142. löggjafarþing — 2. fundur,  10. júní 2013.

stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana.

[21:36]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Herra forseti, góðir landsmenn. Mig langar að byrja fyrstu ræðu mína á þingi á því að vitna í merkan mann sem ég hef miklar mætur á. Það er rithöfundurinn Jón Sveinsson, Nonni. 12 ára gamall flutti hann til Evrópu og kom aðeins tvisvar aftur heim til Íslands. Í seinna skiptið kom hann í boði ríkisstjórnarinnar á alþingishátíðina árið 1930. Við það tilefni hitti Nonni Valtý Stefánsson ritstjóra sem mörgum árum síðar rifjaði samtalið upp í grein sem birtist í Lesbók Morgunblaðsins. Nonni sagði, með leyfi forseta:

„Líði ykkur öllum vel. Hættið að rífast, eins og þið gerið. Jeg hefi talað við menn af öllum flokkum. Þið eruð ekki eins ósammála eins og þið haldið. Í rauninni viljið þið allir það sama. Hag og velferð fósturjarðarinnar.“

Nú, 83 árum eftir að Nonni lét þessi orð falla, finnst mér rétt að rifja þau upp. Við eigum það nefnilega til að rífast um allt og ekkert, líka um mál sem við erum í grunninn sammála um.

Hæstv. forsætisráðherra segir í ræðu sinni ánægjulegt að heyra forustumenn stjórnarandstöðuflokka tala um mikilvægi breyttra vinnubragða og meiri samvinnu. Við erum held ég öll sammála, sem nú sitjum á þingi, að það sé löngu tímabært að hefja umræðuna á hærra plan og upp úr hinum margumtöluðu skotgröfum. Ég óska þess að ríkisstjórnin verði farsæl og muni eiga góða samvinnu við minni hlutann og vinna að málum í sátt. Eitt af því sem Björt framtíð leggur mikla áherslu á er einmitt sátt og samræða. Við erum, eins og fleiri, þreytt á þeirri umræðuhefð sem ríkir svo víða í þjóðfélaginu og endurspeglast allt of vel á Alþingi.

Ég verð stundum vör við þann misskilning að sátt merki að allir eigi að vera sammála. Það er ekki alveg svo einfalt. Núna stöndum við til dæmis frammi fyrir stórum málum sem við munum eflaust deila um og við í Bjartri framtíð höfum sterkar skoðanir á. Það má nefna virkjunarmál, stóriðjuáform, stjórnarskrána, gjaldmiðilinn og aðildarviðræðurnar við ESB. Við munum eflaust ekki verða sammála í öllum tilfellum en fólk getur betur sætt sig við niðurstöður ef vandað er til verka og ákvarðanir eru teknar með lýðræðislegum og opnum hætti. Það skiptir líka máli að ákvarðanir byggi á góðum upplýsingum og tekið sé tillit til ólíkra sjónarmiða og gilda.

Það ætti að vera markmið ríkisstjórnar hverju sinni að mál séu unnin þannig að sem mest sátt ríki um niðurstöðuna en ég legg áherslu á að ef markmiðið er að vinna að sátt þá er það vinna. Sáttin verður ekki til af sjálfu sér. Við megum heldur ekki gleyma að við erum sammála um mjög margt og það er ekki sjálfgefið. Við deilum til dæmis ekki um hvort það eigi að heimila konum að fara í fóstureyðingu eða hvort við ætlum að takmarka sölu á sjálfvirkum vopnum. Við erum blessunarlega sammála um að kynhneigð fólks sé algert aukaatriði og ekkert er fjarri okkur en að beita dauðarefsingum.

Í sumum löndum sem við berum okkur jafnvel saman við eru harðvítugar deilur um mál sem við þurfum ekki einu sinni að ræða, svo samstiga erum við í skoðunum okkar. Í kosningabaráttunni varð ég vör við að allir flokkar töluðu fyrir öflugu menntakerfi, góðri löggæslu og jöfnu aðgengi að góðri heilbrigðisþjónustu. Okkur greinir stundum á um leiðir að markmiðum en við erum heppin að búa í landi þar sem víðtæk sátt ríkir í mjög stórum og mikilvægum málum. En okkur Íslendingum hættir til að rífast fullmikið og umræðan á Íslandi einkennist of oft af gífuryrðum og dónaskap. Fólk sem hættir sér út á ritvöllinn og tjáir skoðanir sínar getur átt á hættu að fá yfir sig holskeflu af meiðandi ummælum. Ég er hugsi yfir þeirri þróun.

Getum við ekki sammælst um að koma fram hvert við annað af virðingu og haga orðum okkur þannig að þau særi ekki? Vera kurteis. Við sem sitjum á Alþingi eigum að sjálfsögðu að ganga á undan með góðu fordæmi. Við erum fulltrúar þjóðarinnar og við eigum að taka það hlutverk alvarlega en þessi áminning gildir um samfélagið allt. Tölum saman eins og fullorðnu fólki sæmir, af vinsemd og virðingu. Tökum orð Jóns Sveinssonar, Nonna, til okkar: Hættum að rífast.