142. löggjafarþing — 3. fundur,  11. júní 2013.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

1. mál
[17:18]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að rétt væri að leita liðsinnis hæstv. forseta, sem sagði hér í sinni fyrstu ræðu að mál þyrftu að koma snemma inn svo að við hefðum nægan tíma til að ræða þau. Gott og vel, við erum að fá fyrsta mál. Hvað ætlum við að gefa okkur langan tíma í það?

Það kann að vera að einn og hálfur milljarður skipti engu máli fyrir Sjálfstæðisflokkinn ef hann er gefinn til réttra aðila. (RR: Ömurleg klisja.) En það skiptir mjög miklu máli fyrir okkur sem erum að ráðstafa og höfum verið að skammta út (RR: Ömurleg klisja.) 30 til 40 milljónum á einstakar stofnanir, verið að mylgra til baka smáaurum vegna þess að við höfum ekki haft tekjur, og það er það umhverfi sem við erum að glíma við. Ég vil sjá þetta heildarsamhengi núna þegar við erum að leggja af stað með nýrri ríkisstjórn af því að við ætlum að styðja ríkisstjórnina til góðra verka, við ætlum að gera það. Við viljum fá endurreisn í velferðarkerfinu.

Það svíður svolítið að fá ekki tækifæri til að vinna til baka það sem við urðum að draga til baka. Við viljum fá tækifæri til þess, við ætlum að hjálpa ykkur við það. Þið megið þá ekki eyðileggja það með því að draga það í burtu sem þarf til þess að fjármagna það. Um það snýst umræðan í dag. Ég mundi aldrei stinga upp á því að þetta yrði óbreytt ef ég væri ekki sannfærður um að það muni ekki skaða ferðaþjónustuna. Ég geri mér alveg grein fyrir því af hverju við lifum. Við lifum auðvitað af þeim tekjum sem við fáum af atvinnulífi okkar.

Við skulum ekki heldur trúa því að með því að skammta þeim nóg og þeim sem mest hafa þá skili það sé best í hinn endann. Það er ekki reyndin sem var fyrir hrun í öllum heiminum og ekki heldur hér á Íslandi, því miður. Við höfum verið að reyna að snúa þessu við og við viljum ekki missa það. Við viljum halda jöfnuði sem verðmæti í íslensku samfélagi og ég vona að okkur takist það. Þess vegna er þetta prinsippmál hvað þetta varðar.

Ég er alveg sammála því að þetta veltir ekki fjárhagnum alveg til og frá. En það er kæruleysislega sagt að einn og hálfur milljarður skipti ekki máli þegar við höfum verið að glíma við 20 til 30 milljónir á einstökum stofnunum úti um allt land.