142. löggjafarþing — 5. fundur,  13. júní 2013.

kaltjón og harðindi á Norður- og Austurlandi.

[11:24]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. málshefjanda fyrir að taka upp þetta brýna mál. Á síðustu árum og áratugum hefur reynt verulega á viðbrögð við náttúruhamförum hér á landi. Snjóflóð á Vestfjörðum, jarðskjálftar á Suðurlandi, eldgos í Fimmvörðuhálsi, Eyjafjallajökli og Grímsvötnum og nú síðast mikið óveður á Norðurlandi sem kallað hefur á samheldni og skipulögð vinnubrögð opinberra aðila.

Reynslan sem til er orðin eftir öll þessi ósköp hefur kallað á að skoða til framtíðar hvernig og að hvaða marki eigi að veita fé úr sameiginlegum sjóðum landsmanna vegna tjóns á óvátryggðum eignum. Eins og við höfum bæði heyrt og séð er ljóst að bændur á stórum landsvæðum standa frammi fyrir miklum vandræðum vegna kals og kulda. Gömlu túnin eru víða mörg skemmd og heilu túnin kalin á einstökum bæjum. Stór hluti endurræktaðra túna er einnig dauður. Vinna við að laga þá ræktun sem hefur eyðilagst vegna ótíðarinnar er afar kostnaðarsöm eins og komið hefur fram. Þar fyrir utan er fyrirsjáanlegt að mikið tjón hefur orðið á girðingum og trjágróður er víða illa farinn.

Eins og kom fram hjá málshefjanda hafa margir bændur þurft að flytja hey um langan veg, m.a. vegna þurrka síðasta árs, og mun svo verða áfram. Ljóst er að það er töluverður baggi á bændum ofan á þetta ástand þar sem flutningskostnaður er afar mikill og dýr eins og við vitum. Hvað er hægt að gera?

Ég held að flestir vilji að bændur fái aðstoð með einhverjum hætti, en Bjargráðasjóður er tómur eins og hér hefur komið fram að óbreyttu og önnur úrræði þurfa að koma til.

Virðulegur forseti. Skipaður var starfshópur af fyrrverandi forsætisráðherra sem skilaði skýrslu í desember með tillögum um fyrirkomulag bóta til tjónþola í kjölfar náttúruhamfara. Helsta niðurstaða nefndarinnar er að tjón af völdum náttúruhamfara verði fellt undir tryggingavernd af einhverju tagi og stofnaður verði sérstakur hamfarasjóður sem sinna á verkefnum varðandi forvarnir gegn náttúruvá og greiða bætur vegna náttúruhamfara sem ekki fást bættar úr vátryggingum. Lagt er til að aðilar að slíkum sjóði verði auk ríkissjóðs ýmsir veigamiklir hagsmunaaðilar og burðarásar í kjölfar náttúruhamfara, þar á meðal sveitarfélögin og Bændasamtök Íslands. (Forseti hringir.) Við Vinstri græn leggjum áherslu á að enginn þurfi að velkjast í vafa um að aðkomu og stuðning samfélagsins (Forseti hringir.) þegar tekist er á við atburði sem þessa. Því spyr ég hvort ráðherrann hyggist nýta sér vinnu starfshópsins og þá með hvaða hætti.