142. löggjafarþing — 3. fundur,  11. júní 2013.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

1. mál
[19:43]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Í fyrri ræðu minni í dag um málið sem er hér til umfjöllunar hafði mér tekist að koma flestum þeim sjónarmiðum á framfæri sem ég vildi í tengslum við það en þó er kannski örfáu við að bæta.

Í fyrsta lagi vil ég segja, og ítreka það sem ég sagði í dag, að ég sakna þess að ráðherra ferðamála skuli ekki vera viðstaddur umræðuna vegna þess að þetta mál er ekki bara skattamálefni heldur snýst umræðan, eins og komið hefur á daginn, að sjálfsögðu líka um málefni ferðaþjónustunnar almennt. Ég hefði talið mikilvægt að ráðherra ferðamála væri viðstödd umræðuna og hefði eftir atvikum tekið þátt í henni til að fjalla um málefni greinarinnar sem slíkrar. Af því tilefni vil ég jafnframt geta þess eða láta það koma fram að ég tel skynsamlegt og fer fram á það við hæstv. forseta að hann beiti sér fyrir því að þegar málið gengur væntanlega til efnahags- og viðskiptanefndar að lokinni þessari umræðu muni efnahags- og viðskiptanefnd einnig óska eftir umsögn atvinnuveganefndar, sem fjallar um málefni ferðaþjónustunnar, um þetta frumvarp.

Það eru örfá atriði sem ég ætlaði að nefna sem hefur verið komið aðeins inn á í þessari umræðu. Ég ætla enn á ný að leyfa mér að vísa í þá skýrslu sem ég gerði að umtalsefni í dag um áhrif þess að hækka virðisaukaskatt á gistiþjónustu sem Hagfræðistofnun háskólans vann að beiðni þáverandi fjármálaráðherra haustið 2012. Þá var reyndar fyrirhugað að hækka virðisaukaskattinn í 25,5%, eins og kunnugt er. Meginniðurstaða skýrslunnar eins og ég les hana er að þegar tekið er tillit til verðteygni bæði á framboðshlið og eftirspurnarhlið er það niðurstaðan, sem ég geri ráð fyrir, að ferðamönnum fækki um 0,6–1,1%. Reyndar var þá miðað við að skatturinn færi í 25,5% þannig að væntanlega eru áhrifin enn minni miðað við 14% virðisaukaskatt. Hér koma líka fram þær mikilvægu upplýsingar að greining á þróun verðs og gistingu í kjölfar þess að virðisaukaskatturinn var lækkaður úr 14% í 7% árið 2007 benti til þess að mestur hluti þeirrar lækkunar hefði fallið gistihúsum í skaut en verð á gistingu lítt lækkað. Með þeim hætti mætti líta á umrædda lækkun sem niðurgreiðslu eða styrk til atvinnugreinarinnar.

Í máli hv. þm. Valgerðar Bjarnadóttur á undan mér fjallaði hún í raun og veru talsvert um niðurgreiðslu til atvinnugreinar sem ferðaþjónustan á að sjálfsögðu ekki að þurfa á að halda. Það var líka fjallað um, og fleiri hafa komið inn á það, að mikilvægt sé að verðlagning í ferðaþjónustunni sé ákveðin og birt með góðum fyrirvara og ég tek undir það. Það er auðvitað mjög mikilvægt að það sé viss stöðugleiki og vissa um hvað bíður manna. Ég geng út frá því að núna sé til að mynda búið að verðleggja gistingu fyrir næsta haust almennt miðað við 14% virðisaukaskatt, eins og lögin gera ráð fyrir, lögin sem eru í gildi en hér er lagt til að verði felld úr gildi. Þá veltir maður því fyrir sér, ekki síst þegar höfð er í huga skýrsla Hagfræðistofnunar um áhrifin á lækkun úr 14% í 7% árið 2007 og ef maður gefur sér að búið sé að verðleggja gistinguna fyrir haustið, hvar þessi mismunur muni enda. Mun hann leiða til lækkunar á gistingu eða mun hann, eins og 2007, að mestu leyti lenda hjá greininni sjálfri? Þetta eru tilefni, finnst mér, til að skoða sérstaklega hvort hækkun úr 7% í 14, eins og gert hefur verið ráð fyrir, þurfi í raun að leiða til nokkurra áhrifa á verð á gistingu í landinu.

Ég tel mikilvægt að það verði skoðað í þingnefnd, efnahags- og viðskiptanefnd, og ég ítreka, virðulegur forseti, að ég óska eftir því að forseti beiti sér fyrir því að málið fái líka skoðun í atvinnuveganefnd, m.a. með hliðsjón af því hver áhrifin á atvinnugreinina í heild gætu orðið að gefnum þeim upplýsingum sem liggja fyrir í umræddri og téðri skýrslu.