141. löggjafarþing — 112. fundur,  27. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[15:15]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Forseti. Við ræðum ýmis mál tengd nýrri stjórnarskrá. Hér eru allmörg mál undir þessu, breytingartillögur, nefndarálit o.s.frv., en ef til vill er rétt að byrja á nýjasta útspili þeirra hraksmánarlegu tilrauna formanna Samfylkingar, Vinstri grænna og Bjartrar framtíðar til að stöðva framgang stjórnarskrárinnar. Nýjasta tillagan í þá veru hljóðar á þann veg að til þess að breyta stjórnarskrá þurfi Alþingi fyrst að vera hliðhollt slíkum breytingum með 2/3 hlutum greiddra atkvæða þingmanna sem er mjög hár þröskuldur og mun að öllum líkindum gera það að verkum að Alþingi fer aldrei út í breytingar á stjórnarskrá nema þá einhverjar léttvægar, tæknilegar breytingar sem jábræðralag fjórflokksins er sammála um.

Það er engin björt framtíð í því, það er svört framtíð í því, og mér er óskiljanlegt hvers vegna þessu nýja framboði með hv. þingmönnum Guðmundi Steingrímssyni og Róberti Marshall dettur í hug að þetta sé leiðin til að laga málið. Mér er líka óskiljanlegt að það fólk sem hefur flykkst að þessu framboði skuli vera samþykkt þessum breytingum. Að auki er lagt til í þessari breytingartillögu að 40% kosningarbærra manna á landinu þurfi að staðfesta breytingu á stjórnarskrá. Það er hlutfall sem þekkist hvergi á byggðu bóli að mínu viti nema það hefur verið nefnt að það þekkist í Danmörku og þar hefur það valdið gríðarlega miklum vandræðum vegna þess að þeim hefur ekki tekist að uppfæra og breyta sinni stjórnarskrá.

Það var lengi kallað eftir því af hálfu stjórnarandstöðu í þinginu að vanda vel til verka við stjórnarskrárbreytingar. Það var vandað vel til verka við frumvarp stjórnlagaráðs og það er búið að ljúka þeirri vinnu þó að sumir hafi haft uppi þau orð að það þyrfti að skoða málið betur. Þar á meðal er flutningsmaður þessarar breytingartillögu, hv. þm. Guðmundur Steingrímsson, sem virðist nú hafa frekar takmarkaðan skilning á þeirri vinnu sem fram hefur farið en hefur þó ekki verið annað en staðfastur í þeirri viðleitni sinni að láta ræða málið betur. Hér er verið að setja inn 40% samþykkishlutfall og hann skrifar upp á það en það hefur ekki neitt verið rætt. Engir sérfræðingar hafa mælt með því. Það er algerlega dregið upp úr hatti til þess að þóknast Sjálfstæðisflokknum til að hægt sé að ljúka þinginu, þingi sem átti að ljúka fyrir allnokkru. Vegna þeirra tímamarka var ætíð sagt að ekki væri tími til að ljúka stjórnarskránni en það er orðið aukaatriði í dag.

Þessi breytingartillaga gerir það að verkum, forseti, að breytingar á íslensku stjórnarskránni munu ekki ná í gegn. Við munum hugsanlega sitja uppi með sama vandamál og til dæmis Bandaríki Norður-Ameríku sem eru með 230 ára gamla stjórnarskrá sem þeir ná ekki að breyta og sem hefur meðal annars gert það að verkum að milljónir Bandaríkjamanna hafa látið lífið vegna brjálaðra byssumanna. Byssuákvæði stjórnarskrárinnar virðast tryggja það að hver einasti maður megi bera skotvopn og þessu ná þeir ekki að breyta. Svona geta erfiðleikar við breytingu á stjórnarskrám valdið hörmungum og þessi breytingartillaga hér er ekkert annað en ógeðsleg hrossakaup sem formenn þingflokka taka þátt í. Þetta er ólýðræðislegt. Þeir hafa ekki umboð til þess. Þjóðin er búin að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu um þessa stjórnarskrá og skila af sér áliti en í hrossakaupum íslenskra stjórnmála virðist allt vera leyfilegt. Það er enginn siðferðisþröskuldur í þeim málum.

Það sem er kannski verra er að þessi breyting er að undirlagi hv. þingmanna Guðmundar Steingrímssonar og Róberts Marshalls sem hafa gefið sig út fyrir að standa fyrir einhvers konar nýrri og bjartari framtíð í íslenskum stjórnmálum en hafa leynt og ljóst bak við tjöldin vikum og mánuðum saman grafið undan stjórnarskrárferlinu á Alþingi með því að tala það niður, draga það í efa, með því að annaðhvort þykjast ekki vita hvað er í gangi eða hreinlega vita það ekki vegna þess að þeir hafa einfaldlega ekki kynnt sér málið. Það eru dapurleg endalok fyrir hvaða þingmál sem er að enda svona eins og stjórnarskrármálið endar hér í dag, en það er enn dapurlegra vegna þess að hér er um að ræða stjórnarskrá sem er búin að fara í gegnum mjög vandað ferli, einstakt ferli á heimsmælikvarða, og sem hefur hlotið samþykki yfirgnæfandi meiri hluta þjóðarinnar en sem fáir þingmenn á Alþingi Íslendinga hafa komið að og eru að koma í veg fyrir að verði að veruleika.

Ég veit ekki hvað skal segja um þjóðþing sem hegðar sér svona annað en það að það er að veifa löngutöng sinni framan í almenning í landinu. Það er ömurlegt að horfa upp á þá fyrirlitningu sem fyrirbærinu þjóðaratkvæðagreiðslu er sýnd og því fólki sem tók þátt í henni, því fólki sem tók þátt í vali á stjórnlagaþing á sínum tíma, því fólki sem tók þátt í þjóðfundinum á sínum tíma, þeim skattgreiðendum sem hafa lagt fram fé í þetta ferli. Öllu þessu fólki er sýnd lítilsvirðing, allt til þess að þjóna sérhagsmunum og einhverjum hagsmunum sem ég átta mig sjálfur ekki á hverjir eru en virðast vera sérstakir hagsmunir formanns Samfylkingarinnar og formanns Sjálfstæðisflokksins.

Hér labbaði fram hjá hæstv. innanríkisráðherra. Hann er í hópi þeirra sem styðja það að nýrri stjórnarskrá verði slátrað hér. Öðruvísi mér áður brá, ekki með hann frekar en aðra. Lýðræðishjal þessara manna í gegnum árin og áratugina kemur í ljós hér í dag að er ekki annað en orðin tóm.

Þessi breytingartillaga mun útiloka breytingar á stjórnarskránni á næsta kjörtímabili og það þýðir ekki að koma hér fram eins og hv. formaður Samfylkingarinnar gerði áðan, hann sagði að hún væri lögð fram til þess að hægt væri að breyta stjórnarskránni án þess að efna til þingkosninga. Svo sagði hann í næstu setningu á eftir að þessi samþykkisþröskuldur væri það hár að sennilega yrði aldrei hægt að breyta henni nema samhliða alþingiskosningum. Það stendur ekki steinn yfir steini í málflutningi hrossakaupmannanna í þessu máli og það er sorglegt að sjá hvernig samflokksmenn þessa fólks taka undir og styðja svona málflutning.

Þessi breytingartillaga er við frumvarp sem var lagt fram af hv. þingmönnum Árna Páli Árnasyni, Katrínu Jakobsdóttur og Guðmundi Steingrímssyni í síðustu viku þar sem fyrst var gert ráð fyrir 3/5 hlutum þingmanna til að styðja breytingu á stjórnarskrá og 3/5 hlutum greiddra atkvæða í þjóðaratkvæðagreiðslu. Slíkt fyrirkomulag hefði getað greitt fyrir breytingum á stjórnarskrá ef það hefði farið í gegn en nú er búið að eyðileggja þá hugmynd algjörlega með þessari breytingartillögu, þ.e. ef hún verður samþykkt. Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd fékk það mál til meðferðar og í meðferð nefndarinnar var lagt til að í stað 3/5 hluta greiddra atkvæða í þjóðaratkvæðagreiðslu kæmi 25% samþykkishlutfall.

Helstu sérfræðingar heims í þjóðaratkvæðagreiðslum, Daniel Schily og Bruno Kaufmann, lögðu til að þetta samþykkishlutfall yrði 20% en mætti aldrei fara upp fyrir 25% vegna þess að þá væri fyrirbærið þjóðaratkvæðagreiðsla orðin tóm og gagnslaus. Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd lagði því til breytingartillögu og í nefndaráliti kemur fram að hún telur 25% samþykkishlutfall hæfilegt. Hún leggur að vísu líka til að 2/3 hluta greiddra atkvæða á þingi þurfi til sem ég átta mig ekki á hvers vegna er, en það gerir verkið enn torveldara. Vegferðin á þessu máli er öll hin dapurlegasta.

Samhliða frumvarpi formanna Samfylkingar, Vinstri grænna og Bjartrar framtíðar var líka lögð fram þingsályktunartillaga, tárvotum augum tillagan eins og hún hefur verið kölluð, um að þjóðin muni haldast í hendur eins og dýrin í Hálsaskógi á Þingvöllum þann 17. júní árið 2014 og samþykkja nýja stjórnarskrá í þjóðaratkvæðagreiðslu og að fimm manna nefnd eigi að vinna málið fram að þeim tíma. Þeir hafa aldrei nokkurn tíma getað rökstutt hvers vegna það á að vera meiri sátt um stjórnarskrárbreytingar 28. apríl en 26. apríl, enda var ekki tilgangur þeirra að gera breytingar á stjórnarskrá auðveldari. Tilgangur þeirra var einfaldlega sá að gera stjórnarskrárbreytingar óraunhæfar og ómögulegar og það sem er að baki því er einfaldlega valdastétt í stjórnmálum á Íslandi og valdastétt í íslensku samfélagi sem finnst þetta ágætisfyrirkomulag. Þeir geta haft sína hentisemi með stjórnmálin, það verður ekkert persónukjör, það verður ekkert beint lýðræði, það verður ekkert jafnt vægi atkvæða. Það hentar stjórnmálastéttinni ágætlega, það hentar valdastéttinni ágætlega að geta úthlutað völdum og auðæfum eftir sínu höfði.

Vegna þessa hrundi siðferðisstig þjóðarinnar, samfélagsins, stjórnmálanna og efnahagslífsins haustið 2008. Þetta fyrirkomulag var einfaldlega gjörspillt og spillingin náði djúpt inn í stjórnmálin á Íslandi líka. Vonir manna um að hægt yrði að bæta úr því og breyta þessu í kjölfar hrunsins voru miklar og það var lögð mikil vinna í að koma fram með nýja stjórnarskrá sem mundi takmarka möguleika stjórnvalda til að endurtaka leikinn. Engu að síður eru þessir hv. þingmenn Árni Páll Árnason, Katrín Jakobsdóttir, Guðmundur Steingrímsson og Róbert Marshall búin að leggja það rækilega stein í götu þeirra umbóta að ekki verður aftur snúið.

Frú forseti. Ég veit ekki hvað verður um íslenska lýðveldið í kjölfarið en framtíðin þar er ekki björt. Hún er svört, m.a. vegna þess að menn sjást ekki fyrir í því sem þeir eru að gera. Þeir vita ekki hvað þeir eru að gera, þeim er alveg sama eða þeir eru einfaldlega að gæta einhverra annarra hagsmuna. Hluti af því sem við ræðum hér í dag er breytingartillaga við þetta frumvarp þessara þriggja títtnefndu þingmanna, breytingartillaga frá Margréti Tryggvadóttur sem gerir ráð fyrir því að nýja stjórnarskráin, eins og hún lá fyrir eftir meðferð stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, verði einfaldlega tekin til afgreiðslu í þingsal. Sú breytingartillaga gefur þá þingmönnum tækifæri til að tjá hug sinn í atkvæðagreiðslu um það mál. Það er af hinu góða. Það verður fróðlegt að sjá hverjir greiða atkvæði með og á móti einstökum tillögum í breytingartillögunni. Þetta er það mál sem þingið hefur verið að vinna að í tvö ár og sem það útvistaði á sínum tíma til þjóðarinnar með miklum glæsibrag sem hefur vakið heimsathygli en sem þinginu sjálfu virðist ekki ætla að takast að ljúka.

Frú forseti. Það verður athyglisvert að sjá hvaða þingmenn munu hafna því að aðfaraorð stjórnarskrár Íslendinga í þessari breytingartillögu, sem er í rauninni fylgiskjal 1 við framhaldsnefndarálit stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, verði aðfaraorð að nýrri stjórnarskrá. Þau hljóða svo, með leyfi forseta:

„Við sem byggjum Ísland viljum skapa réttlátt samfélag þar sem allir sitja við sama borð. Ólíkur uppruni okkar auðgar heildina og saman berum við ábyrgð á arfi kynslóðanna, landi og sögu, náttúru, tungu og menningu.

Ísland er frjálst og fullvalda ríki. Hornsteinar þess eru virðing fyrir lögum, frelsi, jafnrétti, lýðræði og mannréttindi.

Stjórnvöld skulu vinna að velferð íbúa landsins, efla menningu þeirra og virða margbreytileika mannlífs, lands og lífríkis.

Við viljum efla friðsæld, öryggi, heill og hamingju á meðal okkar og komandi kynslóða. Við einsetjum okkur að vinna með öðrum þjóðum að friði og virðingu fyrir jörðinni og öllu mannkyni.

Í þessu ljósi setjum við okkur nýja stjórnarskrá, æðstu lög landsins, sem öllum ber að virða.“

Frú forseti. Þetta kemur sennilega til atkvæðagreiðslu síðar í dag. Er það vel og verður athyglisvert að sjá og hlusta á atkvæðaskýringar þeirra sem vilja ekki hafa þetta sem aðfaraorð að íslenskri stjórnarskrá. Í þessari breytingartillögu hv. þm. Margrétar Tryggvadóttur eru fjölmörg önnur atriði. Frumvarpið sjálft er 115 eða 116 greinar, ef ég man rétt, og þar skiptir ekki síst gríðarlega miklu máli nýr mannréttindakafli sem tryggir að á Íslandi verði nútímamannréttindi, ekki mannréttindi sem Sjálfstæðisflokkurinn heimtar heldur mannréttindi sem þjóðin öll hefur samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu að verði sín mannréttindi. Mannréttindakafli stjórnarskrárinnar er glæsilegur, II. kaflinn. Það verða greidd atkvæði um greinar í þessum mannréttindakafla og það verður athyglisvert að sjá hverjir munu hafna því að þetta verði hin nýju mannréttindi Íslendinga þrátt fyrir að þjóðin sé búin að krefjast þeirra.

Hér er líka nýr kafli sem heitir Samfélag og náttúra þar sem á nýstárlegan hátt er tekið inn það sem er að gerast úti um allan heim, svokölluð þriðju kynslóðar mannréttindi, þar sem fjallað er um íslenska tungu, kirkjuskipun, herskyldu, menningar- og náttúruverðmæti, náttúru Íslands og nýtingu náttúrugæða og náttúruauðlindir.

Það er líka fjallað um upplýsingar um umhverfi og meginreglur umhverfisréttar sem og dýravernd. Þetta eru allt saman ákvæði sem hefðu skipað Íslandi í fremstu röð heimsins hvað varðar nútímalega vel útfærða stjórnarskrá þar sem mannfólkið, almenningur í landinu, er í fyrirrúmi en ekki sérhagsmunir, óheilindi eða annað þess háttar.

Við þessum greinum mun hugsanlega meiri hluti þingmanna segja nei einhvern tímann síðar í dag. Þingmenn munu segja nei og hafna þessum greinum. Sumir þeirra munu gera grein fyrir atkvæði sínu. Sumir þeirra munu setja á þau „spinn“ eins og reynt hefur verið að gera við stuðning okkar þingmanna Hreyfingarinnar við frumvarp hv. þm. Péturs Blöndals um breytingar á stjórnarskránni. Það var alla tíð deginum ljósara í mínum huga að stuðningur minn við það frumvarp var eingöngu við fyrri málslið greinarinnar en ekki þann síðari sem kveður á um helming kosningarbærra manna. Nú notar þetta til dæmis formaður Samfylkingarinnar sem hefur lagst lægra í ræðustól í þessu máli en ég hef nokkurn tímann séð áður til að sannfæra sjálfan sig um hvað þingmenn Hreyfingarinnar hafi verið tilbúnir að gera. Umkenningaleikurinn heldur áfram.

Í þessum III. kafla um samfélag og náttúru er meðal annars grein um náttúruauðlindir, 35. gr. Þar segir, með leyfi forseta:

„Auðlindir í náttúru Íslands sem ekki eru háðar einkaeignarrétti eru sameiginleg og ævarandi eign þjóðarinnar. Enginn getur fengið þær eða réttindi tengd þeim til eignar eða varanlegra afnota og aldrei má selja þær eða veðsetja. Handhafar löggjafar- og framkvæmdarvalds fara með forsjá, vörslu og ráðstöfunarrétt auðlindanna og réttindanna í umboði þjóðarinnar.

Óheimilt er að framselja beint eða óbeint með varanlegum hætti til annarra aðila réttindi yfir jarðhita, vatni með virkjanlegu afli og grunnvatni, sem og námaréttindi, í eigu ríkisins eða félaga sem alfarið eru í eigu þess. Sama gildir um réttindi yfir vatni, jarðhita og jarðefnum á ríkisjörðum umfram lágmarksréttindi vegna heimilis- og búsþarfa.

Til þjóðareignar samkvæmt 1. mgr. teljast nytjastofnar og aðrar auðlindir hafsins innan íslenskrar lögsögu, auðlindir á, í eða undir hafsbotninum utan netlaga svo langt sem fullveldisréttur ríkisins nær, vatn, þó að gættum lögbundnum réttindum annarra til hagnýtingar og ráðstöfunar þess, og auðlindir og náttúrugæði í þjóðlendum. Löggjafinn getur ákveðið að lýsa fleiri auðlindir og náttúrugæði þjóðareign, enda séu þau ekki háð einkaeignarrétti. Í eignarlöndum takmarkast réttur eigenda til auðlinda undir yfirborði jarðar við venjulega hagnýtingu fasteignar. Með lögum má kveða á um þjóðareign á auðlindum undir tiltekinni dýpt frá yfirborði jarðar.

Við nýtingu auðlindanna skal hafa sjálfbæra þróun og almannahag að leiðarljósi.

Stjórnvöld bera, ásamt þeim sem nýta auðlindirnar, ábyrgð á vernd þeirra. Stjórnvöld geta á grundvelli laga veitt leyfi til afnota eða hagnýtingar auðlinda, sem og annarra takmarkaðra almannagæða, gegn fullu gjaldi og til tiltekins hóflegs tíma í senn. Slík leyfi skal veita á jafnræðisgrundvelli og þau leiða aldrei til eignar eða óafturkallanlegs forræðis.“

Frú forseti. Síðar í dag munu þingmenn sem kenna sig við bjarta framtíð, eins mikið og það hljómar sem öfugmæli, sem og þingmenn Samfylkingarinnar og Vinstri hreyfingarinnar hafna þessari grein í atkvæðagreiðslu. Það er athyglisvert, ekki síst vegna þess að í næstsíðasta málslið síðustu málsgreinar er talað um veitingu leyfa til afnota gegn eðlilegu gjaldi. Þessu var breytt í meðförum stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Í tillögunum sem fóru í þjóðaratkvæðagreiðslu 20. október voru orðin „fullt gjald“ notuð og það var eftir mjög ítarlega og langa yfirlegu stjórnlagaráðs um hvaða orð ætti að nota í þessu tilviki. Í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd gekk hugtakið „fullt gjald“ hins vegar gegn hugmyndafræði fulltrúa Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í nefndinni, hv. þm. Álfheiðar Ingadóttur, og flokksfélaga hennar. Þau gáfu sig ekki með það að taka út hugtakið „fullt gjald“ og setja inn eitthvað annað í staðinn. Þau sögðu sem svo, og stilltu einfaldlega restinni af nefndinni upp við vegg með það, að málið færi ekki út úr nefndinni nema þau fengju sitt fram.

Slík eru vinnubrögðin á hinu háa Alþingi Íslendinga sem oft er kallað svo á tyllidögum, fólk hikar ekki við að stilla félögum sínum upp við vegg. Þrátt fyrir að að baki hugmyndinni sé yfirgnæfandi meirihlutasamþykki í þjóðaratkvæðagreiðslu er fólki einfaldlega alveg nákvæmlega sama. Það að veifa löngutöng framan í almenning er regla en ekki undantekning hvað fjölmörg mál varðar.

Forseti. Það eru mjög margar merkar greinar í þessari breytingartillögu hv. þm. Margrétar Tryggvadóttur sem verður fjallað um hér og greidd atkvæði um síðar í dag. Þar á meðal eru greinar um beint lýðræði sem þjóðin greiddi atkvæði um og samþykkti með yfirgnæfandi meiri hluta í þjóðaratkvæðagreiðslunni. Það er kosningaákvæðisgreinin, 40. gr., þar sem kveðið er á um að tekið sé á því grófa mannréttindabroti sem lengi hefur viðgengist á Íslandi sem er ójafnt vægi atkvæða. Í 40. gr. segir, með leyfi forseta:

„Á Alþingi eiga sæti 63 þingmenn, kosnir leynilegri kosningu til fjögurra ára.

Atkvæði kjósenda alls staðar á landinu vega jafnt eftir því sem frekast er unnt.“

Hv. þingmenn Samfylkingar, Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og fulltrúar stjórnmálaaflsins Bjartrar framtíðar munu hafna þessum mannréttindum hér síðar í dag. Þeir munu hafna því að hver einstaklingur, kjósandi á Íslandi, hafi eitt atkvæði í kosningum. Þeir munu leggja til að áfram verði við lýði kosningarréttur sem að upplagi er 100% mismunun þar sem þingmenn í þremur landsbyggðarkjördæmum hafa í raun tvö atkvæði á við eitt hjá þeim þingmönnum sem búa á höfuðborgarsvæðinu.

Þetta hlutfall hefur verið hærra og er núna komið niður í 100%. Það er rétt að geta þess að Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu hafnar slíkri misskiptingu á lýðræði og segir að í undantekningartilvikum, þar sem ekki verður öðru komið við, sé heimilt að hafa þetta misvægi 10% en aldrei meira en 15% án þess að gripið sé til aðgerða. Á Íslandi er þetta misvægi atkvæða 100%.

Það hefur verið krafa samfélagsins óralengi að þetta yrði jafnað, og þess hefur líka verið krafist á þingi, en vegna bolabragða og baktjaldamakks þeirra sem hafa lagt fram frumvarp til stjórnarskipunarlaga um breytingu á breytingum á stjórnarskránni og hafna því að stjórnarskráin í heild sinni verði samþykkt munu Íslendingar um ókomna tíð búa við ójafnt vægi atkvæða og sennilega 100% ójafnt vægi atkvæða.

Hv. þm. Birgitta Jónsdóttir spyr hvað ég geti talað lengi. Ég á eftir 13,5 mínútur og mun að sjálfsögðu nýta þær.

Frú forseti. Í þessu kosningaákvæði, 40. gr., er líka talað um persónukjör. Það hefur verið krafa lengi að kjósendur fái meira val í kosningum, geti valið lista eða einstaka frambjóðendur í persónukjöri. Það er vegna þess að á framboðslistum fjórflokksins á Íslandi hefur viðgengist sú regla í að minnsta kosti þremur þeirra og oft þeim fjórða að litlar klíkur félaga og vina velja vini sína efst á listann og ef fólki hugnast að einhverju leyti hugmyndafræði þess framboðs en ekki þeir einstaklingar sem þar eru efstir á blaði hafa menn enga möguleika í stöðunni. Þeir annaðhvort sleppa því að kjósa, kjósa einhvern annan flokk eða eru neyddir til að kjósa fólk á lista sem því líkar ekki við. Í nútímalýðræðisríki er þetta óboðlegt og það er athyglisvert að strax í upphafi kjörtímabilsins lagði forsætisráðherra fram tvö frumvörp um persónukjör, annars vegar í sveitarstjórnarkosningum og hins vegar í þingkosningum, glæsileg frumvörp sem hefðu leitt til þess að kjósendur hefðu getað valið þá þingmenn á þing sem þeir helst vilja. Núna geta þeir það ekki og munu ekki í náinni framtíð hafa aðgang að persónukjöri.

Það var athyglisvert að sjá vegferð þeirra frumvarpa því að þó að þau væru lögð fram af meiri hlutanum og af hæstv. forsætisráðherra dagaði þau uppi í allsherjarnefnd sem þá var leidd af þingmanni Samfylkingarinnar. Varaformaður þeirrar nefndar var þingmaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, báðir formenn konur, og rökin fyrir andstöðu þeirra við málið voru að þetta gæti hugsanlega haft áhrif á framgang kvenna í stjórnmálum. Þessu héldu hv. þingmenn fram þrátt fyrir að sýnt væri fram á að í þeim löndum þar sem persónukjör hefur verið við lýði er hlutfall kvenna í stjórnmálum hærra en annars staðar. Rök bíta ekki þegar um sérhagsmuni er að ræða og því fór sem fór. Frumvörp forsætisráðherra dagaði uppi, bæði málin, í allsherjarnefnd. Þau voru lögð fram ári síðar af, ef ég man rétt, hæstv. innanríkisráðherra og dagaði aftur uppi í nefnd vegna sömu sjónarmiða, vegna þess að sitjandi þingmenn á Alþingi Íslendinga geta ekki hugsað sér að almennir kjósendur fái einhverju um það ráðið hverjir sitja á Alþingi Íslendinga fyrir utan að kjósa yfir sig heilan flokk. Þeir geta ekki hugsað sér að kjósendur muni hugsanlega hafna þeim og velja einhverja aðra sem þeim þykja hæfari.

Það er ömurlegt að verða vitni að því hvernig þingmenn á Alþingi setja í svo mörgum tilvikum sjálfa sig í fyrsta sæti þegar kemur að því að velta fyrir sér þýðingu frumvarpa sem eru lögð fram. Þeir setja sjálfa sig í fyrsta sæti og hugsa með sér: Hvað þýðir þetta frumvarp fyrir mig persónulega?

Í annað sæti setja þeir flokkinn sinn: Hvaða þýðingu hefur þetta frumvarp hugsanlega fyrir flokkinn minn? Einhvers staðar neðar á listanum, í þriðja, fjórða eða fimmta sæti, velta þeir kannski fyrir sér hvaða þýðingu þetta frumvarp hafi fyrir almenning í landinu. Sjálfhverfa þingmanna eins og ég hef upplifað hana undanfarin fjögur ár er með slíkum ólíkindum að mér býður oft við því, almannahagur, almannaheill, réttindi kjósenda eru aukaatriði í málunum. Framganga flokksins og einstaklinganna innan flokksins og sérhagsmunir að baki flokkanna eru númer eitt, númer tvö og númer þrjú.

Það verður mjög dapurlegt að fá ekki inn nýtt ákvæði um alþingiskosningar vegna þess að einhverra hluta vegna vilja sitjandi þingmenn í dag ekki þær breytingar.

Frú forseti. Í breytingartillögu Margrétar Tryggvadóttur eru líka ákvæði úr framhaldsnefndaráliti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar um beint lýðræði. Það eru þrjár greinar, 66. gr., 67. gr. og 68. gr. Lengi hefur verið krafist beinna lýðræðis og beins lýðræðis. Á þessu kjörtímabili voru tvær þjóðaratkvæðagreiðslur um Icesave-málið þar sem beint lýðræði kom við sögu og þrátt fyrir allar úrtöluraddirnar komst þjóðin frá þeim málum með glæsibrag. Það var valið til stjórnlagaráðs með beinu lýðræði, persónukjöri. Yfir 500 manns buðu sig fram. Sumir hafa talað um að ekki hefðu verið nægilega margir af landsbyggðinni í því stjórnlagaráði en þegar grannt er skoðað kemur í ljós að hlutfall þeirra sem buðu sig fram á landsbyggðinni náði kjöri í réttum hlutföllum inn á stjórnlagaráð. Vissulega hefðu fleiri utan af landi mátt bjóða sig fram en menn fá ekki kjör ef þeir bjóða sig ekki fram. Þannig er það bara.

Hér í þessum þremur greinum, 66., 67. og 68. gr., eru gríðarlega mikilvæg atriði sem veita Alþingi Íslendinga og þingmönnum og þingflokkum aðhald utan frá. Vissulega var það aðhaldsleysi utan frá sem gerði það að verkum að jábræðralagið inni á Alþingi, sú skyldleikaræktun sem átt hefur sér stað í áratugi milli stjórnmálaflokka, leiddi til þess að hrunið læddist ekki aftan að mönnum heldur varð einfaldlega til.

Í 66. gr. segir um málskot til þjóðarinnar, með leyfi forseta:

„Tíu af hundraði kjósenda geta krafist þjóðaratkvæðis um lög sem Alþingi hefur samþykkt. Kröfuna ber að leggja fram innan þriggja mánaða frá samþykkt laganna. Lögin falla úr gildi ef kjósendur hafna þeim en annars halda þau gildi sínu. Alþingi getur þó ákveðið að fella lögin úr gildi áður en til þjóðaratkvæðis kemur eða fresta gildistöku þeirra þar til atkvæðagreiðslan hefur farið fram.

Þjóðaratkvæðagreiðslan skal fara fram innan árs frá því að krafa kjósenda var lögð fram.“

Frú forseti. Síðar í dag munu þingmenn Samfylkingarinnar og ráðherrar hennar, þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og þingmenn þess fyrirbæris sem kallar sig Bjarta framtíð hafna því að þessi grein verði til í íslenskri stjórnarskrá. Það er dapurleg niðurstaða tilraunar til að efla lýðræðið í landinu og veita því aðhald almennings sem mjög margir kalla spillt stjórnmálaumhverfi.

Með leyfi forseta segir í 67. gr., Þingmál að frumkvæði kjósenda:

„Tveir af hundraði kjósenda geta lagt fram frumvarp til laga eða tillögu til þingsályktunar á Alþingi.

Tíu af hundraði kjósenda geta lagt frumvarp til laga fyrir Alþingi. Alþingi getur lagt fram gagntillögu í formi annars frumvarps. Hafi frumvarp kjósenda ekki verið dregið til baka skal bera það undir þjóðaratkvæði, svo og frumvarp Alþingis komi það fram. Alþingi getur ákveðið að þjóðaratkvæðagreiðslan skuli vera bindandi.

Þjóðaratkvæðagreiðsla um frumvarp að tillögu kjósenda skal fara fram innan tveggja ára frá því að málið hefur verið afhent Alþingi.“

Frú forseti. Hér er gert ráð fyrir því að kjósendur sjálfir geti að eigin frumkvæði með nægilega mörgum undirskriftum lagt fram þingmál og óskað eftir því að Alþingi fjalli um tiltekin mál. Hvers vegna vilja menn það ekki? Hvað er að því? Við hvað eru menn hræddir? Hvaða hagsmunir eru að baki sem hafa gert það að verkum að svona ákvæði verða stöðvuð hér í atkvæðagreiðslu síðar í dag? Á hvaða vegferð eru þingmenn Samfylkingarinnar, Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og fyrirbærisins Bjartrar framtíðar þegar þeir vilja ekki svona ákvæði í stjórnarskrá? Spyr sá sem ekki veit, en það er ömurlegt að verða vitni að því hvernig er að fara fyrir þessu máli.

Í 68. gr., Framkvæmd undirskriftasöfnunar og þjóðaratkvæðagreiðslu, sem er þriðja greinin sem snýr að hugtakinu beint lýðræði segir, með leyfi forseta:

„Mál sem er borið undir þjóðaratkvæði að kröfu eða frumkvæði kjósenda samkvæmt ákvæðum 66. og 67. gr. skal varða almannahag. Á grundvelli þeirra er hvorki hægt að krefjast atkvæðagreiðslu um fjárlög, fjáraukalög, lög sem eru sett til að framfylgja þjóðréttarskuldbindingum né heldur um skattamálefni eða ríkisborgararétt. Rísi ágreiningur um hvort mál uppfylli framangreind skilyrði skera dómstólar þar úr. Þess skal gætt að frumvarp að tillögu kjósenda samrýmist stjórnarskrá. Rísi ágreiningur þar um skal leita álits Lögréttu.

Í lögum skal kveðið á um framkvæmd málskots eða frumkvæðis kjósenda, svo sem um form og fyrirsvar fyrir kröfunni, tímafrest til söfnunar undirskrifta og um fyrirkomulag þeirra, hverju megi til kosta við kynningu á meðferð málsins á Alþingi og hvernig afturkalla megi kröfuna að fengnum viðbrögðum Alþingis, svo og um hvernig haga skuli atkvæðagreiðslu.“

Frú forseti. Þetta er einfaldlega útfærslugrein á beina lýðræðinu, þessum glæsilegu tveimur greinum sem komu á undan sem gefa almenningi kost á því með undirskrift 10% atkvæðisbærra manna að lög sem Alþingi hefur samþykkt fari í þjóðaratkvæðagreiðslu. Sá málskotsréttur hefur hingað til verið hjá forseta en nú er sú staða komin upp hér á Alþingi Íslendinga að lítill hópur þingmanna mun, þrátt fyrir að beina lýðræðið hafi verið samþykkt með yfirgnæfandi meiri hluta í þjóðaratkvæðagreiðslunni, sýna þeirri þjóðaratkvæðagreiðslu og þeim þjóðarvilja löngutöng í enn einu málinu sem þó var spurt um með beinni spurningu í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Það tjón sem þetta þing og þeir þingmenn sem hér sitja eru að vinna á fyrirbærinu þjóðaratkvæðagreiðslu og á lýðræðinu sjálfu hér þegar gengið verður til atkvæða um þetta mál síðar í dag verður sennilega aldrei bætt.

Frú forseti. Í veraldarsögunni sér maður að þjóðir koma og fara. Og þær fara af tveimur ástæðum. Önnur er sú að þær lenda í styrjaldarátökum, verða undir í styrjaldarátökum, eru yfirteknar af öðrum ríkjum vegna styrjaldarátaka eða afleiðinga þeirra. Um það eru mýmörg dæmi. Hin leiðin sem hefur leitt til þess að þjóðríki fara, hverfa af hnettinum sem sjálfstæð, fullvalda fyrirbæri er að þau úrkynjast innan frá. Um það hefur mannkynssagan líka fjölmörg dæmi. Gjörspillt stjórnarfar, stjórnmálamenn, einræðisherrar, lýðræðislega kjörnir hafa gert það að verkum að heilu þjóðríkin hafa úrkynjast innan frá og hrunið saman vegna eigin vanhæfni til þess að takast á við mál og vegna eigin vanhæfni til þess að breytast. Því miður held ég að í framhaldinu af þessu kjörtímabili og því næsta og því þarnæsta verði það líkleg örlög íslenska lýðveldisins. Það mun leka (Forseti hringir.) í einhverjum aumingjagangi inn í efnahagsbandalag Evrópu sem einhvers konar útnári á því sambandi vegna þess að íslenskir stjórnmálamenn valda ekki lýðræðinu.