142. löggjafarþing — 3. fundur,  11. júní 2013.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

1. mál
[20:06]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er gott að það eru skapandi lausnir á ferð og að hv. þingmaður er kominn hér með tillögu um að Náttúruminjasafni verði ekki búið heimili, ekki frekar hér eftir en hingað til. Það er náttúrlega samfélaginu til skammar að Náttúruminjasafn hefur ekki átt aðsetur fyrr en í þessum áformum sem eru slegin af í ræðu hv. þingmanns.

Ég vil segja þegar hv. þingmaður talar hástemmt um að kjósendur hafi hafnað vinstri gildum: Sú ríkisstjórn sem nú situr hér að völdum hefur 51% fylgi, hún hefur 51% kjósenda á bak við sig. Atkvæði allra kjósenda eru mikilvæg, allra kjósenda. Það er mikilvægt að hafa í huga ef manni þykir vænt um lýðræðið, að muna það að raddir stjórnarandstöðu og minni hluta hafa líka gildi.

Ég hef vissar áhyggjur af því og þeim tóni sem ég heyri strax í upphafi vegferðar nýs stjórnarmeirihluta og ríkisstjórnar sem er vottur — ég segi það nú bara til þess að leyfa fólki að njóta vafans — vottur af yfirlæti, vottur af því að strax í fyrsta óundirbúna fyrirspurnatíma nýrrar ríkisstjórnar tala ráðherrar ríkisstjórnarinnar í háðsglósum gagnvart eðlilegum spurningum stjórnarandstöðu. Ég vona að það sé ekki fyrirboði um það sem koma skal vegna þess að menn í hátíðarræðum boða samstarf og samvinnu en í nýrri þingsályktunartillögu um skuldavandann og aðgerðirnar tíu er hvergi talað um þverpólitíska samvinnu, hvergi talað um aðkomu minni hlutans og ég vona að við getum fært það til betri vegar í umræðu í þinginu.