142. löggjafarþing — 3. fundur,  11. júní 2013.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

1. mál
[16:42]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Ef ég skil hæstv. ráðherra rétt er hann að lýsa því að ferðaþjónustan hafi töluvert betri áhrif á ríkissjóð á þessu ári en menn höfðu gert áætlanir um. Ef svo er af hverju er það þá ekki tekið inn í tölur sem hæstv. ríkisstjórn boðar hér, alla mínusana sem þeir eru að boða, alla neikvæðnina og alla svartsýnina? Er hagur ríkissjóðs að vænkast vegna aukinnar komu ferðamanna?

Þá mynd alla verðum við að skoða þegar við erum að ræða stöðu ríkissjóðs. Það er eftir því sem ég er að kalla hér, að við skoðum myndina alla í heilu lagi og hættum að kallast á með þeim hrópum sem þessi nýja ríkisstjórn byrjaði út úr sumarbústaðnum á Þingvöllum í miðjum samningaviðræðum milli Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, þ.e. þegar hæstv. forsætisráðherra Sigmundur Davíð Gunnlaugsson steig fram til þess að undirbyggja að loforðin kæmu ekki öll til framkvæmda núna í sumar, kosningaloforðin, með því að segja að staða ríkissjóðs væri í raun og veru upplogin og uppdiktuð af fráfarandi ríkisstjórn. Það var það sem menn gáfu í skyn.

Við þurfum að hætta að kallast þannig á og fara að ræða heildarmyndina og þann veruleika sem við blasir. Sé það svo að ferðaþjónustan skili okkur og ríkissjóði umtalsvert meiri fjármunum en menn gerðu ráð fyrir eru það auðvitað jákvæðar upplýsingar og þá hljóta þær að koma fram alveg eins og hinar neikvæðu sem menn eru að reyna að búa til og draga upp mynd af.