142. löggjafarþing — 3. fundur,  11. júní 2013.

staða aðildarviðræðna við ESB.

[13:58]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Forseti. Mig langar til þess að eiga orðastað við hæstv. utanríkisráðherra um svipað málefni og hann hefur þegar verið spurður út í og varðar stöðu aðildarviðræðna við Evrópusambandið. En spurningar mínar eru þó þess eðlis að hæstv. ráðherra mun ekki þurfa að leggja á sig ferð til Brussel til þess að leita svara eða undirbúa svörin.

Í stefnuræðu hæstv. forsætisráðherra í gær fjallaði hann talsvert um samstarf og samvinnu stjórnmálaflokka og lagði áherslu á að auka það frá því sem verið hefur. Ég fagna því. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er sagt, með leyfi forseta:

„Gert verður hlé á aðildarviðræðum Íslands við Evrópusambandið og úttekt gerð á stöðu viðræðnanna og þróun mála innan sambandsins. Úttektin verður lögð fyrir Alþingi til umfjöllunar og kynnt fyrir þjóðinni.“

Þær spurningar sem ég vil leggja fyrir hæstv. ráðherra eru að sjálfsögðu settar fram í því ljósi og í ljósi þeirra orða sem fallið hafa af hálfu ríkisstjórnarinnar um aukna samvinnu og samstarf milli stjórnmálaflokka. Ég vil þess vegna spyrja hæstv. utanríkisráðherra:

1. Hvernig hyggst ríkisstjórnin standa að téðri úttekt?

2. Hverjir munu vinna þá úttekt?

3. Verður skýrsla um stöðu aðildarviðræðnanna frá því í apríl síðastliðnum, upp á 77 blaðsíður eða þar um bil, höfð með í þeirri vinnu?

4. Munu stjórnmálaflokkarnir eiga aðkomu að vinnunni í samræmi við fyrirheit um aukið samstarf?

5. Hyggst ráðherra gera utanríkismálanefnd grein fyrir áformum ríkisstjórnarinnar í þessu efni?

6. Hver verður hlutdeild utanríkismálanefndar í þeirri vinnu sem fyrirhuguð er, sbr. 24. gr. þingskapalaga um samráð ríkisstjórnarinnar við nefndina í mikilvægum utanríkismálum?