142. löggjafarþing — 5. fundur,  13. júní 2013.

kaltjón og harðindi á Norður- og Austurlandi.

[11:20]
Horfa

Valgerður Gunnarsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Hér er til umræðu kaltjón og harðindi á Norður- og Austurlandi. Ég vil þakka hv. þm. Haraldi Benediktssyni fyrir að vekja máls á og fara yfir þá erfiðu stöðu sem bændur standa frammi fyrir. Eins og kom fram í máli hans bætist þessi mikli skaði á túnum ofan á mjög langan og snjóþungan vetur sem raunar hófst fyrir miðjan september í haust og olli þá miklum fjárskaða hjá bændum. Sem betur fer hefur það verið bætt að mestu og er vert að muna stuðning landsmanna í söfnunarátaki Landssambands sauðfjárbænda, Gengið til fjár. Þar söfnuðust yfir 40 millj. kr. til stuðnings bændum. Ég vil líka nefna þátt sýslumanns Þingeyinga, Svavars Pálssonar, og Maríu Svanþrúðar Jónsdóttur, ráðunauts hjá Búgarði á Húsavík, í aðgerðum og aðstoð við bændur í óveðrinu sem olli nefndum fjárskaða. Þau hlutu mikið lof fyrir sín vinnubrögð.

Nú ber að ný og önnur áföll hjá bændum. Kal í túnum er víða mjög mikið eins og fram hefur komið. Það hefur verið metið allt að 90%.

Ég átti samtal við bændur í Svarfaðardal og í Aðaldal og Jökuldal í gær. Í máli þeirra allra kemur fram að kal í túnum er á bilinu 30–90%. Misjafnt eftir svæðum, en jafnan mest í Þingeyjarsýslum.

Eins og fram hefur komið er kostnaður á hektara um 200 þús. kr. við að græða upp og bera á þessi tún aftur. Bændur sem eru með stór tún geta staðið frammi fyrir kostnaði sem liggur á bilinu 10–20 millj. kr. hjá hverjum bónda. (Forseti hringir.)

Virðulegi forseti. Þetta er ekkert annað en náttúruhamfarir. Ég tel að við þurfum á einhvern hátt að bregðast við.