142. löggjafarþing — 4. fundur,  12. júní 2013.

störf þingsins.

[15:19]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Kristjáni L. Möller fyrir fyrirspurn hans. Það er fagnaðarefni að hann skuli fagna því með okkur framsóknarmönnum að við skyldum hafa unnið kosningasigur. Ég þakka fyrir það.

Það er alveg dæmalaus þessi söngur í samfylkingarfólki eftir að þing kom saman. Raunverulega var sá söngur byrjaður fyrir kosningar að Framsóknarflokkurinn væri að setja Íslandsmet í kosningaloforðum. Ég bið fólk um að fara fjögur ár aftur í tímann í huga sínum og hugsa til þeirra orða sem glumdu í eyrum landsmanna: Skjaldborg um heimilin; velferðarbrú. Hvað voru þau annað en risastór kosningaloforð sem voru svo aldrei efnd á kjörtímabilinu, hvað þá heldur nokkru fyrir kosningar eins og maður hélt að mundi stefna í?

Virðulegi forseti. Ég minni nefnilega á það að Samfylkingin hefur setið sex ár í ríkisstjórn — sex ár í ríkisstjórn. Svo sprikla þingmenn Samfylkingarinnar hér í þingsal þegar ný ríkisstjórn hefur tekið við, einum og hálfum mánuði eftir kosningar, og ætla að fara af hjörunum yfir því að verið sé að svíkja einhver kosningaloforð.

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður spurði hér hvers vegna fasteignamarkaðurinn væri hruninn og hvers vegna hann væri í frosti. Það er ekki Framsóknarflokknum að kenna ef það er eitthvert smáhlé á viðskiptum á fasteignamarkaði. Ég minni á það að Samfylkingin fór með það ráðuneyti sem stýrði Íbúðalánasjóði síðastliðin fjögur ár, síðastliðin sex ár líklega, þannig að við vitum nú öll í hvaða vandræðum Íbúðalánasjóður er, sem dæmi, því ekki tínir fólk peninga af trjánum.

Við verðum að gefa nýrri ríkisstjórn tíma til þess að koma fram með frumvörp sem standast stjórnarskrá. Það er meira en hægt er að segja um Samfylkinguna á síðasta kjörtímabili, Árna Páls-lögin til dæmis sem leiddu af sér lögsókn. Við skulum gefa ríkisstjórninni tíma fram á haust því að nú þegar (Forseti hringir.) hefur verið lögð fram þingsályktunartillaga í þinginu (Forseti hringir.) með aðgerðaáætlun sem nær (Forseti hringir.) fram á haust.