hlutfallstölu kostnaðar.

Tilskipunin kveður á um viðbótarforsendur sem miða skal útreikning á árlegri hlutfallstölu kostnaðar við, vegna lánssamninga fyrir neytendur, með það að markmiði að tryggja samræmdan útreikning á árlegri hlutfallstölu kostnaðar.

Innleiðing framangreindrar gerðar kallar á lagabreytingar hér á landi og hefur atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra lagt fram frumvarp til nýrra heildarlaga um neytendalán sem er ætlað að innleiða tilskipun 2008/48/EB en ákvæði tilskipunar 2011/90/ESB horfa til breytingar á II. hluta I. viðauka fyrrnefndrar tilskipunar.

Hvorki er gert ráð fyrir að innleiðing þessarar tilskipunar hafi í för með sér umtalsverðar fjárhagslegar né stjórnsýslulegar afleiðingar.

Það er tillaga utanríkismálanefnda að þessi þingsályktunartillaga verði samþykkt.

Undir nefndarálitið rita Árni Þór Sigurðsson, formaður og framsögumaður, Helgi Hjörvar, Gunnar Bragi Sveinsson, Ragnheiður E. Árnadóttir og Ólafur Þór Gunnarsson.