142. löggjafarþing — 5. fundur,  13. júní 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

11. mál
[12:18]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það verður ekki bæði sleppt og haldið í þessari rökræðu. Áðan var því haldið fram að grundvöllurinn að baki lagasetningunni hafi verið sá að tryggja að fram færi einhvers konar samráð um það hvernig stjórnin væri samansett. Það væri aðalatriðið.

Umræðan hefur verið önnur og ég er þeirrar skoðunar að það sé miklu eðlilegra að Alþingi Íslendinga, æðsta stofnun þjóðarinnar, skipi í þessa stjórn með lýðræðislegum og gagnsæjum hætti þannig að menn beri ábyrgð á vali sínu. Ég tel að valnefndarfyrirkomulagið hafi þann stóra galla að á bak við það sé hægt að fela alls konar pólitík og misbeitingu undir formerkjum fagmennsku eða armslengdar sem getur verið mjög varasamt. Ef það er svo að í sjálfu sér sé enginn stór grundvallarmunur þá er spurningin bara þessi: Teljum við það heppilegra út frá lýðræðislegum sjónarmiðum eða ekki?

Hvað varðar breiddina þá ítreka ég þau ummæli mín að þótt hér sitji atvinnustjórnmálamenn sem fái laun fyrir að sitja á Alþingi er sá hópur sem hér situr mjög breiður og státar af mjög breiðri og margbrotinni reynslu.

Virðulegi forseti. Maður getur velt fyrir sér þeirri ákvörðun sem var tekin um að Bandalag íslenskra listamanna og háskólasamfélagið, samráðsvettvangur háskólanna, skyldi tilnefna fulltrúa. Hvers vegna ekki aðrir? Nú er það til dæmis svo að stór hluti af starfsemi Ríkisútvarpsins snýr að íþróttamálum, útsendingum frá margs konar íþróttaviðburðum. Því skyldi ÍSÍ ekki hafa komið að þessu samráði? Við getum svo sem líka séð fyrir okkur ASÍ og fleiri hagsmunasamtök úr því að verið var að breikka valið með þessum hætti.

Virðulegi forseti. Ég held því fram og ítreka þá skoðun mína að í raun fari fram breiðara samráð í þinginu, fleiri sem koma að, 63 manna valnefnd, vissulega atvinnustjórnmálamanna sem fá greitt fyrir að sitja hér, en þeir eru 63. Í hinni valnefndinni sátu þrír skipaðir af Alþingi og síðan hinir tveir. (Forseti hringir.) Virðulegi forseti. Halda menn að þetta geri nú allan muninn?