142. löggjafarþing — 4. fundur,  12. júní 2013.

stjórnarskipunarlög.

5. mál
[16:42]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum breytingar á stjórnarskrá í annað sinn eins og 79. gr. núgildandi stjórnarskrár gerir ráð fyrir, þ.e. að þær séu fyrst samþykktar á einu þingi og síðan aftur á öðru, og þess vegna bar nauðsyn til að leggja þetta mál fram núna til að fjalla um það og annaðhvort samþykkja það eða hafna því.

Mikil umræða fór fram á síðasta kjörtímabili um nýja stjórnarskrá. Mér fannst stundum eins og menn teldu að allur vandi atvinnulífs og heimila yrði leystur ef breytt yrði um stjórnarskrá. Hins vegar hafa aðrir haldið því fram að núgildandi stjórnarskrá hafi bara staðið ljómandi vel. Hún kom til dæmis í veg fyrir Icesave-óhamingjuna og hefur fleytt okkur í gegnum það hrun sem við urðum fyrir þannig að það er spurning hvort hún sé svo slæm að skipta þurfi um hana alla.

Í stjórnarskránni eru ákvæði sem eru dálítið undarleg, eins og ákvæðið um forsetann að hann gerir samninga við erlend ríki. Nú vita allir sem betur þekkja til að það er utanríkisráðherra og ríkisstjórn sem gera samninga við erlend ríki. Það er gert á grundvelli 13. gr. þar sem stendur í núgildandi stjórnarskrá að forsetinn framselji vald sitt til ráðherra sem er mjög merkilegt og ber keim af því að einhver kóngur úti í heimi, sennilega Danakóngur, hefur misst völdin en fengið að halda þeim gegn því að fela valdið til ráðherra, þ.e. hann var gerður valdalaus. Mér finnst að menn ættu að sameinast um að taka svona ákvæði út, sem eru bara mótsagnakennd. Ef einhver bláeygður les þetta kynni hann að halda að forsetinn væri mjög valdamikill en hann er það ekki (Gripið fram í.) þó að sumir telji það.

Það sem þetta frumvarp gerir ráð fyrir, og ég lagði áherslu á undir lok síðasta þings til að bjarga málum, er að breytingarákvæðinu verði breytt þannig að menn geti með liprari og einfaldari hætti breytt stjórnarskránni. Mér fannst alveg sérstaklega mikilvægt að þjóðin kæmi að því, þ.e. að þjóðin samþykkti eigin stjórnarskrá. Mér finnst eiginlega fráleitt að hún geri það ekki en þannig hefur það verið hingað til.

Ég vildi hafa mjög háa þröskulda. Ég flutti frumvarp um að hafa þá 50%. Það var á grundvelli þess að um stjórnarskrá á að vera sátt. Menn eiga að vera sammála um það sem þar stendur. Það á ekki að kúga einn eða neinn til að lúta sinni stjórnarskrá. Þetta eiga að vera boðorðin tíu sem allir telja sjálfsögð.

Það frumvarp sem við ræðum hefur þann kost að það fer í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er 40% þröskuldur sem er nokkuð lágur að mínu mati en aðrir telja hann of háan, en ef allir eru sammála breytingunni er enginn vandi að fá fram 40% samþykki, þá þarf bara 41% að ganga til kosninga og 40% að samþykkja og málið er leyst. En það sem ég hef við þetta að athuga er hið valkvæða, að menn geti valið um hvort þeir láti núgildandi 79. gr. gilda eða nýja ákvæðið. Það finnst mér vera dálítið varasamt. Ég legg til að sú nefnd sem fær þetta til skoðunar skoði það vandlega, þó að ekki sé mikill tími til stefnu, hvort gæfulegt sé að hafa þetta ákvæði svona valkvætt og svo er það náttúrlega tímabundið. Nú kemur skemmtileg staða upp: Hvað gerist þegar menn nota þetta ákvæði til að breyta breytingarákvæðinu varanlega og taka hitt úr sambandi? Það er mjög athyglisverð umræða sem menn þyrftu að ræða, hvort hægt sé að nota tímabundið ákvæði til að gera það varanlegt, þ.e. að ákvæðið lifi í sjálfu sér, en það þarf náttúrlega samþykki.

Svo er annað. Ég gat um galla í núgildandi stjórnarskrá, þeir eru fjölmargir. Ég hef veifað þeim mest þingmanna í gegnum tíðina úr þessum ræðustól af því að ég les stjórnarskrána alltaf reglulega mér til dundurs. Í stjórnarskránni eru miklir gallar en það vantar líka í hana. Það er ekki orð um Hæstarétt í núgildandi stjórnarskrá. Hann er bara ekki til. Ég held að allir ættu að vera sammála um það að geta um Hæstarétt í stjórnarskránni. Það ætti að vera eitthvað sem allir hv. þingmenn ættu að geta verið sammála um og þjóðin líka þegar kemur að atkvæðagreiðslu. Það ætti ekki að vera mikill vandi að ná 40% þröskuldinum þar, fyrir utan að taka út þetta ákvæði um að forseti geri samninga við erlend ríki, um það geta allir verið sammála.

Það er heilmikið af málum sem ég held að þingið geti orðið sátt við og almennt allir. Við þurfum að leita að þeim samnefnara, byrja á því að finna hvað allir geta orðið sammála um og breyta svo stjórnarskránni þannig. Svo finnum við eitthvað meira sem við erum kannski minna sammála um og þannig fikrum við okkur fram eftir veginum svo að við séum alltaf sammála en kannski minna og minna sammála. Svo kemur að því að samstaðan brestur og við náum ekki þeim 40% sem krafist er og þá segir þjóðin hreinlega að hún sé ekki sammála. Það er í sjálfu sér ágætt.

Mér finnst að stjórnarskrá eigi að vera tregbreytanleg. Það á að vera mjög erfitt að breyta henni. Hún er grundvöllur allrar lagasetningar, dómstóla og framkvæmdarvalds. Hún er grundvöllur alls stjórnkerfisins og þess vegna á hún að vera tregbreytanleg. Hún á að vera eitthvað sem maður veit þegar maður vaknar á morgnana að verður í gildi að kvöldi, jafnvel að maður fæðist og veit að hún er í gildi alla ævi. Stjórnarskráin á að vera tregbreytanleg þannig að fólk viti: Þetta stendur í stjórnarskránni, það er þarna og er nokkurn veginn ævarandi.