142. löggjafarþing — 5. fundur,  13. júní 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

11. mál
[12:21]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Við getum auðvitað rifist hér endalaust um hvað er faglegt og hvað er pólitískt og við getum kannski líka trúað því að Kolbrún Halldórsdóttir sé ópólitísk ef einhver vill trúa því, en er enginn að velta því fyrir sér hvað stjórnarskráin skyldi segja í þessu öllu saman? Gerir hún ráð fyrir því — ég hef oft velt fyrir mér hver fann þetta upp — að einhver hagsmunasamtök úti í bæ stjórni ríkisstofnun? Hvernig gat það eiginlega gerst í upphafi? Það getur vel verið að það sé mínum flokki að kenna, en hvernig gerðist það?

Það ber enginn ábyrgð á ríkisstofnunum nema ráðherra, það er nú einu sinni þannig. Hann á að skipa í stjórn, að mínu viti. Mér finnst að menntamálaráðherra hefði átt að ganga lengra og segja einfaldlega að ráðherra skipi í þessa stjórn, að sjálfsögðu. Menn geta síðan haft einhverja skoðun á því, að Alþingi ætti að samþykkja það eða eitthvað slíkt, en ábyrgðin verður að liggja einhvers staðar. Hún liggur samkvæmt stjórnarskránni hjá ráðherra. Svo stjórnar bara eitthvert fólk úti í bæ stofnunum sem hann ber ábyrgð á. Hvernig getur það gengið? Af hverju þarf það að vera eitthvað faglegra? Ráðherra vill auðvitað fá fólk til að stjórna sem hann treystir, er faglegt, gerir síður mistök vegna þess að hann situr uppi með ábyrgðina. Þannig á þetta að vera og er í raun og veru ekkert flókið í mínum huga. Menn skulu ekki halda að það verði eitthvað faglegra með fólki úti í bæ. Reynslan held ég að kenni okkur annað.