142. löggjafarþing — 3. fundur,  11. júní 2013.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

1. mál
[16:37]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í fyrsta lagi var þetta óformlegur kaffihittingur í Vestmannaeyjum og menn ákváðu að túlka orð mín þar og fara með í fjölmiðla. Ég sagði aldrei að þetta hefði verið vond hugmynd. Ég lagði þetta mál fram sjálf. Ég sagði hins vegar: Sæjum við fram á að tekjur af ferðaþjónustu mundu aukast vegna fjölgunar ferðamanna á þessu ári þá kæmi þetta vel til álita, en tekjurnar yrðu að skila sér í gegnum ferðaþjónustuna, og þá væri ég til í að skoða þetta. Það sagði ég og við það stend ég. En við höfum ekki séð neitt slíkt enn þá, ekki neitt. Yfir þetta þurfa menn að fara. Það þarf að skoða þetta í samhengi við hlutina, í einhverju stóru samhengi. Það þarf að horfa á þetta í stóra samhenginu.

Varðandi það að vera á sömu blaðsíðu eru þessi mál sem hæstv. ráðherra nefnir — þetta eru svokallaðir veikleikar þegar kemur að fjárlögum hvers árs. Þeir koma upp á hverju ári og ef menn grípa ekki til neinna ráðstafana geta þeir raungerst.

Fráfarandi ríkisstjórn hafði gripið til ákveðinna mótvægisaðgerða í fyrsta lagi varðandi Íbúðalánasjóð. Er þá nýr fjármála- og efnahagsráðherra að boða það hér opinberlega að annaðhvort verði ekki farið í þessar mótvægisaðgerðir þannig að þær muni ekki skila neinum árangri eða er hann að segja okkur að komin sé einhver úttekt á stöðu Íbúðalánasjóðs sem segir að þessar mótvægisaðgerðir munu ekki geta haft nein áhrif á þessu ári? Þessu þarf að svara.

Í öðru lagi var horfið frá því að selja hluti í fjármálafyrirtækjum og tekin ákvörðun um að selja aðrar eignir ríkisins. Ég trúi ekki öðru en að menn ætli sér að halda því áfram. Eða er nýr fjármála- og efnahagsráðherra að boða það að menn séu hættir við þá sölu, þ.e. sölu á landi og núna ætli menn að leggja hendur í skaut?