142. löggjafarþing — 1. fundur,  6. júní 2013.

rannsókn kjörbréfa.

[16:03]
Horfa

Frsm. kjörbn. (Birgir Ármannsson) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir áliti og tillögum kjörbréfanefndar sem hefur verið lagt fram í þingsalnum og þingmenn hafa á borðum fyrir framan sig. Kjörbréfanefnd hefur haft til athugunar þau kjörbréf sem landskjörstjórn gaf út 6. maí síðastliðinn í samræmi við úrslit alþingiskosninga sem fóru fram 27. apríl 2013. Innanríkisráðuneytið hefur í samræmi við fyrirmæli laga sent Alþingi alls 65 ágreiningsatkvæði til meðferðar og nefndinni bárust samtals níu kærur, samanber 118. og 120. gr. laga um kosningar til Alþingis.

Ég ætla að hlaupa mjög stutt á þeim þáttum. Ég vildi geta þess að kjörbréfanefnd átti fund hér fyrr í dag en fulltrúar allra flokka hafa hins vegar unnið að undirbúningi málsins undanfarna daga. Þeir hafa haldið eina þrjá fundi um það og farið nokkuð ítarlega í gegnum málið fyrir daginn í dag til þess að vinna í haginn, en sú niðurstaða sem liggur fyrir hér er álitið sem nefndin komst að að loknum fundi sínum í dag.

Það er um ágreiningsatkvæðin að segja að þau eru af ýmsum toga. Ég ætla ekki að rekja í smáatriðum hvernig þeir ágallar voru sem höfðu valdið því að yfirkjörstjórnir höfðu ekki náð saman um niðurstöðu hvað það varðar og ýmist úrskurðað atkvæðin gild eða ógild. Það sem skiptir kannski mestu máli í því er að þrátt fyrir nokkurn fjölda ágreiningsatkvæða var alveg ljóst frá upphafi í starfi nefndarinnar að ágreiningsatkvæðin hefðu engu breytt til eða frá um niðurstöður kosninganna. Við fjölluðum í rauninni um þetta, ekki út frá því að það gæti með nokkrum hætti haft áhrif á úthlutun þingsæta eða þess háttar sem áður hafði verið gerð grein fyrir, en við fjölluðum hins vegar um það efnislega í því skyni að það gæti hugsanlega skapað fordæmi og í samræmi við skyldur kjörbréfanefndar lögum samkvæmt.

Þarna var um ræða að í allnokkrum tilvikum, og flestum tilvikum, voru niðurstöður yfirkjörstjórna staðfestar eða kjörbréfanefnd komst að sömu niðurstöðu og yfirkjörstjórnir, en í nokkrum tilvikum var mat kjörbréfanefndar annað. Ég vildi kannski fyrst og fremst, án þess að fara nánar út í einstök dæmi eða einstök álit eða álitamál sem upp komu að því leyti, geta þess að það var mat okkar í kjörbréfanefnd að æskilegt væri að vinnulag væri samræmt betur milli kjördæma en raunin virðist vera. Eins og það birtist okkur í kjörbréfanefnd hefur að nokkru leyti verið um að ræða mismunandi framkvæmd og mismunandi mat af hálfu yfirkjörstjórna í einstökum kjördæmum og það var okkar álit að æskilegt væri að þarna væri um meiri samræmingu að ræða.

Kosningakærur voru allnokkrar eins og ég gat um áðan. Án þess að fara ítarlega í það sem er að finna í nefndarálitinu vil ég geta þess að það var mat okkar í kjörbréfanefnd að kærurnar gæfu ekki tilefni til að breyta með nokkrum hætti niðurstöðum kosninganna. Kærurnar lúta í mörgum atriðum að málum sem eiga ekki beinlínis heima undir mat Alþingis heldur ber að kæra til lögreglu samkvæmt kosningalögum. Þau atriði munu hafa verið kærð til lögreglu og er þá hennar að meta hvort þeir annmarkar, meintu annmarkar á framkvæmd kosninganna sem getið er um, gefi tilefni til einhverrar rannsóknar. Það er alla vega ekki atriði sem kjörbréfanefnd taldi í sínum verkahring að fjalla um. Í öðrum tilvikum er um að ræða atriði sem snúast ekki beinlínis um að kosningarnar eða framkvæmd þeirra, ákvarðanir yfirvalda í því sambandi, væru í bága við lög heldur er fyrst og fremst verið að kvarta yfir lögunum, kosningalögunum. Það má segja að þar sé um að ræða atriði sem kjörbréfanefnd tekur að sjálfsögðu ekki afstöðu til. Vilji menn breyta lögunum þarf að fara aðrar leiðir til þess þannig að þau atriði sem snúa fyrst og fremst að ákvæðum í kosningalögunum komu ekki til skoðunar af okkar hálfu.

Til þess að drepa á helstu atriðin sem var verið að kvarta yfir eða kæra var í fyrsta lagi kvörtun sem laut að því að úthlutun þingsæta væri ekki í samræmi við jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar. Er það atriði sem hefur áður komið til kasta kjörbréfanefndar og eins og áður komst kjörbréfanefnd að þeirri niðurstöðu að jafnræðisreglan í 65. gr. breytti ekki þeirri sérreglu sem má finna í 31. gr. stjórnarskrárinnar þar sem er gert ráð fyrir ákveðnu misvægi. Það atriði sem slíkt telur kjörbréfanefnd ekki að varði ógildi kosninganna.

Í annan stað voru kæruatriði sem lutu að ýmsum verklagsreglum og framkvæmd á kjörstað og fleira þess háttar. Um þau segjum við sem svo að þau heyri ekki undir úrskurð kjörbréfanefndar en við tökum þó undir það að með sama hætti og í sambandi við ágreiningsatkvæðin sé æskilegt að verklag og framkvæmd séu samræmd meira milli kjördæma og kjörstaða en verið hefur og komum á framfæri almennri ábendingu um það sem er að finna í nefndarálitinu.

Í þriðja lagi voru allnokkrar kærur, fimm kærur, sem voru nokkurn veginn samhljóða og fjölluðu um mörg atriði, bæði hvað varðar framkvæmd og annað. Það má segja að það sem var nýtt í þeim kærum sé að einstaklingar kærðu að þeim hefði verið meinað að bjóða fram sem einstaklingar eða persónur í kosningunum en kjörstjórnir höfðu, eins og hv. þingmenn þekkja, gert kröfu um að menn legðu fram framboðslista. Þetta er atriði sem hefur verið nokkuð til umfjöllunar í fjölmiðlum og var niðurstaða kjörbréfanefndar að ekki væri tilefni til þess að komast að annarri niðurstöðu en kjörstjórnir og önnur yfirvöld um atriðið, þ.e. að framboð einstaklinga í eigin nafni og án þess að þeir væru á listum gætu ekki talist gild. Við vorum í raun og veru, þó að við séum ekki beinlínis að staðfesta niðurstöður kjörstjórna, að komast að sambærilegri niðurstöðu og kjörstjórnir, landskjörstjórn, um það atriði.

Fjórða atriðið sem ég vildi nefna er nafnlaus kæra sem barst vegna óhæfilegs eða óleyfilegs kosningaáróðurs sem hinn nafnlausi kærandi taldi að varðaði kosningaspjöll. Við veltum því nokkuð fyrir okkur hvort við ættum yfir höfuð að taka afstöðu til nafnlausrar kæru en athuguðum hins vegar í því sambandi að kjörbréfanefnd og þingið sem slíkt getur tekið afstöðu til ágalla á kosningum og kosningaframkvæmd þó að ekki sé sérstaklega kært út af þeim atriðum. Þannig að þó að maður hafi kannski tilhneigingu til þess að horfa fram hjá nafnlausu kærunni er kæra ekki skilyrði þess að Alþingi taki álitaefni til meðferðar. Við gerðum það og komumst að þeirri niðurstöðu að ekkert tilefni væri til þess að ógilda kosningarnar á þeim grundvelli að hafður hefði verið í frammi óleyfilegur áróður. Við fórum sem sagt ekki í rannsókn á því hvort kosningaloforð einstakra flokka eða einstakra frambjóðenda væru raunhæf eða framkvæmanleg eða fælu í sér óleyfileg loforð til einstakra einstaklinga eða hópa.

Síðasta atriðið sem við tókum afstöðu til varðaði það að kosningum og kosningalögum hefði ekki verið breytt til samræmis niðurstöðu ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu 20. október því að eins og menn muna var þar fjallað um atriði sem snerta kosningalögin. Jafnframt var í því erindi krafa um að nýkjörið Alþingi samþykki breytingar á kosningalögum til samræmis við niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar. Það er auðvitað, eins og hv. þingmenn átta sig á, pólitískt atriði en ekki atriði sem kjörbréfanefnd getur kveðið upp úrskurð um, það á ekki undir úrskurð Alþingis miðað við kosningalögin. Vilji menn fylgja því máli eftir með pólitískum hætti er það auðvitað undir hverjum og einum komið að fylgja því eftir en kjörbréfanefnd sem slík tekur ekki afstöðu til þess eða ógildir ekki kosningar eða kjörbréf einstakra þingmanna á þeim forsendum.

Í niðurlagsorðum nefndarálits er að finna vangaveltur af hálfu nefndarinnar. Nú er kjörbréfanefnd auðvitað fyrst og fremst ætlað að skera úr um gildi kjörbréfa, en fyrir því eru fordæmi að kjörbréfanefnd hafi látið í ljós sjónarmið og það er gert í þessu tilviki. Fram kemur að nefndin telur að það sé að mörgu að huga í sambandi við endurskoðun kosningalaga og nefnir að almenn endurskoðun kosningalaga sé æskileg. Jafnframt nefnum við það í nefndaráliti kjörbréfanefndar að innan nefndarinnar og í þeim umræðum sem áttu sér stað á þeim vettvangi var rætt um frekari jöfnun atkvæðisréttar. Innan nefndarinnar var bent á að með breytingum á kosningalögum mætti jafna atkvæðisrétt milli kjördæma og milli stjórnmálasamtaka meira en er í núgildandi kosningalögum. Þær vangaveltur koma fyrst og fremst til vegna þess að í nýliðnum kosningum var nokkuð meiri munur milli framboða en verið hefur. Við þekkjum muninn sem er milli kjördæma, og stjórnarskrá og kosningalög gera ráð fyrir því, en eins og úrslit féllu í þessum kosningum, sennilega aðallega vegna fjölda framboða, verður nokkuð meiri munur milli framboða en gert er ráð fyrir í stjórnarskránni og við bendum á að leiðir séu í kosningalögum til þess að koma til móts við þau atriði.

Ég verð þó að geta þess að innan nefndarinnar var álitamál hvort nefndin ætti að fara út í vangaveltur af því tagi, ég tel rétt að geta þess hér. Við lögðum hins vegar áherslu á að reyna að ná sem bestri samstöðu um niðurstöðuna og ég held að orðalagið í textanum endurspegli að komið hafi verið til móts við athugasemdir sem vörðuðu þau atriði.

Ég ætla ekki að hafa þessa ræðu lengri. Ég vil bara geta þess að nefndin stendur saman að því að leggja til í samræmi við 46. gr. stjórnarskrárinnar og 2. mgr. 1. gr., samanber 5. gr., laga um þingsköp Alþingis að alþingiskosningarnar 27. apríl teljist gildar og að kjörbréf aðalmanna og varamanna verði samþykkt eins og þeir eru tilgreindir í áliti og tillögum nefndarinnar sem hefur verið lagt fram.

Undir þetta álit rita auk þess sem hér stendur hv. þm. Vigdís Hauksdóttir, Unnur Brá Konráðsdóttir, Silja Dögg Gunnarsdóttir, Össur Skarphéðinsson, Árni Þór Sigurðsson, Páll Valur Björnsson, Helgi Hrafn Gunnarsson og Höskuldur Þórhallsson.